Fimmtudagur 20. maí 2004

141. tbl. 8. árg.

Ætli menn fari ekki að heimta afsagnir virðulegra lögfræðinga, tveggja héraðsdómara, tveggja hæstaréttardómara og ríkissaksóknara? Eða að minnsta kosti að þessir menn „hugleiði alvarlega stöðu sína“ og vitaskuld að þeir „játi mistök sín“. Eftir dóm Hæstaréttar í „stóra málverkafölsunarmálinu“ í gær, þá geta menn víst gert slíkar kröfur og fylgt þeim eftir með stórum fyrirsögnum og langlokugreinum og lagt svo út af eigin kenningum í leiðurum og ritstjórnarpistlum. Eða hvað? Meirihluti Hæstaréttar, þrír dómarar af fimm, sýknaði sakborningana báða með þeim rökum að þau sérfræðigögn, sem ákæruvaldið byggði á og bæði fjölskipaður héraðsdómur og minnihluti Hæstaréttar nýtti til sakfellingar, væru ekki marktæk. Ætli það megi búast við að sjá héraðsdómarana á forsíðu vandaðra blaða og upphrópanir eins og „dæmdu menn í fangelsi eftir ómarktækum gögnum!!“ eða kannski „virtu ekki sönnunarreglur“ eða eitthvað? Ætli fréttamenn leiti til ríkissaksóknara og krefjist skýringa á því að hann hafi ákært menn „án þess að hafa nothæf sönnunargögn“? Ætli menn elti minnihluta Hæstaréttar uppi og spyrji af hverju þeir hafi „sakfellt menn án leyfilegra gagna“?

Nei auðvitað dettur engum það í hug. Auðvitað átta flestir sig á því að hér er einfaldlega um það að ræða að lögfræðingar eru ekki sammála um túlkanir, aðferðir og það hvaða gögn eru nægjanleg, hvenær búið er að sýna fram á eitthvað nægilega og hvenær þyrfti að rannsaka eitthvað betur. En af hverju er Vefþjóðviljinn þá að stinga upp á þessum furðulegu fyrirsögnum eða greinaskrifum? Jú það er nú vegna þess að til er fólk sem telur að nýlega hafi verið sýnt fram á að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ þar sem umboðsmanni alþingis þyki sem hann hefði átt að kanna tiltekið atriði – kunnáttu annarra umsækjenda á tilteknu réttarsviði og mat dómara hæstaréttar á henni – áður en hann skipaði mann í starf. Þetta álit umboðsmanns þykir einhverjum sýna að ráðherrann hafi hvorki meira né minna en „brotið lög“ en því fer hins vegar fjarri. Það væri engu fráleitara að heimta afsagnir héraðsdómaranna sem „dæmdu menn í fangelsi eftir ónothæfum gögnum“ en að æpa það að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ við það að eftir á þyki umboðsmanni alþingis að henn hefði átt að ganga ýtarlegar úr skugga um tiltekið atriði. Í raun liggur nær að taka dómarana og ríkissaksóknara fyrir – þar er þó hæstaréttardómur sem liggur fyrir, hvað sem mönnum finnst um hann, en ekki aðeins álit eins manns eða einnar stjórnsýslunefndar. Og ef einhver heldur að skoðanir Vefþjóðviljans á gildi álita umboðsmanns alþingis tengist á nokkurn hátt nýlegum álitum hans, svo sem í „Falun Gong málinu“ eða áliti hans um nýlega skipun hæstaréttardómara, þá er það misskilningur.

Dagný Jónsdóttir og Jónína Bjartmarz, þingmenn Framsóknarflokksins, styðja frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri stjórnarandstöðuþingmanna um kaup á vændi; það er að segja að heimilt verði að selja en ekki kaupa vændi. Af því tilefni sagði Dagný í fréttum að málið væri „þverpólitískt“ og því ekkert að því að afgreiða það í vor í óþökk samstarfsflokks hennar í ríkisstjórn. Og allt í lagi með það auðvitað, þingmenn mega bera fram og afgreiða mál án þess að fá leyfi hjá samstarfsflokkum sínum. En mætti Vefþjóðviljinn láta í ljós þá skoðun að mál verði ekki þverpólitískt við það eitt að Dagný Jónsdóttir og Jónína Bjartmarz styðji stjórnarandstöðuna í því. Eða er ekki langt seilst í hugtakanotkun að telja mál þverpólitísk sem stærsti þingflokkur Alþingis er heill á móti?