Þriðjudagur 1. júní 2004

153. tbl. 8. árg.

Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði skrifa grein í nýjasta tölublað Sunnlenska fréttablaðsins og fjalla þar um fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og segja hana hafa versnað verulega undanfarin misseri:

Niðurstaða rekstrarreiknings Hveragerðisbæjar vegna ársins 2003 er rúmlega 104 milljóna króna tap í stað rúmlega 31 milljóna[r] taps eins og áætlun meirihlutans gerði ráð fyrir. Tap bæjarins er þannig um 230 % meira en ráð var fyrir gert. Rekstur málaflokka nemur 117 % af skatttekjum eins og fram kemur í skýrslu endurskoðenda. Bærinn getur með öðrum orðum ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og rekstur grunnskólans, leikskólans og [annan daglegan rekstur] nema með því að taka lán. Það er minna en ekkert eftir þegar kemur [að] því að borga vexti og afborganir lána. Bæjarsjóður hefur enda tekið ný langtímalán uppá 320 milljónir þrátt fyrir að fjárfestingar hafi einungis numið 57 milljónum á árinu. Langtímaskuldir hafa aukist um 20 % milli ára og nú er svo komið að hver fimm manna fjölskylda skuldar, fyrir hönd Hveragerðisbæjar, 3,4 milljónir króna.

Staðan í Hveragerði virðist samkvæmt þessu hafa versnað töluvert. Þó mun meira beri á almennum þjóðmálum og fréttum af ríkissjóði í stjórnmálaumræðunni, þá er einnig mikilvægt að fólki sjáist ekki yfir það sem gerist hjá sveitarfélögunum. Fólk greiðir talsverðan hluta launa sinna til sveitarfélags um hver mánaðamót, en útsvarið er töluverður hluti tekjuskattsins, þó margir virðist stundum telja að hann renni allur til ríkisins. Þannig hafa borgaryfirvöld á síðustu árum sætt lagi og hafa hækkað útsvarið í Reykjavík þegar ríkið hefur lækkað tekjuskatt sinn, þannig að lækkunin hefur runnið í borgarsjóð en ekki til borgarbúa. Og skuldir og hallarekstur sveitarfélags, hvort sem það er fámennur hreppur eða höfuðborgin sjálf, kemur niður á íbúunum sem þurfa fyrr eða síðar að greiða hærra útsvar til að mæta eyðslu fulltrúa sinna. Það er þess vegna mikilvægt að íbúarnir reyni að hemja eyðslu sveitarstjórnanna og hvetja fremur til sparsemi og útsvarslækkana en eyðslu, skuldasöfnunar og útsvarshækkana.

Meðal þess sem íbúar geta gert, er að taka jafnan illa í allar hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga. Því stærri sem sveitarfélögin eru, þeim mun auðveldara er fyrir þrýstihópana að knýja fram gæluverkefni sem eru óþörf frá almennu sjónarmiði. Það er afar erfitt að fá hreppsnefnd í fámennum hreppi til að byggja risastórt íþróttahús við hliðina á sundlauginni og félagsheimilinu. En um leið og búið er að sameina sveitarfélögin, þá er eins og allar gáttir opnist. Og inn um þær fara ekki aðeins þjóðþrifamál heldur gæluverkefni, skuldsetning og skattahækkanir. Séu verkefnin raunverulega hin þörfustu, þá munu mörg sveitarfélög auðveldlega geta sameinast um þau. Það eru óþörfu verkefnin sem kalla á sameiningu sveitarfélaga og meðal annars þess vegna ættu íbúarnir að hafna henni, hvenær sem þeir eru spurðir. Þeir mega líka minnast þess, að sé sameiningu hafnað, þá mun alltaf gefast nýtt tækifæri því yfirvöldin eru óþreytandi í sameiningaræðinu. En ef sameining er samþykkt, þá verður aldrei framar kosið.