N
Mikil ríkisumsvif eru efnahagslífi New Brunswick til trafala. |
ew Brunswick í Kanada er ekki til fyrirmyndar í efnahagsmálum. Ef marka má frelsisvísitöluna er héraðið í hópi þeirra svæða í Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada, þar sem efnahagslegt frelsi manna er minnst. Gildir þá einu hvort aðeins er miðað við umsvif héraðs- og sveitarstjórna (subnational index) eða hvort umsvif alríkisstjórnar eru tekin með reikninginn (all-government index).
Ástæða þess að New Brunswick er nefnt hér er að í frétt Morgunblaðsins á mánudag sagði að formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, hafi varpað fram þeirri kenningu á aðalfundi ráðsins á laugardaginn að ástæðan fyrir því að héraðið hefði ekki náð sér á strik efnahagslega væri mikil umsvif Irving fjölskyldunnar. Formaðurinn var á ferð um héraðið fyrir um 15 árum og veitti því þá athygli að Irving fjölskyldan var víða með rekstur sinn og eignir. Hann hefði varpaði því fram þeirri spurningu hvort það leiddi til almennrar fátæktar að einstakir athafnamenn væru svo stórtækir. Átti þessi spurning að vera innlegg í umræðu sem fram fór á fundi Sjálfstæðismanna um hvort nauðsyn væri að setja lög gegn hringamyndun í atvinnulífinu. Morgunblaðið fylgdi þessari frétt sinni eftir með leiðara á þriðjudag þar sem fullyrt var að Íslendingar kæri sig ekki um svipað ástand og í New Brunswick og því hótað að brugðist verði við ef þeir, sem hlut eiga að máli kunni sér ekki hóf og „gangi hægt um gleðinnar dyr“ eins og leiðarahöfundur kaus að orða það.
Ein helsta niðurstaða höfunda skýrslunnar um frelsisvísitöluna er að efnahagslegt frelsi skili sér í efnahagslegum framförum. New Brunswick er hins vegar í 54 sæti af þeim 50 ríkjum Bandaríkjanna og 10 héruðum Kanada sem mæld eru með frelsisvísitölu Norður-Ameríku með meðaleinkunnina 4,6 (all-government-index) af 10 mögulegum en Delaware er í efsta sæti með 7,8. Fyrir 15 árum var staðan ekki mikið betri en þá var einkunn New Brunswick 4,3. Lítið hefur því þokast í rétta átt á þessum 15 árum sem liðin eru frá rannsókn formanns Varðar á svæðinu.
New Brunswick fær til að mynda aðeins 2,8 í einkunn fyrir fyrirkomulag söluskatta og 3,5 vegna jaðaráhrifa tekjuskatts einstaklinga og 4,2 fyrir hlutfall opinberra starfsmanna af vinnandi mönnum. Í stuttu máli sagt eru skattar háir, útgjöld hins opinbera mikil og mjög margir vinna hjá hinu opinbera. Við þetta bætist ósveigjanleg vinnulöggjöf ásamt miklum millifærslum og niðurgreiðslum. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að það sé fremur of stórt ríkisvald en of stórtækir athafnamenn sem eigi sök á því ekki hefur gengið betur en raun ber vitni í New Brunswick. Það er með öðrum orðum of mikið af lögum um að menn „gangi hægt um gleðinnar dyr“ og of margir opinberir starfsmenn að framfylgja þeim með tilheyrandi ríkisútgjöldum og háum sköttum.
Annað sem mælir mót kenningu formanns fulltrúaráðsins er að flest héruð Kanada verma botnsæti frelsisvísitölunnar ásamt New Brunswick, ef frá eru talin Alberta og Ontario. Ekki hafa borist spurnir af því að umsvifamiklir menn borð við Irving fjölskylduna séu til vandræða í öllum þessum héruðum. Og reyndar höfðu ekki borist fréttir af þessum vandræðum sem stöfuðu af Irving í New Brunswick fyrr en á fundinum á laugardag og Morgunblaðið taldi sig hafa fengið sönnun fyrir því að hér sé nauðsynlegt að setja meiri lög og reglur um að menn „gangi hægt um gleðinnar dyr“.