Miðvikudagur 31. desember 2003

365. tbl. 7. árg.

ÁRAMÓTAÚTGÁFA

Eins og jafnan áður um þetta leyti árs hefur Vefþjóðviljinn safnað saman þeim atriðum sem síst skyldu hverfa með líðandi ári, nú þegar það loks tygjar sig til farar inn í aldanna skaut.

Svaðilför ársins: Eftir að hafa að sögn klifið annan hvern tind heims lét Haraldur Örn Ólafsson sér nægja að róa á Þingvallavatni. Og komst í fréttir þegar landeigendur vildu ekki leyfa honum að róa upp við bakkann.

Skýring ársins: Haraldur Örn hafði reyndar ætlað að róa fjær bakkanum en Ingþór fékk þennan líka svakalega tennisolnboga.

Drengskapur ársins: Í kosningabaráttunni í vor lagði forysta Sjálfstæðisflokksins áherslu á að Framsóknarflokkurinn ætti skilið að fá góða kosningu. Hún fékk greiðann launaðan að framsóknarhætti, þegar eftir kosningar.

Samstarfsflokkur ársins: Framsóknarflokkurinn í norðausturkjördæmi. Valgerður Sverrisdóttir fór um kjördæmið eins og hún en engir aðrir hefði tryggt byggingu álvers. Dagný Jónsdóttir bætti svo um betur og talaði eins og stjórnarandstæðingur á öllum fundum.

Opinberun ársins: Gervöll vinstrihlið landsins reis upp á afturlappirnar þegar fréttist af hugmyndum um að breyta „fréttaskýringaþættinum“ Speglinum. Quod erat demonstrandum.

Tugþrautarmaður ársins: Jón Arnar Magnússon stendur sig ágætlega allt þar til hann hættir keppni snemma á síðari degi. Ætli hann hafi ekkert spáð í sjöþrautina?

Skoðanakúgun ársins: Einhver vinur Ómars Ragnarssonar giskaði á það í samtali við hann að einhver annar myndi reyna að stöðva kvikmyndagerð hans. Myndin var gerð og sýnd og Landsvirkjun var öll af vilja gerð að aðstoða Ómar við gerð hennar.

Víðsýni ársins: R-listinn bannaði varaborgarfulltrúa sínum að lýsa sjálfstæðri skoðun á því stórpólitíska máli hvort rífa ætti eða vernda Austurbæjarbíó.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Slagur ársins: Átök ungmenna færðust úr Breiðholti niður í miðbæ eftir að Ágúst Ágúst Ágústsson fékk það á heilann að Dagný Jónsdóttir bryti gegn stjórnarskránni með því að greiða ekki atkvæði á þingi eins og hún væri ein í heiminum.

Sigurvegarar ársins: Ósama Bin Laden og næstráðendur hans lýsa reglulega yfir sigri sínum en ósigri Bandaríkjanna. Það er einmitt vegna þessa glæsilega sigurs sem þeir telja heppilegast að senda yfirlýsingar sínar út á kassetum.

Björgun ársins: Þegar stefndi í önnur jólin í röð þar sem engar misminningarbækur kæmu frá Steingrími Hermannssyni greip Sverrir bróðir hans í taumana og bjargaði málum fyrir horn. Stundum verður að fórna sér.

Bolli ársins: Bolli Thoroddsen, skrásetjari.

Waterloo ársins: Samfylkingin ákvað að tapa öllu saman í Borgarnesi.

Hálfkæringur ársins: Hreinn Loftsson.

Seigla ársins: Sú sama og í fyrra. Íslandsmótinu í knattspyrnu lýkur jafnan á kraftmiklum endaspretti Fylkismanna.

Flutningsmaður ársins: Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins virðist einstakt séní. Hann er meira að segja harður gegn eigin tillögum, svo lengi sem þeim er ekki breytt frá því sem þær eru þegar hann leggur þær fram.

