Fimmtudagur 6. maí 2004

127. tbl. 8. árg.

Bjórinn og frjálst útvarp komu sjö og fimm árum fyrir gerð EES samningsins, einkavæðing ríkisbankanna tíu árum á eftir. Albert og Matti Matt einkavæddu löngu fyrir tíð EES. Ekki einkavæddi Halldór Blöndal Ríkisskip heldur vegna tilskipana frá Brussel. Ekki er enn búið að einkavæða Póst og síma eftir áratug í EES. Samkeppnislögin eru notuð til að hluta sundur fyrirtæki. Styrkir til landbúnaðar eru með þeim hætti að hvaða ESB ríki sem er gæti verið stolt af. Innflutningur landbúnaðarafurða er hindraður sem fyrr. Aðild Íslendinga að EES samningnum gæti endað með því að Íslendingar fengju bágt fyrir að stunda „undirboð“ í skattaheimtu því ESB og fleiri yfirþjóðleg fyrirbæri hafa verið að lemja á þeim ríkjum, einkum smáum eyríkjum, sem reyna að stilla skattheimtu í hóf.

Það er ekki gott að sjá að „Íslendingar hafi fengið frelsið sent í pósti frá útlöndum“ eins og stundum er haldið fram. Svo er því jafnan bætt við að Jón Baldvin hafi borið póstinn út. Að minnsta kosti virðist ekkert samhengi milli EES og ofangreindra mála, hvorki þeirra sem horft hafa til aukins frelsis né þeirra sem gera það ekki. EES hafði sína kosti en það þurfti meira til. Alþýðuflokkurinn kom í veg fyrir einkavæðingu ríkisbankanna á árunum 1993 til 1995 og lagðist gegn henni á meðan hann var. Voru kratar í Skandinavíu ekki að einkavæða banka þar um svipað leyti? Voru íslenskir kratar í Alþýðuflokknum meiri forsjárhyggjumenn en velferðarkratar Norðurlanda? Vefþjóðviljinn hafði ekki áttað sig á að það væri mögulegt. Ætli íslenskir kratar hafi svo orðið frjálslyndari í efnahagsmálum þegar þeir gengu í eina sæng með Alþýðubandalagi og Kvennalista í Samfylkingu?