Föstudagur 7. maí 2004

128. tbl. 8. árg.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í gær að meirihluti allsherjarnefndar alþingis mælti með því að lögum yrði breytt á þann veg að svokallaður áfengiskaupaaldur yrði færður úr 20 árum niður í 18. Má því telja mjög líklegt að slík breyting verði gerð nú á næstunni og því fagnar Vefþjóðviljinn, enda vill blaðið að fólk beri sjálft sem mesta ábyrgð á eigin lífi; þar með talið því hvort og hvaða drykkja það neytir. Þetta mál er hins vegar dæmigert fyrir mál þar sem fallast má á tillögu en ekki rökstuðning allra þeirra sem einnig styðja málið. Sumir segjast styðja mál sem þetta af því að réttinda-aldursmörk eigi að vera samræmd. Samkvæmt því er trúlegt að þeir menn taki næst til við að hækka ökuréttindaaldur úr 17 árum í 18 og svo framvegis. Vefþjóðviljinn álítur á hinn bóginn að ekkert sérstakt segi að aldursmörk til einstakra hluta hljóti að vera þau sömu. Aldursmörk ættu að vera byggð á því að löggjafinn telji líklegt að hinn almenni 18-, 19- eða hvað menn tiltaka- ára maður hafi náð þroska eða reynslu umfram yngri menn til að taka tiltekna ábyrgð á sér. Það er ekkert sem segir – að þessu gefnu – að þetta mark hljóti að vera aðeins eitt til allra hluta.

Önnur röksemd sem stundum er notuð og eru handhægar á kappræðufundi, er að tiltaka hvað 18 ára menn megi gera og bæta því svo við að þeir megi hins vegar ekki kaupa sér bjór. „Átján ára maður má kvænast en ekki kaupa kampavín til að nota í veislunni“ eru tilvalin lokaorð í ræðu um þetta málefni. Gallinn er bara sá að þessi röksemd er ekki neitt sérstaklega góð. Það gætu alveg verið málefnalegar ástæður til að setja önnur aldursmörk og lægri við hjúskap en áfengiskaupum, svona ef út í það er farið. Auðvitað gæti löggjafinn sagt eitthvað á þá leið að það sé miklu meiri hætta á því að ungur maður fari sér að voða með áfengiskaupum en að hann gangi í vanhugsaðan hjúskap. Unglingadrykkja er einfaldlega nokkru algengari en unglingabrúðkaup. Rökin fyrir því að leyfa fólki að kaupa sér vín eru þau að fólk á að fá að ráða sínum málum sjálft. Það er eflaust áhætta fólgin í því að drekka sig útúr, rétt eins og í því að borða yfir sig af fleski eða sinna engu öðru nema garðyrkju og það á nærklæðunum. Fólk sem þetta vill gera, á hins vegar að fá að gera það, og þann rétt þarf ekki að rökstyðja með samræmingu aldursreglna eða þvaðri um hvað annað það má.