Símasamband ársins: Tveir af ábyrgustu stjórnmálamönnum landsins urðu fyrir því óhappi að lenda utan símasambands þegar þau helst vildu komast í fréttir. Þegar sagðar voru fréttir af rannsókn Samkeppnisstofnunar á þætti Þórólfs Árnasonar í olíufélagamálum var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir stödd á Ísafirði dögum saman og þar með náðist aldrei í hana í síma eins og fréttamenn höfðu mikinn skilning á. Sama ólukka henti Steingrím J. Sigfússon þegar lífeyrisfrumvarp var til umræðu fyrir jól. Þá var hann alltaf „fyrir norðan“ og þar næst ekki í menn sem kunnugt er.

Egill Jónsson ársins: Birgir Ármannsson lenti í 10. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Flokkurinn fékk níu menn kjörna. Birgir er inni.

Nótt ársins: Öll dagskrá menningarnætur í Reykjavík fer fram að degi til og fram á kvöld. Nóttin sjálf er aðeins hefðbundin vínmenningarnótt.

Yfirheyrsla ársins: Þegar R-listasamstarfið nær riðaði til falls tók Morgunblaðið opnuviðtal við Þórólf Árnason og saumaði þar að honum með spurningum eins og: „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vann gott verk á sviði jafnréttismála á borgarstjóraferli sínum. Munt þú halda því starfi áfram?“

Viljastyrkur ársins: Dagur B. Eggertsson greindi frá því í æsiviðtali við Fréttablaðið að hann hefði á yngri árum gamall strengt skírlífsheit til þess að „stæla viljann“. Dagur sagðist hafa hafið skírlífi sitt 10 ára gamall og það staðið stutt, sem nærri má geta.

Vísindatilraun ársins: Leiðarahópur Morgunblaðsins hefur á árinu rannsakað hversu lengi má þynna þunnt. Ekki sér enn fyrir endann á rannsóknunum.

Gestheppni ársins: Allir gestir Gísla Marteins Baldurssonar reyndust frábærir. Sömuleiðis allt sem þeir hafa gert á lífsleiðinni. En það þarf svo sem ekki að koma á óvart á tímum þegar sífellt minna þarf til að vera sko „ekkert venjulegur“ maður og hvaða réttrúmlega meðalmaður sem er, er skyndilega orðinn „frábær“.

Kynningarmaður ársins: Í viðtali Fréttablaðsins við Ármann Jakobsson íslenskufræðing kom fram hjá blaðinu að enginn hefur gert meira en hann til að kynna Hringadróttinssögu fyrir Íslendingum. Þorsteinn Thorarensen, sem þó hefur þýtt og gefið út Hringadróttinssögu í þremur bindum, auk Hobbitans og Silmerilsins, gefið Hringadróttinssögu auk þess út sem teiknimyndasögu, gefið út kver með ljóðum Tolkiens og gefið út Hringadróttinsspil svo nokkuð sé nefnt – var ekki undanskilinn.

Grís ársins: Það er nú augljóst.

Rannsókn ársins: Forsvarsmenn Baugs tilkynntu að þeir myndu krefjast rannsóknar á því hvernig fundargerðir stjórnar félagsins rötuðu niður á Fréttablað. Niðurstaðna mun að vænta um svipað leyti og O.J. Simpson finnur morðingja Nicole, en hann segist enn vera að leita.

Afsönnun ársins: Eftir að vinstrimenn höfðu árum saman haldið því fram að í viðskiptum gilti sú regla að einn græddi og annar tapaði, þá afsannaðist það einn góðan veðurdag þegar Jón Ólafsson seldi Norðurljós en enginn keypti.

Eignarhald ársins: Sigurður G. Guðjónsson forstjóri mætti í pressukvöld Ríkissjónvarpsins og var fyrst spurður að því hver ætti eiginlega Stöð 2.Hann svaraði því til að Stöð 2 væri í eigu Norðurljósa sem væru í meirihlutaeigu „NLC-Holding í Luxemburg“ – og þrír fréttamenn sátu og spurðu ekki frekar.

