Þriðjudagur 23. desember 2003

357. tbl. 7. árg.

Mynd segir oft meira en þúsund orð. Á árinu sem er að líða hefur Vefþjóðviljinn gert nokkrum málum skil á myndrænan hátt. Hér eru nokkur dæmi þess.

Ríkisútgjöld hafa aukist mjög undanfarin ár. Stefnir í að þau hafi aukist um 100 milljarða frá árinu 1998 áður en langt um líður. Svo skemmtilega vill til að ferða- og risnukostnaður hefur haldist mjög í hendur við almenna þróun ríkisútgjalda. Ríkisútgjöldin voru 190 milljarðar árið 1998 og stefna í yfir 280 milljarða á næsta ári, á verðlagi hvors árs. Ferða- og risnukostnaðurinn var 1.900 milljónir árið 1998 og fer án efa yfir 2.800 milljónir á næsta ári, á verðlagi hvors árs. Það virðist vera lögmál að 1% ríkisútgjalda fer í risnu og flakk ríkisstarfsmanna. Það er sama hve miklu er eytt í annað, ríkisstarfsmenn gefa ekki eftir hundraðshlutann sinn til ferðalaga og risnu.

 

Það kom fram í haust að kostnaðaráætlun vegna byggingar enn eins tónlistarhúss á höfuðborgarsvæðinu hefði fjórfaldast frá árinu 1997. Árið 1997 var gert ráð fyrir að bygging hússins kostaði 1.550 milljónir króna en nýjustu áætlanir gera ráð fyrir 6.300 milljónum króna. Vefþjóðviljinn skýrði frá þessu eins og fleiri. Það sem kom þó ekki fram að þessu tilefni er að inn í nýjustu tölunum eru ekki þær gatnaframkvæmdir sem tónlistarhús við höfnina hefur í för með sér. Tónleikagestir munu ekki láta bjóða sér að fara yfir götu á leið sinni og því verður grafin gönguleið undir götuna eða gatan grafin í jörð. Kostnaðurinn hefur því fjórfaldast frá árinu 1997 án þess að reiknað sé með kröfunni um að þurfa ekki að fara yfir götu. Á síðasta ári undirrituðu ríki og borg samkomulag um hvernig kostnaður við herlegheitin mun skiptast. Eyðendurnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Sturla Böðvarsson ferðmálaráðherra og Geir Hilmar Haarde fjármálaráðherra stilltu sér upp fyrir  myndavélarnar að því tilefni og tókust í hendur að lokinni undirritun. Það merkilega við þetta samkomulag um kostnaðarskiptingu var að ekki var tekið í höndina á þeim sem greiða kostnaðinn. Engir fulltrúar greiðenda voru viðstaddir þótt þarna væri gert samkomulag um að þeir eyddu enn stærri hluta ævinnar í að vinna fyrir sköttum. Eyðendurnir stofnuðu svo í apríl „einkahlutafélag“ í eigu ríkis og borgar til að annast framkvæmdina.

Byrðar skattgreiðenda vegna Samkeppnisstofnunar héldu áfram að þyngjast á síðasta ári eins og þær hafa gert undanfarin ár. Því meira fé sem stofnunin fær því háværari gerða vein Samfylkingarþingmanna um að stofnunin búi við fjársvelti. Samkeppnisstofnun hefur meðal annars gagnrýnt þróun matarverð í skýrslum sínum og það er vissulega vont ef matur hækkar því menn eiga erfitt með að víkja sér undan því að kaupa í matinn. Matur hefur þó ekki hækkað neitt í líkingu við það sem kostnaður við rekstur Samkeppnisstofnunar hefur gert. Það er engin leið fyrir neytendur að víkja sér undan þeim kostnaði sem ríkið leggur þá vegna reksturs Samkeppnisstofnunar. Því til viðbótar heldur stofnunin fyrirtækjum í herkví árum saman á meðan „rannsóknum“ hennar stendur og setur stjórnendum fyrirtækja alls kyns fíflaleg skilyrði um reksturinn.

 

Fyrir kosningar í vor var lagt að kjósendum að „breyta“. Vefþjóðviljinn reyndi að gera sér grein fyrir hvernig ríkisstjórn breytinganna yrði skipuð ef svo færi að stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks félli.

Ríkisstjórn breytinganna

Fjármálaráðherrann
Steingrímur J. Sigfússon
  
Utanríkisráðherrann
Össur Skarphéðinsson
Dómsmálaráðherrann
Gunnar Örlygsson
Umhverfisráðherrann
Kolbrún Halldórsdóttir
Menntamálaráðherrann
Mörður Árnason
  
Samgönguráðherrann
Jóhann Ársælsson
Forsætisráðherrann
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Sjávarútvegsráðherrann
Guðjón Arnar Kristjánsson
Viðskiptaráðherrann
Ögmundur Jónasson
Landbúnaðarráðherrann
Jón Bjarnason
Heilbrigðisráðherrann
Guðmundur Árni Stefánsson
Félagsmálaráðherrann
Jóhanna Sigurðardóttir

Það var eins og við manninn mælt, undantekningarlítið náðu þessir frambjóðendur kjöri eftir að Vefþjóðviljinn hafði mátað þá við ráðherrastólana. Jafnvel Mörður Árnason, sem hafði gert margvíslegar tilraunir á aðra öld til að komast á þing, náði loks kjöri. Engin breyting varð þó á landstjórninni að öðru leyti en því að Una María Óskarsdóttir leysti Einar Sveinbjörnsson af hólmi sem aðstoðarmaður umhverfisráðherra.

Á árinu komu að fullu til framkvæmda lög frá árinu 2000 um foreldra- og fæðingarorlof. Kostnaður vegna þeirra hefur gjörsamlega farið úr böndunum enda eru þess dæmi að Tryggingastofnun greiði mönnum nokkrar milljónir króna í bætur fyrir þann skaða sem menn verða fyrir er þeir njóta samvista við afkvæmi sín. Konur fá að meðtaltali mun lægri mánaðargreiðslur úr fæðingarorlofssjóði en karlar enda voru lögin talin eitt mesta framfaraspor í „jafnréttismálum“ á  20. öldinni. Það komst hins vegar í fréttirnar í vor að bótaþegar vinna sér ekki inn orlofsrétt í fæðingarorlofinu og var það eftir öðru hvað þetta mál varðar að það var talið mikið óréttlæti.

 

Vinstri grænir hafa haldið því mjög á lofti að flokkur þeirra sé ekki einn af „foringja- eða persónudýrkunarflokkunum“. Svo mikla áherslu hafa þeir lagt á að þvo af sér allar grunsemdir um slíkt að aðeins einn frambjóðenda flokksins til þings í vor, Hlynur Hallsson í norðausturkjördæmi, kom fram í sjónvarpi í nærbol með mynd af Steingrími J. Sigfússyni yst klæða. Hafði hann ekki annað til að skýla sér í umræðuþættinum en bolinn og berjatínu. Aðrir frambjóðendur flokksins voru undantekningarlaust í skyrtu eða peysu yfir bolnum á opinberum vettvangi.