Þ að þarf að stórauka fjármuni til Hafrannsóknastofnunar til þessa verkefnis,“ sagði þingmaður Samfylkingarinnar Kristján L. Möller í umræðum utan dagskrár á Alþingi í fyrradag, og var mikið niðri fyrir. Umræðan var um loðnurannsóknir og loðnuveiðar, en þingmaðurinn telur þær allt of litlar og vill eins og áður segir „stórauka fjármuni“ til þessa verkefnis. Ekki aðeins auka, heldur stórauka. Í umræðunni upplýsti sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, að Hafrannsóknastofnun hefði á milli 1.100 og 1.200 milljónir króna á ári til starfsemi sinnar og þar af færi um fimmtungur til rannsókna á uppsjávarfiski. Þetta væri mun meira en ætla mætti eftir verðmæti aflans og Hafrannsóknastofnun hefði ekki lagt til aðra skiptingu fjármuna sinna. Það er vitaskuld ekki gott að segja hvort Kristján L. Möller og aðrir þeir sem í umræðunni hvöttu til aukinna útgjalda til loðnurannsókna vilja skera niður á móti, en ekkert bendir þó til þess að svo sé. Þvert á móti má gera ráð fyrir að þessir menn vildu helst sjá „stóraukna fjármuni“ lagða til allrar starfsemi Hafrannsóknastofnunar sem þýðir þá líklega tvöföldun framlaga eða eitthvað í þá áttina.
Þetta tal Kristjáns L. Möller og annarra sem lögðust á árar með honum í utandagskrárumræðunni var auðvitað ekkert annað en hefðbundið ábyrgðarlaust útgjaldatal, enda komu engar hugmyndir fram um hvar skera ætti niður útgjöld á móti. Þingmennirnir sáu bara að hægt væri að slá sér upp á enn einni útgjaldahugmyndinni og að skattgreiðendur tækju ekkert eftir því en áhugamenn um loðnuveiðar og loðnuveiðirannsóknir yrðu afar glaðir.
Loðnurannsóknir Kristjáns L. Möller eru ekki eini útgjaldaþrýstingurinn á Alþingi þessa dagana. Af handahófi má til dæmis nefna að hinn vaski þingmaður Frjálslynda flokksins Sigurjón Þórðarson hefur spurt samgönguráðherra að því hversu margir GSM-sendar hafi verið settir upp út um land á síðustu árum, sundurliðað eftir landshlutum, hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að þétta GSM-netið og hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að bæta tölvusamband, til dæmis með ADSL-tengingu í dreifbýli þar sem búa færri en fimm hundruð íbúar. Þetta eru vafalítið mjög áhugaverðar spurningar fyrir þingmann úr dreifbýli sem vill nýta kjörtímabilið til að kaupa atkvæði, en fyrir skattgreiðendur hljóma slíkar spurningar eins og hver önnur ávísun á aukin útgjöld og skattahækkun, enda er það tilgangur þeirra. Það er þó að vísu bót í máli að fyrirspyrjandi skuli vera Sigurjón Þórðarson málafylgjumaður, því að hann hefur að öllum líkindum þegar dregið spurningarnar til baka eða að minnsta kosti lagst eindregið gegn því að þeim verði svarað.