Sprettur ársins: Einfættur Bandaríkjamaður, Marlon Shirley að nafni, kom til landsins og keppti við fótfráustu spretthlaupara Íslands, alla tvífætta. Hann vann. Næst fá okkar menn að vera á bíl.

Fréttamenn ársins: Séð! &! Heyrt! greindi! frá! því! að! lögreglan! í! Árnessýslu! hefði! tekið! Sigurð! Kára! Kristjánsson! alþingismann! akandi! á! Hellisheiðinni! þrátt! fyrir! að! hann! væri! án! ökuréttinda! Áður! en! blaðið! kom! út! hafði! lögreglustjórinn! í! Árnessýslu! reyndar! upplýst! það! um! að! Sigurður! hefði! verið! farþegi! en! ekki! ökumaður!

Frambjóðendur ársins: Frjálslyndi flokkurinn leitaði víða fanga til að manna framboðslista sína.

Hlutabréfakaup ársins: Hlutabréfakaup síðasta árs voru kaup Ágústs Einarssonar prófessors á bréfum í Frjálsri fjölmiðlun en héraðsdómur dæmdi hann þá til að greiða 42 milljóna króna eftirstöðvar kaupanna þrátt fyrir að félagið hefði þá verið úrskurðað gjaldþrota. Enn verða þessi kaup hlutabréfakaup ársins því meirihluti Hæstaréttar ákvað á þessu ári að Ágúst þyrfti ekki að efna samninginn af sinni hálfu til fulls enda óvanur viðskiptum og ókunnugur reglum og venjum á því sviði. Forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Forsætisráðherraefni ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður.

Leiðitemjarar ársins: Ungir kratar mega nú orðið ekki hnerra án þess að fjölmiðlar rjúfi dagskrá sína til að greina frá stórmerkjunum.

Múr ársins: 30% múrinn.

Sigurvegari ársins: Samfylkingin reynir að telja sér trú um að hún hafi orðið „sigurvegari alþingiskosninganna“. Sigurinn lýsir sér í því að flokkurinn er utan ríkisstjórnar, vonarstjarnan utan þings og formaðurinn utan við sig.

Jarðbinding ársins: Vinstrigrænir prentuðu myndir af formanni sínum á klæðað sinn og skáru sig þannig frá „persónudýrkunarflokkunum“, eins og Steingrímur J. Sigfússon kallar alla hina flokkana, sem eiga það eitt sameiginlegt að þar hefur enginn prentað mynd af nokkrum manni á nokkra flík.

Skrýtnasta tilfinning ársins: Sjálfkjörinn varaformaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsti því yfir að það væri „skrýtin tilfinning að vera orðin varaformaður með engu greiddu atkvæði“. Og það er ekki nóg með að þetta sé skrýtin atkvæðatala, enn ótrúlegra er að þetta er nákvæmlega samanlagður fjöldi þeirra atkvæða sem Ingibjörg hlaut í baráttusæti R-listans 1994, 1998 og 2002, í 5. sæti Samfylkingarinnar 2003 og til að bera titilinn forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar árið 2003.

Endurkoma ársins: Jimmy Carter, sem lét af embætti forseta Bandaríkjanna fyrir 22 árum, sneri aftur og átti „árangursríkan fund“ með Ólafi Ragnari Grímssyni. Gríðarleg öryggisgæsla spillti ekki hátíðleika fundarins.

Vika ársins: Gæðastjórnunarfélag Íslands efndi til „stjórnunarviku“. Hún stóð frá 13. til 17. október.

Yfirheyrslur ársins: Á árinu hafa fjölmiðlar flutt 317 viðtöl við Katrínu Júlíusdóttur þar sem hún hefur rætt rauðu kúrekastígvélin sín. Enginn hefur enn spurt hvers vegna henni var kippt úr allsherjarnefnd alþingis og Rannveig Guðmundsdóttir sett þar inn, þegar lífeyrisfrumvarpið svokallaða var til umræðu í nefndinni fyrir jól. Enda ekki eins áleitið mál og það hvort Katrín á eftir að verða berfætt á fundi.

