Það eru fleiri en forseti Íslands og nánustu skjaldsveinar hans sem hafa komið fram með óviðeigandi hætti undanfarna daga. Það verður ekki annað sagt, en að frammistaða Ríkissjónvarpsins á kjördagskvöld var til háborinnar skammar. Svo virtist sem sjónvarpsstöðinni hafi þótt að ekkert hafi verið á seyði á Íslandi sem gæti jafnast á við knattspyrnuleik Hollendinga og Svía að fréttagildi. Auðvitað er ekki ástæða til að láta svokallaðar fréttir ganga yfir landsmenn frá morgni til kvölds – raunar mætti sleppa flestum fréttatímum á Íslandi, því fæst af því sem þar er tíundað í löngu máli og oft tilgerðarlegu er þess eðlis að nokkurn hóp manna varði um það. En á laugardagskvöldið og fram eftir nóttu var verið að telja atkvæði í kjöri forseta Íslands, og þó embættið sé valdalaust og úrslitin kosninganna vitaskuld þau sömu, hvort sem landsmenn frétta af þeim fyrr eða síðar, þá hlýtur öll skynsemi að segja að fréttir af talningu hafi forgang fram yfir annað dagskrárefni. Gamanlaust, Ríkissjónvarpið skrúfaði niður í umræðu um stöðu kosninganna til þess að sýna umræðuþátt um knattspyrnuleikinn sem sýndur hafði verið beint, klukkustund áður. Svo komu bíómyndir, en áhorfendum vísað á strjálar og óskýrar fregnir á textavarpi og heimasíðu sem sjaldan var endurnýjuð. Þetta er með algerum ólíkindum af Ríkissjónvarpinu. Einkastöðvarnar höfðu vitaskuld enga skyldu, Skjár 1 mátti sýna sína vinsælu þætti ótruflaða af því að verið væri að kjósa þjóðhöfðingja. En hvernig ætlar Ríkissjónvarpið að réttlæta það að birta ekki fregnir af talningu eftir því sem þær bárust? Í stuttu máli: Um kvöldið og nóttina var staðan margsinnis sú, að Ríkissjónvarpið hafði nýjar tölur um skiptingu atkvæða milli frambjóðendanna þriggja, en sagði ekki frá þeim. Sýndi bara umræður um markalaust jafntefli nokkurra erlendra knattspyrnumanna og svo bíómynd. Ágætismynd reyndar.
Svo þarf ekki að taka fram að lítið var að græða á þeim litlu umræðum, sem Ríkisútvarpið þó bauð upp á. Fréttamaðurinn, sem einn virtist á vakt, vissi lítið sem ekkert, spurði fárra skynsamlegra spurninga og virtist með öllu ókunnugt um hvernig kosningabaráttan hafði farið fram og ekki síður hvernig hún hafði alls ekki farið fram. Viðmælendurnir gátu því spunnið að vild. Töflur og súlur birtust svo ekki á skjánum fyrr en eftir dúk og disk – tæknin var víst eitthvað að stríða sjónvarpsmönnunum blessuðum. Og sérfræðingarnir svokölluðu misskilja svo gjarnan hlutverk sitt. Þannig var Rás 2 með reikningsfróðan mann sér til halds og trausts, en þegar hann var til dæmis beðinn um að reikna hve mikils stuðnings frambjóðendur nytu meðal allra atkvæðisbærra manna, þá gerði hann það fyrst vitlaust en í næstu tilraun þá fór mestallt hans mál í að reifa persónulegar skoðanir reikningsmannsins á fylgi og trausti kjörinna leiðtoga, almennt. Maðurinn var hins vegar fenginn sem reikningshaus en ekki almennur hugsuður.
Annað smáatriði sem vert er að nefna í tengslum við kosningarnar, eru þær kosningar sem efnt var til samhliða forsetakjörinu. Í nokkrum sveitarfélögum var jafnframt kosið um sameiningu sveitarfélaganna og vill Vefþjóðviljinn koma því á framfæri að blaðinu þykir óeðlilegt að efnt sé til annarra kosninga með forsetakjöri. Fyrir því er skýring. Slíkar aukakosningar eru líklegar til að hafa áhrif á kjörsókn í þeim tilteknu sveitarfélögum, þar sem vænta má að einhverjir, sem ekki hefðu sérstakan áhuga á því að greiða atkvæði í forsetakjörinu, mæti þá til að kjósa um hitt málefnið? En er það ekki bara gott, spyr þá einhver, er ekki bara gott að auka kjörsóknina? Jú jú, það er ekkert að því að kjörsókn sé góð. En það á ekki, með opinberri aðgerð eins og aukakosningu, að hafa áhrif á kosningaþátttöku á einstökum landssvæðum umfram önnur. Búum til dæmi. Segjum að kannanir sýni að tiltekinn frambjóðandi eigi sérstaklega mikið fylgi í ákveðnum sveitarfélögum en aftur á móti séu horfur á fremur dræmri kjörsókn. Þá gætu sveitarstjórnir haft talsverð áhrif á gengi þessa frambjóðanda, með því að efna til aukakosningar samhliða forsetakosningunum, þar sem að þær væru líklegar til að draga fólk á kjörstað. Með sama hætti gætu þær haft gagnstæð áhrif með því að efna til aukakosningar viku áður. Öll slík áhrif eru óeðlileg. Aukakosningar eiga ekki að fara fram í námunda við hefðbundnar almennar kosningar.