Árið hér kostar nemandann nú það sama og mánuður á leikskóla |
Uppsett verð fyrir nám í Háskóla Íslands er kr. 32.500, á ári. Gjald fyrir pláss á ugludeildinni á leikskólanum Fálkaborg í Breiðholti er kr. 30.800, á mánuði. Háskólaneminn greiðir með öðrum orðum svipað fyrir árið og barnið á leikskólanum fyrir mánuðinn. Ef marka má opinbera umræðu skælir háskólaneminn, eða í það minnsta fulltrúar hans í „stúdentapólitíkinni“, oftar yfir hlutskipti sínu en barnið á leikskólanum.
Á vef Kjararannsóknanefndar má sjá hver laun einstakra starfsstétta eru. Í stórum dráttum má segja að því meiri menntun sem menn hafa þeim mun betri laun virðast þeir hafa. Hæstu launin hafa stjórnendur með tæp 400 þúsund á mánuði, sérfræðingar hafa um 350 þúsund og tæknar og sérmenntað starfsfólk um 300 þúsund. Verkafólk, afgreiðslumenn og fólk í þjónustu rekur lestina með um 150 þúsund. Meðallaun allra stétta fyrir fulla vinnu eru 195 þúsund á mánuði samkvæmt þessari mælingu. Almennt má segja að próflausir séu undir meðaltalinu en prófgráðuhafarnir yfir, með öllum þeim fyrirvörum sem hafa ber á könnunum af þessu tagi og ályktunum af þeim.
Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður ritaði grein í Morgunblaðið um helgina og benti á að á þingi situr hópur manna sem getur ekki rætt nokkurt mál án þess að heimta meiri ríkisútgjöld. Nær aldrei fylgir sögunni hvernig á að ná tekjum á móti þessum auknu útgjöldum. Í mesta lagi er sagt að það eigi að „forgangsraða“. Þetta á ekki síst við um umræður um menntamál. Þegar þau ber á góma í þingsal þá líður ekki á löngu þar til einhver kratinn fer í pontu og segir frá því að í einhverri könnun hjá Norðurlandaráði eða í samevrópsku verkefni hafi komið í ljós að íslenska ríkið sé ekki nema hálfdrættingur á við aðrar þjóðir í útgjöldum til menntamála og menntun sé undirstaða velmegunar. Að lokum er svo bætt við nokkrum klisjum um að skólaganga á kostnað ríkisins sé grundvallarmannréttindi og skreytt með frösum um að skólagjöld auki á „misskiptinguna“ í þjóðfélaginu.
Ef marka má niðurstöður Kjararannsóknarnefndar getur nám verið mjög arðbær fjárfesting fyrir einstaklinginn. Það er því beinlínis verið að auka „misskiptinguna“ í þjóðfélaginu með því að láta almenna skattgreiðendur bera kostnaðinn af skólagöngu manna. Þegar skattgreiðendum er sendur reikningurinn fyrir háskólanámi er verið að láta láglaunamenn styrkja hálaunamenn.