Ökumaður ársins: Árni Þór Sigurðsson efndi til bíllauss dags. Ók sjálfur um allt á meðan.

Hópefli ársins: Stórhríð gerði í lok desember í Reykjavík. Í stað þess að moka snjó af götum borgarinnar brá nýr borgarstjóri á það ráð að láta borgarbúa þjappa snjóinn niður í göturnar á einkabílum sínum. Og málið var leyst. Snjórinn hvarf þótt eftir sætu 30 cm þykk klakabúnt. Það var ekki að ástæðulausu að verkfræðingur var ráðinn sem borgarstjóri.

Dagar ársins: Eftir að hafa verið málefnalaus frá stofnun ákvað Samfylkingin að reyna nýjar aðferðir og var málefnaleg dagana ellefta og tólfta október. En því miður, það gekk ekkert betur þannig, svo hún fór aftur í gamla farið. Auðvitað best að gera bara það sem maður kann.

Gengisfall ársins: Eftir að það kom fram í Hutton-rannsókninni að David Kelly var allt til loka sannfærður um að gereyðingarvopn Íraka væru enn falin í Írak, misstu fjölmiðlamenn allan áhuga á hinum „virta sérfræðingi“.

Hvarf ársins: Hið merka ritverk, „Fátækt á Íslandi“, eftir Hörpu Njálsdóttur, var í öllum fréttum nokkra daga í vor og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kallaði ritið „biblíuna [sína]“ – allt þangað til að bent var á að í bókinni kom fram að skýringar á lengri biðröðum hjá Mæðrastyrksnefnd og skyldum félögum væru þær að Reykjavíkurborg hefði árið 1995, árið eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir settist í stól borgarstjóra, breytt úthlutunarreglum sínum vegna styrkja til fátækra og minnkað mjög möguleika þeirra til aðstoðar frá borginni. Síðan þetta kom fram hefur hvorki verið minnst á Hörpu Njálsdóttur né bók hennar í íslenskum fjölmiðlum og sennilega hefur hvorug þeirra nokkru sinni verið til.

Þrýstihópur ársins: Til að geta veitt stórfyrirtækjunum öflugra aðhald þáðu Neytendasamtökin milljónir króna í styrk frá Baugi.

Tilætlunarsemi ársins: Flosi Arnórsson stýrimaður lá mánuðum saman uppi á yfirvöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, allt til að spara sér fæði og húsnæði. Það má ekki rétta þessum köllum litla fingur.

Endurskoðun ársins: Guðrún „Rúna“ Jónsdóttir, kynningarfulltrúi Stígamóta, mætti í sjónvarpssal og gagnrýndi mjög þá sem ekki hefðu kynnt sér málin eins vel og þær Stígamótakonur. Að því sögðu krafðist hún þess að „kynferðisbrotakafli stjórnarskrárinnar“ yrði „endurskoðaður“.

Höfnun ársins: Magnús Þór Hafsteinsson hefur talað um það samfellt frá kosningum að þá hafi „þjóðin hafnað kvótakerfinu“. Þeir flokkar sem hafna kvótakerfinu og vilja gerbreyta um fiskveiðistjórnun fengu í kosningunum samtals 8 % atkvæða.

Bjarni ársins: Jói Fel.

Réttlæting ársins: Í kastljósi Ríkissjónvarpsins var Halldór Ásgrímsson spurður hvernig hann gæti „réttlætt fyrir sjálfum“ sér að hafa „gengið fram hjá reyndum þingmanni eins og Jónínu Bjartmarz“ með því að gera Árna Magnússon að ráðherra. Hin þaulreynda Jónína, „gamla brýnið“, settist á þing árið 2000.

