Í nágrenni margra hótela í Japan má að nóttu til sjá einkabílum lagt og eigendurna sofandi í bílunum í stað þess að gista á hótelinu. The Wall Street Journal segir að vaxandi tilhneigingar gæti til þess í Japan að ferðast um og sofa í einkabílnum í stað þess að gista á hótelum, enda þyki hótelgisting dýr og margir japanskir ferðamenn sætti sig ekki lengur við að greiða uppsett verð fyrir gistinguna. Eigendum hótelanna veldur þetta miklum ama og þeir reyna að koma í veg fyrir að ferðamenn sofi í bílum sínum í nágrenni hótelanna, en hefur ekki orðið ágengt. Og hvers vegna skyldi nú Vefþjóðviljinn vera að nefna þetta? Jú, ástæðan er sú að þetta dæmi sýnir ágætlega vandann við að skilgreina markaði og þar með vandann sem samkeppnisyfirvöld standa frammi fyrir. Hótel eru í samkeppni við bílasala, svefnpokasala og fleiri, sem við fyrstu sýn virðast í alls óskyldri starfsemi. Hótelmarkaðurinn er því mun víðari en flesta hefði grunað.
Þegar samkeppnisyfirvöld leggja mat á það hvort samkeppni er nægileg á tilteknum markaði þurfa þau vitaskuld að byrja á að skilgreina markaðinn. Rétt skilgreining á markaði er hins vegar svo að segja útilokuð, vegna þess að markaðurinn er ekki óumbreytanlegur heldur síbreytilegur. Samkeppnisyfirvöld hér á landi hafa skilgreint markaði þröngt, sem þýðir að meiri líkur eru á því en ella að þau finni út að samkeppni skorti. Um leið þýðir það að þau taka ekki með í reikninginn ýmiss konar samkeppni sem fyrirtæki standa frammi fyrir, jafnt beina og óbeina.
Þar sem samkeppnisyfirvöld munu aldrei geta skilgreint markaði svo vit sé í, munu þau aldrei geta gert það sem ætlast er til af þeim. Hugmyndin að baki opinberu eftirliti með samkeppni er svo meingölluð að engar líkur eru til að samkeppnisyfirvöld geti orðið að gagni. En það sem verra er, það eru töluverðar líkur að samkeppnisyfirvöld spilli fyrir eðlilegri markaðsstarfsemi í hverju því máli sem þau taka sér fyrir hendur og séu þannig ekki aðeins gagnslaus heldur beinlínis skaðleg.