Föstudagur 30. janúar 2004

30. tbl. 8. árg.

Þ

Harðir gagnrýnendur bókarinnar hafa ekki lesið hana.

að verður sífellt meira áberandi að þeir sem harðast gagnrýna bók Hannesar H. Gissurarsonar um Halldór Kiljan Laxness hafa ekki lesið hana! Síðast varð Jón Torfason starfsmaður Þjóðskjalasafnsins að viðundri vegna þessa. Hann birti sleggjudóma sína um bókina og vinnubrögð Hannesar í grein í Morgunblaðinu vikunni en svo kom á daginn að hann hafði hvorki lesið bókina né kynnt sér hvernig Hannes vann að henni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslenskir vinstri menn fara af stað með rógsherferðir af þessu tagi án þess að kynna sér málin. Og ekki í fyrsta sinn þar sem Hannes kemur við sögu.

Snemma árs 1984 birtist með stríðsfyrirsagnaletri í Þjóðviljanum frétt úr Lundúnablaðinu Guardian um það, að Milton Friedman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefði orðið uppvís að talnafölsunum og prettum í rannsóknum sínum. Vitnað var til gagnrýni frá tölfræðiprófessor einum í Oxford, David Hendry að nafni, en hann var ósáttur við aðferðir Friedmans í peningarannsóknum. Þjóðviljinn ætlaði að rifna af ánægju. Heil blaðsíða var lögð undir viðtöl við ýmsa íslenska hagfræðinga um það, hvað þeir segðu um „Friedman-hneykslið“. Flestir þeirra voru gætnir, en einn eða tveir hristu höfuðið yfir þessum afhjúpunum, og mátti sjá á þeim Þórðargleði. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var ritstjóri blaðsins, skrifaði tvo leiðara um málið. Annar birtist 10. janúar undir yfirskriftinni: „Hneykslið í hagfræðiheiminum: Friedman er svindlari!“ Viku síðar birtist hinn, og talaði Ólafur þar um hina æpandi þögn lærisveina Friedmans í málinu.

Hannes H. Gissurarson tók sig til og skrifaði Hendry um málið. Í svari Hendrys sagði meðal annars: „Eins og þér sjáið af ritgerð okkar, þá segjum við hvergi eða gefum í skyn, að þau Friedman og Schwartz hafi á einhvern hátt stundað blekkingar, svik eða falsanir eða eitthvað í þá áttina. Mér þykir mjög miður, ef því er haldið fram, að þau hafi ekki verið fullkomlega heiðarleg og hreinskilin í meðferð og rannsókn hinna tölulega gagna.“ Hendry sagði í lok bréfs síns: „Ég tel meira máli skipta að smíða líkan, sem tiltæk gögn falla að, en að eiga í kappræðum, sem eru reistar á skilningsleysi og vanþekkingu á flóknum, fræðilegum ferlum.“ Eftir að Hannes birti þetta bréf opinberlega í Morgunblaðinu 21. mars 1984, snarþögnuðu Þjóðviljamenn.

En rógsherferðir af þessu tagi er einnig þekktar erlendis frá. Danski tölfræðingurinn Björn Lomborg gaf í september 2001 út í Bretlandi bókina The Sceptical Environmentalist, en frumútgáfa hennar hefur líka komið út á íslensku undir heitinu Hið sanna ástand heimsins. Þar hélt hann því fram að heimsendaspár ýmissa umhverfisöfgasinna væru ekki á rökum reistar. Í febrúar 2002 sendi danskur líffræðingur kæru til „vísindasiðanefndar“ í heimalandi sínu um það, að Lomborg hefði ekki verið heiðarlegur í rannsóknaraðferðum sínum. Vísindasiðanefndin úrskurðaði 7. janúar 2003, að í bók sinni hefði Lomborg gerst sekur um „vísindalegan óheiðarleika“ og brotið „réttar reglur um vísindaleg vinnubrögð“. Harðar umræður urðu um málið í Danmörku, og var úrskurður nefndarinnar kærður til danska umboðsmannsins, sem sendi það áfram til ráðuneytis vísinda og tækni. Lomborg kvartaði líka undan úrskurðinum til ráðuneytisins.

Ráðuneytið birti langa skýrslu 17. desember 2003, þar sem kom fram, að vísindasiðanefndin hefði farið út fyrir verksvið sitt með fordæmingunni á Lomborg og ekki stutt hana neinum efnislegum rökum. Nefndin hefði nánast eingöngu farið eftir hörðum ritdómi um bók Lomborgs í bandaríska blaðinu Scientific American, en ekki tekið neitt tillit til rækilegra athugasemda Lomborgs við ritdóminn. Nefndin hafði ekki kynnt sér málið sjálft heldur treyst á dómgreind annarra. Enda rökstuddi hún mál sitt ekki svo neinu næmi. Nefndin hefði gerst sek um hlutdrægni og ónákvæmni í meðferð málsins. Hnekkti ráðuneytið úrskurði vísindasiðanefndarinnar.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með herferðinni gegn Hannesi, sem hófst svo stundvíslega þegar hann yfirgaf landið í desember. Ekki er ofmælt að það hafi verið reynt að efna til sýndarréttarhalda yfir honum að honum fjarstöddum. Skipan „réttarins“ kemur ekki mjög á óvart því hluti hans hafði löngu fyrir útkomu bókarinnar tekið þátt í tilraunum til að koma í veg fyrir útgáfu hennar.Var Hannes sagður vera „boðflenna“ sem tekið hefði að sér veislustjórn í bókmenntalífi vinstri manna og lokað var á aðgang hans að skjölum sem erfingjar skáldsins höfðu fært opinberri stofnun. Það er því ekki nóg með að sumir þeir sem fella dóma yfir Hannesi hafi myndað sér skoðun á bókinni áður en hún kom út og gert sitt að torvelda útgáfu hennar heldur hafa þeir jafnvel lýst því yfir að þeir hafi ekki lesið bókina og ætli sér ekki að gera það! Það fer ekki vel á því að þeir sem taka sér dómaravald hafi ákveðið niðurstöðu sína fyrirfram, vilji ekki hafa sakborning viðstaddan í réttarhöldunum og kynni sér ekki málsgögn og lýsi því jafnvel yfir að þeir muni aldrei láta svo lítið að kynna sér þau. Þegar svo er komið er eitthvað annað sem ræður för en þokkalegur áhugi á notkun heimilda við ævisagnagerð.