Miðvikudagur 12. maí 2004

133. tbl. 8. árg.
  • Í samræmi við framangreint tel ég að sú ákvörðun að vista framangreinda einstaklinga í Njarðvíkurskóla meðan þeir biðu úrskurðar um það hvort þeim yrði heimiluð landganga eða ekki, hafi rúmast innan þeirra heimilda sem lögreglu voru veittar í lögum nr…
  • Ég tek fram að í þeim gögnum sem mér voru látin í té hef ég ekki fundið neitt sem styður þá ályktun að meðferð þeirra einstaklinga sem vistaðir voru í Njarðvíkurskóla hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar…
  • Eins og áður segir er það á forræði hvers ríkis að ákvarða heimildir og skilyrði fyrir komu og dvöl útlendinga á yfirráðasvæði sínu. Íslenskum stjórnvöldum er því heimilt að meina útlendingum að stíga á land á Íslandi fullnægi þeir ekki þeim skilyrðum sem íslensk lög setja fyrir landgöngu útlendra manna, í þessu tilviki lög nr. 45/1965 sem fjallað er nánar um í kafla III.1 hér að ofan…
  • Ég endurtek enn og aftur að ég tel að ákvörðun stjórnvalda hafi að þessu leyti haft fullnægjandi lagastoð í lögum nr. 45/1965…
  • Það er því ekki hægt að líta svo á að ákvörðun um að synja tilteknum útlendingi landgöngu feli sem slík í sér brot gegn tjáningarfrelsi hans sé hún byggð á lögmætum sjónarmiðum. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt sú ákvörðun hafi það í för með sér að viðkomandi útlendingur verði af tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hér á landi…
  • Þá hef ég ekki fengið í hendur nein gögn sem sýna fram á að Falun Gong iðkendum hafi verið meinað að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn við mótmæli sín meðan á heimsókninni stóð né að ráðstafanir lögreglu eins og þeim er lýst í yfirlýsingunni hafi gengið lengra en heimilt var samkvæmt stjórnarskránni…
           – Úr áliti umboðsmanns alþingis 29. desember 2003 vegna kvörtunar „Falun Gong Iceland Dialogue Committee“.

Á

dögunum sendi umboðsmaður alþingis frá sér álit vegna skipunar hæstaréttardómara á síðasta ári. Taldi hann að það hefði ekki verið ómálefnalegt af dómsmálaráðherra að láta val sitt milli hinna átta hæfu umsækjenda ráðast af sérþekkingu eins þeirra í Evrópurétti. Hins vegar taldi umboðsmaður að ráðherra hefði átt að kanna nánar þekkingu hinna umsækjenda á því réttarsviði og spyrja dómara hæstaréttar sérstaklega um það álitamál. Strax og þetta álit umboðsmanns birtist, mættu þau í fjölmiðla, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, og stóð ekki á stóru orðunum. Ingibjörg Sólrún krafðist strax afsagnar ráðherrans og Össur tók í sama streng þó hann gengi ekki eins langt og hún. Ráðherra svaraði því hins vegar til að hann myndi skoða álit umboðsmanns vandlega en minnti á að einungis væri um lögfræðiálit að ræða og sumt í því bæri keim vangaveltna um lögskýringarsjónarmið.

