Laugardagur 3. apríl 2004

94. tbl. 8. árg.

F élagsleg aðstoð við fullfrískt fólk er nokkuð sem ætti hvergi að þekkjast, en þekkist þó víða. Hér á landi er besta dæmið vitaskuld félagsleg aðstoð við þá sem verða fyrir þeirri ógæfu að eignast börn. Það að barneignir séu slík ógæfa að háar bætur þurfi að koma fyrir er auðvitað dálítið sérstakt miðað við áður viðteknar skoðanir, en staðreynd engu að síður í bótaglöðu samfélagi jafnaðarmennskunnar. Samfélagi þar sem því er stundum haldið fram til að rugla umræðuna að frjálshyggja hafi ráðið ríkjum árum saman. Í Bandaríkjunum er þetta vandamál einnig þekkt, en þar hefur verið tekið á því á einu sviði að minnsta kosti. Árið 1996 voru sett lög sem heimiluðu ríkjunum fimmtíu að hætta að greiða þeim bætur sem gætu unnið fyrir sér. Í gær var sagt frá þessu í The Wall Street Journal og þar fylgdi sögunni að vinstri menn hefðu kvartað sáran þegar lögin voru samþykkt og haft uppi hefðbundin stóryrði um það hvílík mannvonska það væri að samþykkja slíka löggjöf. Spáð var að afleiðingarnar yrðu að milljónir barna yrðu fátæktinni að bráð og spurt var hvernig nokkur maður, sem ekki væri með öllu samviskulaus, gæti stutt slíka aðgerð.

Sem betur fer fyrir börn í Bandaríkjunum, ekki síst þau fátæku, var ekki farið eftir upphrópunum vinstri manna og nú er árangurinn kominn í ljós. The Wall Street Journal vísar í gögn frá hinu opinbera um að barnafátækt hafi minnkað frá því þessar umbætur voru gerðar, sérstaklega meðal blökkumanna. Börnum sem skilgreind voru „svöng“ fækkaði um helming á árunum 1995 til 2001, og á sama tímabili fækkað börnum sem búa við „sára fátækt“ um 14%, en það eru börn frá fjölskyldum sem hafa tekjur sem eru innan við helmingur almennt skilgreindra fátæktarmarka. Að sögn blaðsins er árangurinn þó mestur meðal barna einstæðra mæðra. Fátækt í þeim hópi hafði aðeins lækkað lítillega, úr 53,1% í 50,3%, frá árinu 1971 til 1995, en árið 2001 hafði þetta hlutfall lækkað niður í 39,8%, sem er lægsta hlutfall frá því mælingar hófust.

Vinstri menn neita ævinlega að horfast í augu við það, að mjög auðvelt er að festa fólk í fátæktargildrum velferðarkerfisins þegar hefðbundnum aðferðum aukinna ríkisútgjalda er beitt til að leysa erfiðleika ákveðinna hópa. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkið getur ekki gert allt fyrir alla og veldur þeim mun meiri skaða sem það reynir að gera meira fyrir fleiri.