Margir furða sig á að stjórnvöld hafi ekki ýtt undir notkun fjórhjóladrifsbifreiða þó að vitað sé að slíkar bifreiðar séu mun öruggari í hálku og við erfiðar akstursaðstæður en eindrifsbifreiðar. Þetta hefur margra ára reynsla Íslendinga af notkun slíkra bíla sannað. Bifreið á góðum vetrardekkjum, þótt ónegld séu, með drif á öllum hjólum er miklu öruggari til notkunar í misjafnri vetrarfærð í þéttbýli en eindrifsbifreið á negldum dekkjum. Því er ástæða til að hvetja til notkunar fjórhjóladrifsbifreiða. Slíkt mætti m.a. gera með sérstökum afslætti innflutningsgjalda. |
– Úr greinargerð með tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr mengun og vegsliti af völdum bifreiða. |
M
Eiga bílar af þessari gerð að njóta sérstakra skattfríðinda? |
á bjóða landsmönnum sérstakan afslátt af fjórhjóladrifsbílum; jeppum, jepplingum og fólksbílum af öflugri sortinni? Getur einhver hafnað því ef afslátturinn er boðinn í nafni umhverfisverndar? Nú hafa sex þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram tillögu til þingsályktunar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að ýta undir notkun bíla með drifi á öllum. Þessi tillaga kemur úr nokkuð óvæntri átt því hingað til hafa stjórnmálamenn á vinstri kantinum helst ekki viljað leyfa mönnum að vera í friði á „yfirfrökkum úr stáli“. Hefur ýmislegt verið gert til að refsa mönnum fyrir að vera á öflugum bílum annað að nudda þeim upp úr því að vera samfélagsleg óværa. Vörugjöld hafa verið hærri á þessa bíla þótt því hafi verið þokað í rétta átt á síðustu árum. Enn eru gjöldin þó mishá eftir því hvort um er að ræða bíl með undir eða yfir 2000 cm3 slagrými. Háir skattar á eldsneyti eru einnig sérlega bagalegir fyrir þá sem vilja vera á stórum bíl.
Eins og sagt var frá hér á dögunum hefur rannsókn á uppruna svifryks í Reykjavík leitt þá niðurstöðu í ljós að meiri hluti ryksins (PM10) er uppspænt malbik og aðeins 7% útblástur frá sjálfum bílunum. Þingsályktunartillögunni er einmitt beint gegn þessu sliti á götunum. Tillöguflytjendur telja að með því að auðvelda mönnum að eignast fjórhjóladrifsbíla muni notkun nagladekkja minnka til muna og þar með slit á götunum.
Undanfarin ár hafa verið í gildi sérstakar ívilnanir handa bílum sem ganga fyrir öðrum orkugjafa en bensíni og Dieselolíu. Jafnvel dugar að bílinn gangi aðeins að hluta fyrir öðrum orkugjafa. Þetta er gert í nafni umhverfisverndar þótt það gagnist nær ekkert í baráttunni við rykið í Reykjavík. Hærri vörugjöld á stóra bíla eru einnig rökstudd með því að vísa til umhverfisins. Skattlagning á bensíni og Dieselolíu er með afar ólíkum hætti og þurfa menn að reikna út fyrirfram hvað þeir muni aka marga kílómetra á hverju ári til að fá niðurstöðu um hvort er hagkvæmara. Upp að 25 – 30 þúsund kílómetra akstri á ári er hagstæðara að vera á bensínbíl. Þótt mikil framför hafi átt sér stað í þróun Dieselvéla á undanförnum áratugum og eldsneyti einnig verið stórbætt kemur meira sót frá þeim en bensínbílum. Dieselbílarnir nýta eldsneytið hins vegar betur og því mundi aukin notkun þeirra draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem ýmsir telja kost. Nú vilja menn svo að fjórhjóladrifsbílar sem flestir eru af stærri gerðinni og ganga enn, sem komið er aðeins fyrir bensíni eð Dieselolíu, fái sérstakan skattaafslátt. Er þar bæði vísað til öryggis farþega og hagmuna umhverfisins.
Eins og sjá má af þessari upptalningu hafa flestir orkugjafar og flestar stærðir bifreiða nokkuð til síns ágætis. Í stað þess að bæta við enn einni sérreglunni um að ákveðnir bílar eigi að njóta sérkjara hvernig væri að hafa bara eina reglu fyrir alla? Hvernig væri að hafa sömu skatta og gjöld á allar tegundir bíla og allar tegundir eldsneytis? Hvernig væri að hætta þessum sífelldu tilraunum til að stýra neyslu manna í ákveðinn farveg? Já þetta hljómar kannski byltingarkennt, en er það útilokað að treysta bara hinum almenna manni fyrir því hvernig bíl hann vill?