Laugardagur 3. júlí 2004

185. tbl. 8. árg.

F uglarnir sem á dögunum efndu til útifundar, þar sem hundrað og fimmtíu manns eða svo mættu þeim til samlætis, og hafa síðan kallað sig Þjóðarhreyfinguna, Þjóðfylkinguna eða eitthvað álíka, hafa stofnað „viðbragðshóp“ til þess að „bregðast við“ því sem ákveðið kann að vera í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga frá Alþingi. Fyrir þessum „viðbragðshópi“ fer gamall og góður Möðruvellingur, Jónatan Þórmundsson prófessor í refsirétti. Fyrsta embættisverk Jónatans birtist landsmönnum síðastliðið miðvikudagskvöld, en þá var hann mættur í fréttir til að „bregðast við“ því áliti sem nefnd nokkurra hæstaréttarlögmanna hafði gefið stjórnvöldum. Jónatan var sárhneykslaður yfir því að samkvæmt tillögunum yrði ekki boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu og taldi hann það varla standast og að minnsta kosti myndi „þjóðin ekki láta bjóða sér það“.

Daginn eftir benti formaður starfshópsins vinsamlega á það, að í tillögunum væri tekið fram að um kosninguna ættu að gilda sömu reglur og um alþingiskosningar og þar með er vitaskuld gert ráð fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Þetta viðbragð Jónatans fyrir hönd Þjóðarinnar er því alger misskilningur og er það vissulega mjög viðeigandi.

Þetta er hins vegar ekki fyrsta ferð Jónatans úr háskólanum út á vígvöllinn. Áður hafði hann gert mikla hetjuför þegar hann sem sérstakur saksóknari ákærði fjölda manns í svokölluðu Hafskipsmáli. Varð af því gríðarlegt umstang og höfðu margir af því mikinn ama og óþægindi, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Lyktaði þætti Jónatans svo með miklum sýknum og afsögn hins sérstaka saksóknara.

Þ ess er svo að minnast, að þeir sem telja eitt hundrað eða tvö hundruð manna mætingu á margauglýsta útifundi vera til marks um vilja þjóðarinnar, þeir telja tuttugu og átta þúsund auða seðla í forsetakjöri, sem enginn maður barðist fyrir, vera „rýra uppskeru“. Og forseti Íslands segir að þessir tuttugu og áttaþúsund landar sínir hafi einfaldlega skilað ógildum seðli og ekkert eigi á þá að hlusta. Og spekingarnir, sem alltaf þykjast greina hroka og valdþreytu í öðrum mönnum, hvar eru þeir þá? Jú, önnum kafnir við að taka undir með Ólafi Ragnari.