Líklega þekkja flestir sem hafa lagt leið sína í miðbæ Reykjavíkur á föstudags- eða laugardagskvöldi að það getur orðið býsna napurt að standa í frosti, roki og jafnvel hríð, að bíða eftir leigubíl. Biðin verður stundum óhófleg og vosbúðin ömurleg, en það er eins með þessa bið og flest annað, hún á sér eðlilega skýringu, sem er skortur á leigubílum. Til að gera út leigubíl er ekki nóg að uppfylla almenn skilyrði á borð við bílpróf, heldur þarf að fá sérstakt leyfi. Leyfin eru takmörkuð og þannig er fjölda leigubíla haldið niðri, sem kemur sér vel fyrir þá sem hafa leyfin en illa fyrir aðra. Þeir sem hafa leyfin beita ýmsum rökum gegn því að öðrum verði hleypt að, svo sem að gæði þjónustunnar versni og öryggið minnki.
Í nýjasta tölublaði Economic Affairs er grein eftir Sean C. Barrett um afnám aðgangshindrana að leigubílamarkaðnum á Írlandi fyrir þremur árum. Þar í landi höfðu frá árinu 1978 verið verulegar aðgangshindranir að leigubílamarkaðnum og leyfum hafði alls ekki fjölgað á þessu tímabili í samræmi við hagvöxt, aukinn fjölda vinnandi manna, aukinn fjölda erlendra gesta, og svo framvegis. Skorturinn var orðinn mjög tilfinnanlegur og reyndar að því er virðist enn tilfinnanlegri en hann er nú hér á landi. Breytingin yrði þess vegna líklega ekki eins mikil hér á landi og hún var á Írlandi, en þar fjölgaði leigubílum um 297% á milli áranna 2000 og 2002. En það er ekki fjölgun bílanna sem skiptir máli, heldur niðurstaðan gagnvart notendum þjónustunnar, og það er óhætt að fullyrða að þeir eru sáttir við breytinguna. Samkvæmt rannsókn frá því í fyrra sem Barrett vitnar til voru yfir tveir þriðju hlutar fólks þeirrar skoðunar að breytingin hefði verið góð, en innan við sjöundi hver var því ósammála. Þeir sem voru ósammála hafa líklega ekki oft þurft að nýta sér þjónustu leigubíla á annatíma, því biðtíminn minnkaði verulega. Í rannsókninni var einnig spurt um gæði bílanna og flestir töldu þau ásættanleg og að ekki væru rök fyrir verulegum breytingum á því sviði, sem er líklega svipað og notendur íslenskra leigubíla myndu segja. Flestir bílanna hér á landi eru ásættanlegir, en sumir eru þannig að þeim mætti að ósekju finna annað hlutverk. Barrett kemur í greininni einnig inn á öryggi farþeganna og ef marka má niðurstöðu hans er ekkert sem bendir til að það hafi minnkað.
Þeir sem ekki hafa sérstaka hagsmuni af óbreyttu leyfiskerfi á leigubílamarkaðnum ættu að geta fallist á að það væri til bóta að þeir sem uppfylla ákveðin almenn skilyrði geti fengið leigubílaleyfi og hafið leigubílaakstur. Það sem stendur í veginum eru eingöngu sérhagsmunir ákveðins hóps sem óttast um hag sinn verði fleirum hleypt að í greininni. Þessi ótti er út af fyrir sig skiljanlegur, þótt hann sé líklega meiri en efni standa til. Hann á hins vegar ekki að ráða því að öðrum sé bannað að framfleyta sér með leigubílaakstri, eða að fólk þurfi að híma löngum stundum að nóttu til í nepjunni í miðbæ Reykjavíkur.