Samkeppnislögin eru beittasta vopn stjórnvalda gegn frjálsum viðskiptum. Hvað eftir annað eru þau notuð til að svipta neytendur frelsinu. |
Enn og aftur sannast hvílík mistök það voru af stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks árið 1993 að afnema ekki lög um verðlagseftirlit og verðlagsstofnun, sem þá voru nefnd lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Í stað þess var bara skipt um nafn á lögunum og stofnuninni. Upp frá því hafa bæði lögin og stofnunin verið kennd við „samkeppni“. Lögunum sjálfum var lítið breytt þótt skipt væri um skilti á Verðlagsstofnun. Hugsunin er enda sú sama með samkeppnislögunum og verðlagslögunum. Samkeppniseftirlit og verðlagseftirlit er sami hluturinn undir sitt hvoru nafninu.
Starf Verðlagsstofnunar og síðar Samkeppnisstofnunar hefur miðað að því að taka völdin af neytendum. Verðlagstofnun takmarkaði vald neytenda til að velja þjónustu og vörur með því að setja takmarkanir á hvaða verð fyrirtæki mættu bjóða. Samkeppnisstofnun tekur völdin af neytendum með því að setja takmarkanir á hve margir neytendur mega skipta við hvert fyrirtæki, hverjir megi eiga viss fyrirtæki, hverjir megi kaupa fyrirtæki, hvaða fyrirtæki megi starfa saman og svo fram eftir götunum. Í flestum þeim málum sem stofnunin lætur til sín taka gerir hún í raun eigur manna upptækur að einhverju leyti. Þrátt fyrir allt hefur umræðan um þessi lög þó að verulegu leyti snúist um að auka vald Samkeppnisstofnunar enn frekar og draga þar með úr valdi og valfrelsi neytenda. Hafa allir stjórnmálaflokkarnir tekið undir í þessum söng gegn almennu viðskiptafrelsi í landinu.
Það virðist með öllu ómögulegt að fá stjórnmálamenn til að skilja að þekking á þörfum neytenda er dreifð – ekki meðal þingmanna eða starfsmanna Samkeppnisstofnunar – heldur meðal neytendanna sjálfra. Fyrirtæki verða ekki stór nema með fulltingi neytenda og ef það á að skipta þeim upp með valdi er verið að svipta neytendur því valdi sem þeir hafa yfir framleiðendum og kaupmönnum. Hér er auðvitað ekki verið að halda því fram að frjáls markaður sé fullkominn og gallalaus. Adam Smith benti til dæmis á fyrir margt löngu að menn úr sömu starfsgrein hittust vart án þess að gera tilraun til að sammælast um að hækka verð eða fremja annað samsæri gegn neytendum. Hann fylgdi þessu dæmi sínu hins vegar eftir með því að taka fram að tilraunir ríkisvaldsins til að reyna að koma í veg fyrir þetta samkrull væru verri en ekki. Það væri ekki hægt að sporna gegn þessu án þess að varpa frelsi og réttlæti fyrir róða. Smith var sannspár ef marka má tilraunir til þess að koma í veg fyrir samsæri gegn neytendum á Vesturlöndum á liðinni öld. Þær hafa allar haft skerðingu á eignarrétti, viðskiptafrelsi og friðhelgi einkalífs í för með sér.
Nú er verið að leggja fram frumvarp til breytinga á þessum gömlu haftalögum sem miðar að því að taka sérstaklega á rekstri fjölmiðla. Svo virðist sem ýmis skilyrði verði sett fyrir því hverjir mega eiga fjölmiðla og það muni jafnvel leiða til þess að einhverjir verði að gjöra svo vel og selja fyrirtæki sín að hluta að öllu leyti og sameining eða samstarf fyrirtækja á þessu sviði verði í auknum mæli bannað.
Sá hópur sem andmælir þessum lagabreytingum kemur nokkuð á óvart. Ýmsir fjölmiðlamenn sem aldrei hafa efast um nauðsyn fleiri boða og banna um samkeppnismál eru háværir í þessum hópi. Þeir hafa alltaf verið tilbúnir að styðja hvers kyns hömlur á aðra starfsemi en þegar kemur að þeim sjálfum kemur annað hljóð í strokkinn. Ýmsir þeirra hafa aldrei á ævi sinni tekið upp hanskann fyrir atvinnulífið í landinu. Aldrei lagt auknu viðskiptafrelsi lið. Ekki lyft litlafingri þótt athafanafrelsi annarra sé skert. Nú fá þeir að reyna samkeppnislög á eigin skinni. Þá ganga þeir af göflunum. Hafa þessir menn kúvent eða vilja þeir hafa fyrir sig það frelsi sem þeir neita öðrum hiklaust um?
Þessi nýi bútasaumur við samkeppnislögin kemur Vefþjóðviljanum ekki á óvart. Samkeppnislögin kalla á svona gerninga. Auk þess er víðtækur stuðningur í þjóðfélaginu við samkeppnislög af þessu tagi. Að ekki sé minnst á nær einróma stuðning þingmanna við þau þótt Samfylkingin kunni að hlaupa út undan sér að þessu sinni af ósönnuðum ástæðum. Á meðan ástandið er svona geta menn átt von á því hvenær sem er og hvar sem er að fyrirtæki í hvaða atvinnugrein sem er verði hlutuð í sundur í þágu „samkeppnissjónarmiða“. Mega menn í öðrum atvinnugreinum þá treysta á stuðning Blaðamannafélagsins? Verða gamlir vinstrimenn í stéttinni aftur sótsvartir af bræði yfir skerðingu á eignarrétti, atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi og hugsanlegri afturvirkni laga?
Á meðan heldur ríkið auðvitað áfram rekstri tveggja útvarpsrása og sjónvarpsstöðvar með á annað þúsund milljónir króna í árlega forgjöf á aðra fjölmiðla. Og stjórnmálaflokkarnir eins og þeir leggja sig, sem eru í orði kveðnu svo uppteknir af því að efla þurfi samkeppnisyfirvöld og tryggja samkeppni, vilja auðvitað halda þessum ríkisrekstri áfram og helst efla hann.