Klukka ársins: Einar Bárðarson.

Skapgerð ársins: Í viðtali við Skessuhorn lýsti Magnús Þór Hafsteinsson sér meðal annars svo að í fari annarra mæti hann mest „heiðarleika og sanngirni“ en verst færu í hann „ósanngirni og fals“. Þá lét hann þess getið að engan stjórnmálamann hefði hann í meiri metum en Bill Clinton.

Stöðumat ársins: Ólafur Örn Haraldsson ákvað að gefa frá sér vonlaust annað sæti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í það var því settur Árni Magnússon, síðar félagsmálaráðherra.

Gæðakona ársins: Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir.

Ábending ársins: Ungir kratar sendu Jóhannesi Páli páfa bréf og bentu honum í allri vinsemd á það að boðskapur katólsku kirkjunnar stæðist ekki kosningayfírlýsingu Samfylkingarinnar.

Krafa ársins: Eftir kosningar létu framsóknarmenn og fréttaskýrendur eins og 17 % fylgi Framsóknarflokksins væri „krafa þjóðarinnar“ um að Framsóknarflokkurinn sæti í ríkisstjórn. Á sama tíma þótti tæplega 34 % fylgi Sjálfstæðisflokksins engin sérstök skilaboð um að Sjálfstæðisflokkurinn mætti sitja í ríkisstjórn nema síður væri.

Sjálfstæðismaður ársins: Ellert B. Schram, frambjóðandi Samfylkingarinnar.

Samfylkingarmaður ársins: Ellert B. Schram, flokksbundinn sjálfstæðismaður.

Sjöttimaður ársins: Eiríkur Bergmann Einarsson sagðist aldrei víkja fyrir Ellerti Schram úr sjötta sæti Samfylkingarinnar.

Þjóðmálainnlegg ársins: Albert Jensen ákvað að láta rödd sína heyrast og skrifaði lesendabréf á árinu.

Viðskipti ársins: Ingimar Jónsson, framkvæmdastjóri Kaupáss, tilkynnti í október að hann hefði keypt fyrirtækið, í samvinnu við fjárfestingarfélagið Straum. Samstarfið reyndist hafa verið við fjárfestingarfélagið Draum.

Stjórnarhættir ársins: Á „vorþingi Samfylkingarinnar“ samþykkti hún sérstaklega að hún hygðist „leysa af hólmi forgang hinna fáu með lýðræðislegum stjórnarháttum þar sem ákvarðanir eru teknar eftir umræðu og samráð.“ – Það var einmitt í þessum anda sem forsætisráðherraefni flokksins var valið.

Tilboð ársins: Maður nokkur auglýsti til sölu Toyotu Camry með öllu þessu helsta: þjófavörn, álfelgum, og bilaðri vél.

Offramboð ársins: Nýtt afl.

Góðmenni ársins: Ágúst Ágúst Ágústsson tók sér frí frá kosningabaráttunni til þess að afgreiða eina dagsstund hjá Mæðrastyrksnefnd. Og fór í viðtal við Fréttablaðið af því tilefni. Hann ætlaði reyndar að vera hjá Kvennaathvarfinu en því miður misstu þær húsnæði sitt um svipað leyti.

Kvíaútfærsla ársins: Kaupfélag Borgfirðinga setti á stofn KB-banka.

Reikningshaus ársins: Borgaryfirvöld ákváðu að styrkur sinn til Mæðrastyrksnefndar þetta árið yrði ekki ein milljón eins og í fyrra heldur 750 þúsund krónur. Þórólfur Árnason taldi að þetta væri ekki lækkun um 250 þúsund krónur heldur fremur hækkun um 750 þúsund. Þökkuðu borgarbúar almættinu fyrir að fá verkfræðing sem borgarstjóra.

Prentvilla ársins: Ábyrgðarlaust vefrit sagði frá þessum gerðum og orðum borgarstjóra en blaðið sjálft var svo ekki betur að sér en svo að það kallaði hann jafnan Þórálf. Vonandi kemst í verk að biðjast afsökunar á því einhvern daginn.

