Stjórnmálamenn eru misheppnir með staðhæfingar sínar og auðvitað er líka misjafnt hversu vel þeir eru heima í þeim málum sem þeir fjalla um hverju sinni. Í gærkvöldi sat Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, í kastljósi Ríkissjónvarpsins og talið barst að synjunarvaldi forseta Íslands. Varla hafa stjórnmálamenn búist við að þetta ákvæði yrði ekki notað með þessum hætti, sagði Margrét og var viss í sinni sök. En hér gerist Margrét óþarflega fullyrðingagjörn. Það er nefnilega þvert á móti líklegt að stjórnmálamenn, og þá einkum þeir sem eitthvað hafa kunnað fyrir sér í stjórnskipunarrétti, hafi alls ekki gert ráð fyrir uppákomu eins og þeirri sem Ólafur Ragnar Grímsson stóð fyrir á dögunum.
Þannig segir prófessor Ólafur Jóhannesson í Stjórnskipun Íslands, að „eins og 26. gr. er úr garði gerð [þurfi] varla að reikna með lagasynjunum“, og prófessor Bjarni Benediktsson segir að þó menn geti túlkað stjórnarskrárákvæðið sem persónulega heimild forsetans þá myndi beiting þess brjóta gegn þeirri þingræðisreglu sem talin sé felast í stjórnarskránni og hafi verið virt á Íslandi allt frá heimastjórn. Og er þá ógetið annars stjórnmála- og fræðimanns, sem Margrét Frímannsdóttir telur sjálfsagt merkastan af þeim öllum, en í gagnmerkri ritgerð frá árinu 1977 segir Ólafur Ragnar Grímsson stjórnmálafræðingur að 26. gr. stjórnarskrárinnar sé „dauður bókstafur“. Hún hélt svo áfram að vera „dauður bókstafur“ í meira en aldarfjórðung, allt þar til Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti skyndilega að þetta ákvæði væri svona líka lifandi.
Sami Ólafur Ragnar hefur ítrekað haldið því fram að sjötíuþúsund Íslendingar hafi farið þess á leit við forseta Íslands að hann beitti þessu ákvæði til þess að leggja stein í götu Alþingis. Sú tala segir vitaskuld ekkert – fyrir utan það hversu fráleit hún er. Ólafur Ragnar vísar þar annars vegar til undirskriftasöfnunar sem fór fram til að hvetja Vigdísi Finnbogadóttur til að staðfesta ekki lög um evrópska efnahagssvæðið, og hins vegar kennitölusöfnunar sem Róbert Marshall stóð fyrir á netinu á dögunum. Óþarfi er að endurtaka hér hversu lítið er að marka þá kennitölusöfnun, en jafnvel þó hún hefði nú farið fram eins og venjuleg undirskriftasöfnun og nöfnin jafnframt gerð aðgengileg eins og alltaf hafði verið gert, fram að Marshall-söfnuninni – af hverju ætti þá að tvítelja fjöldann sem skrifaði undir í þessum tveimur söfnunum? Gæti þetta ekki verið að talsverðu leyti sama fólkið? En það er auðvitað aukaatriði. Jafnvel þó einhver hópur manna telji að skilja beri eitthvert laga- eða stjórnarskrárákvæði með tilteknum hætti, þá breytir það hvorki lögunum né stjórnarskránni. Ekki frekar en Ísland gekk í Evrópusambandið daginn sem skoðanakönnun sýndi að tæplega þriðjungur landsmanna taldi að landið væri þar meðlimur.
Þá er lokið úthlutun úr Þjóðhátíðarsjóði þetta árið. Samkvæmt skipulagsskrá sinni hefur sjóðurinn það hlutverk „að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf“. Ýmis góð verkefni hlutu styrk að þessu sinni og vill Vefþjóðviljinn sérstaklega fagna einni úthlutun, en Heimilisiðnaðarfélag Íslands fékk 150 þúsund króna styrk til þess, eins og orðrétt segir í fréttatilkynningu Þjóðhátíðarsjóðs, „að koma í veg fyrir að handbrögð við að nýta selskinn og vinna úr þeim skó, glatist ekki.“