Þessu svari var þegar í stað tekið mjög illa og ýmsir – síðast Össur Skarphéðinsson á alþingi – hafa talað eins og það sé hrein svívirða að menn láti eins og álit umboðsmanns séu bara einhver lögfræðiálit sem deila megi um eins og önnur. Á alþingi lagði stjórnarandstaðan áherslu á að nú lægi niðurstaða fyrir og menn yrðu bara að una henni; sjálfur umboðsmaður alþingis hefði talað. Í þessu samhengi er gaman að rifja upp það álit umboðsmanns sem vitnað var til hér að ofan, en um áramótin sendi umboðsmaður frá sér ýtarlegt álit þar sem hann hafnaði allri þeirri gagnrýni sem sett hafði verið fram á aðgerðir íslenskra yfirvalda gagnvart svokölluðum Falun-Gong-liðum hér á landi sumarið 2002. Ef umboðsmaður alþingis hefur rétt fyrir sér, þá voru allar upphrópanirnar um mannréttindabrot, ólögmæta skerðingu tjáningarfrelsis, fangabúðir og svo framvegis, einfaldlega rangar. Ef umboðsmaður alþingis hefur rétt fyrir sér þá brutu íslensk stjórnvöld ekki á nokkrum einasta liðsmanni Falun-Gong hér. Ætli stjórnarandstaðan og aðrir þeir sem nú gera mikið úr umboðsmanni alþingis og álitum hans, séu þá kannski tilbúin að draga til baka allar ásakanir sínar um mannréttindabrot, harðræði og þvinganir í garð Falun Gong? Stjórnarandstaðan ber nú svo mikla virðingu fyrir umboðsmanni alþingis. Álit hans eru sko ekki bara einhver álit utan úr bæ. Nema það sé þá bara stundum sem umboðsmaður alþingis er „geysivirtur óháður fræðimaður sem nýtur víðtæks trausts meðal þjóðarinnar“.

Eins og áður segir þá hafa það verið þau Ingibjörg Sólrún og Össur sem hæst hafa látið eftir að umboðsmaður gaf út það álit að ráðherra hefði ekki fullnægt rannsóknarreglu nægilega áður en hann sló því föstu að eini umsækjandinn sem hefði sérmenntun í Evrópurétti kynni meira í Evrópurétti en þeir sem ekki höfðu slíka menntun. Þau Össur og Ingibjörg láta nú eins og þau telji mikinn áfellisdóm að umboðsmaður telji stjórnvald ekki hafa fullnægt rannsóknarskyldu. Samt er alls ekki svo að þetta sé í fyrsta skipti sem umboðsmaður lætur í ljósi slíka skoðun. Það má taka um það ýmis dæmi, en hér verður nefnt af handahófi álit frá 30. júní 1997. Þar háttaði svo til að Reykjavíkurborg hafði ákveðið að leggja sérstakt gjald á fyrirtæki í borginni og þessa gjaldskrá hafði umhverfisráðherra staðfest. Gjaldið var mjög umdeilt og kvartað var yfir málsmeðferðinni til umboðsmanns alþingis. Niðurstaða hans varð sú að gjaldskráin „hefði hvorki hlotið nægilegan undirbúning af hálfu Reykjavíkurborgar né umhverfisráðuneytisins áður en staðfesting hennar fór fram“. Þarna taldi umboðsmaður að stjórnvöld, bæði Reykjavíkurborg og umhverfisráðherra, hefðu ekki virt lögskipaða rannsóknarreglu. Hver man til þess að gerð hafi verið krafa um afsagnir merkra ráðamanna í framhaldi af þessu? – en þeir, sem nú telja stórfelldan áfellisdóm yfir stjórnmálamanni ef umboðsmaður telur hann ekki hafa uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, ættu vitaskuld að snúa sér til þeirra sem þarna áttu í hlut. Borgarstjóri í Reykjavík var á þessum tíma hinn kröfuharði stjórnmálamaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Umhverfisráðherrann, sem umboðsmaður alþingis áleit að ekki hefði heldur virt lögskipaða rannsóknarreglu, hann er ekki síður vandaður stjórnmálamaður, – og heitir Össur Skarphéðinsson. Bæði munu þau vera að hugleiða afsögn vegna þessa.

Ein spurning. Í umræðum um fjölmiðlafrumvarp er sagt að lögin snerti eitt fyrirtæki umfram önnur. Gott og vel, segjum nú, rökræðunnar vegna, að svo sé og jafnframt að það sé lögmætt markmið löggjafa að berjast gegn einokun og frumvarpið sé liður í slíkri baráttu – en hvernig getur það þá verið röksemd gegn málinu að lagasetningin snerti eitt fyrirtæki umfram önnur? Hvernig getur barátta við löggjafa við einokun beinst að mikið fleirum en einum í senn? Ef barist er gegn „markaðsráðandi stöðu“ á tilteknum markaði, þá getur sú barátta varla komið við marga á hverjum tíma; varla eru margir markaðsráðandi í senn, eða hvað?