Leiðrétting ársins: „Sjálfstæðisflokkurinn sendir kerfisbundið út þá þjóðsögu að Davíð Oddsson hafi lækkað tekjuskatta. Það er rangt“ sagði Össur Skarphéðinsson í Fréttablaðinu 24. mars. Og er þannig á öndverðum meiði við annan speking, alnafna sinn reyndar, sem sagði á Stöð 2 11. apríl 1999 að „í þessu þensluástandi sem núna ríkir þá tel ég það vera mikil mistök hjá ríkisstjórninni að lækka skatta yfir línuna, líka til þeirra sem enga þörf höfðu fyrir slíkt og notuðu þetta sem kaupmáttarauka til þess að eyða í innfluttan lúxus.“

Vindmylluhernaður ársins: Samkeppnisstofnun heldur áfram að sekta fyrirtæki fyrir lélega verðmerkingu. Einhvern daginn kemur eflaust að því að það finnst fórnarlamb í slíku máli, viðskiptavinur sem fékk ekki að vita hvað vara kostaði en var neyddur til að kaupa hana samt.

Júlí ársins: Ágúst Ágústsson.

Mannréttindavernd ársins: „Í þessu máli vék Hæstiréttur frá eigin fordæmum um skýringu stjórnarskrárinnar á atvinnufrelsi“ sagði Páll Hreinsson lagaprófessor eftir að Hæstiréttur Íslands hafði heimilað sveitarstjórnum að banna borgurunum, með einni saman lögreglusamþykkt, að framfleyta sér með einkadansi. Tískulögfræðingar landsins komu því ekki við að taka svari einkadansaranna, enda sjálfsagt verið uppteknir við að þiggja hvatningarverðlaun Samfylkingarinnar.

Viðskiptasnillingar landsins: Uppselt var á hverja einustu sýningu Íslensku óperunnar á Macbeth en engu að síður tapaði óperan meira en milljón krónum á hverri einustu sýningu. Frekar en að hækka miðaverðið var ákveðið að hætta sýningum; alls ekki mátti reyna að fara nálægt því að láta tónlistargesti þó ekki væri nema einu sinni borga sannvirði fyrir miða.

Bankastjóri ársins: Bjarni Ármannsson varð á árinu fyrsta barnið til að fara í fæðingarorlof. Hann hefur í framhaldinu tekið upp nafnið Barni Smármannsson.

Neðanjarðarhreyfing ársins: Saddam Hussein, stjórnmálamaður.

Einvígi ársins: Halldór í Framsókn og Barði í Bang-Gang háðu æsispennandi léttleikakeppni á árinu. Barði vann, nokkuð létt.

Hækkun ársins: „Tuttugu prósenta hækkun“ sagði Stöð 2 ítrekað þegar heilbrigðisráðherra hækkaði komugjöld lífeyrisþega í heilbrigðiskerfinu. „Tuttugu prósenta hækkun“ glumdi látlaust úr sjónvarpstækjunum, þangað til fáir hafa trúað því að nokkur hefði framar efni á því að veikjast. Gjöldin voru hækkuð úr 200 krónum í 250.

Stjórnarandstæðingur ársins: Nýráðinn ritstjóri DV, Illugi Jökulsson, sagðist ekki vera flokkspólitískur, hann væri bara alltaf í stjórnarandstöðu. Eins og kemur fram í því að síðustu níu ár hefur hann ekkert haft við stjórn Reykjavíkurborgar að athuga. En hefur litlar mætur á minnihlutanum.

Þjóðfélagsrýnar ársins: Spaugstofan fjallaði um öll hitamál ársins önnur en kaupréttarsamninga annars forstjóra og stjórnarformanns Búnaðarbankans.

Styrktaraðili ársins: „Spaugstofan er í samvinnu við Búnaðarbankann.“

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.