E
Framleiðendur Quilmes þurfa ekki að pukrast með kynningu á bjórnum sínum í heimalandinu. |
f bann við áfengisauglýsingum í íslenskum fjölmiðlum héldi þá væri það í raun aðeins bann við því að auglýsa íslenskt áfengi. Hvert sem litið er sjást erlend blöð og tímarit og tugir ef ekki hundruð erlendra sjónvarpstöðva sjást hér. Áfengi er auglýst í þessum miðlum. Íslenskar sjónvarpsstöðvar sýna einnig frá viðburðum erlendis, til dæmis frá kappleikjum þar sem áfengisauglýsingar eru áberandi á völlunum. Svo má ekki gleyma lýðnetinu þar sem hægt er að fá nokkrar upplýsingar um þetta efni sem er svo hættulegt að mati Alþingis að ekki má minnast á það opinberlega á íslensku. Íslenskir bjór- og áfengisframleiðendur geta ekki nýtt sér þessa miðla enda væri auglýsing á íslenskum bjór á skilti á Bernabéu eða heilsíða í Der Spiegel líklega skot yfir markið, hvað sem líður öllu tali um að íslensk fyrirtæki þurfi að fá útrás.
Íslendingar sjá því áfengisauglýsingar á hverjum degi en ef hægt væri að framfylgja auglýsingabanninu hér fengju þeir aldrei að heyra minnst á íslenskan bjór, berjavín eða brennivín í fjölmiðlum. Það eru hins vegar óteljandi leiðir framhjá banninu svo íslenskir áfengisframleiðendur geta látið vöru sína spyrjast út með „kynningum“ í fjölmiðlum, auglýsingum á „léttbjór“ og alls kyns getraunum, leikjum og skemmtunum sem kenndar eru við löginn. Þetta jafnar þó ekki leikinn gagnvart innfluttu áfengi því innflytjendur nýta sér þessar smugur auðvitað til jafns á við innlenda framleiðendur.
Það eru ekki aðeins innlendir áfengisframleiðendur sem standa höllum fæti vegna bannsins við auglýsingum á áfengi. Íslenskir fjölmiðlar mega sætta sig við samkeppni frá erlendum miðlum sem hafa miklar tekjur af áfengisauglýsingum. Ríkisvaldið lemur því ekki aðeins á einkareknum íslenskum fjölmiðlum með því að reka stærsta fjölmiðil landsins í harðri keppni við þá heldur hefur það lokað fyrir mikilvæga tekjulind þeirra.
Síðast en ekki síst eru það íslenskir neytendur sem er hallað á með banninu. Þeir fá ekki upplýsingar um nýjungar, tilboð og hagstæð verð á áfengi eins og öðrum vörum.
En hvað sem öllum þessum praktísku atriðum líður ætti ekki að þurfa ræða það frekar hvort gengið sé á tjáningarfrelsi manna með þessum hætti.