Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. |
– Jóhannesarguðspjall, 19:30. |
F áfræði og fordómar hafa löngum valdið mikilli þjáningu manna og þá ekki síst þeirra sem ekkert hafa til sakar unnið. Dæmi um þetta má finna á öllum tímum sem sögur segja frá. En þessi heimska manna dugar oftast ekki ein til að kalla þjáningar yfir aðra menn, henni þarf yfirleitt að fylgja töluverður skammtur af tilhneigingu til ráðskast með líf annarra og þá tilhneigingu er því miður að finna víða. Versta útgáfa þessarar afskiptasemi veldur hörmungum sem þeir sem komnir eru af léttasta skeiði hafa oft upplifað. Tuttugasta öldin, sá tími í sögunni sem hefði mátt ætla að upplýsing en ekki heimska myndi ráða för, verður í sögubókum allrar framtíðar minnst fyrir gífurleg fjöldamorð víða um heim. Það sem einkenndi þessi fjöldamorð er heildarhyggja og skortur á virðingu fyrir hverjum einstaklingi. Menn, sem með ólíkum aðferðum höfðu náð undir sig ríkisvaldinu, beittu því til að þröngva skoðunum sínum upp á aðra. Dæmi um þetta má finna í jafn ólíkum löndum og Kambódíu, Sovétríkjunum fyrrverandi, Þýskalandi nasismans, Rúanda og svo mætti áfram telja.
Skipulögð fjöldamorð eru eins og áður segir versta útgáfa heildar- eða forræðishyggjunnar, en margvíslegar aðrar þjáningar eru afleiðingar sömu tilhneigingar mannsins. Vefþjóðviljinn hefur ítrekað fjallað um þær hörmungar sem misbeiting á ríkisvaldi í löndunum sunnan Sahara hefur leitt yfir íbúana þar. Ólíkt flestum öðrum íbúum heimsins hafa kjör íbúa flestra þessara ríkja versnað en ekki batnað á síðustu árum og áratugum og þar er litlu öðru um að kenna en mönnum sem hafa farið illa með ríkisvaldið en ekki skapað þau skilyrði að íbúarnir geti brotist út úr fátæktinni. Hvorki valdsmenn þessara landa, né þeir sem áhrif hafa annars staðar og hafa sýnt vilja til aðstoðar, hafa sýnt því nægan skilning að lausnin á vanda íbúa fátækustu ríkja heims er ekki nema í undantekningartilvikum og þá í skamman tíma bein fjárhagsaðstoð. Lausnin er að skapa þau skilyrði í þessum löndum og öðrum, að þeir sem þar búa geti unnið sig út úr vandanum. Við réttar aðstæður er enginn vafi að þeim mun takast það líkt og milljónum annarra hefur tekist á síðustu árum.
En heildar- og forræðishyggjan, og tilheyrandi misbeiting ríkisvaldsins, taka einnig á sig aðrar myndir, sem ef til vill eru léttvægar í þessum samanburði en kalla engu að síður ástæðulausar þjáningar eða að minnsta kosti óþægindi yfir fjölda manna, sem þó teljast búa við mikil lífsgæði. Jafnvel á Vesturlöndum, þar sem fólk hefur það almennt gott og ríkisvaldinu eru settar meiri skorður en annars staðar, er rík tilhneiging til að sauma að borgurunum og hafa vit fyrir þeim á ólíklegustu sviðum. Hvert skref sem tekið er kann að þykja léttvægt, en þegar þau eru talin saman er æði langt gengið. Og áhyggjum veldur, að sjaldan eru tekin skref til baka, þó að þess finnist vitaskuld dæmi að frelsi einstaklinganna sé aukið. Hér á landi eru til að mynda mörg dæmi um jákvæð skref af því tagi frá síðasta rúmum áratug, en dæmin um tilhneiginguna til að auka afskipti af fólki eru engu að síður allt of mörg.