Mánudagur 8. desember 2003

342. tbl. 7. árg.

Það má Morgunblaðið eiga, að það er – að mati Vefþjóðviljans að minnsta kosti – viðkunnanlegasta blað á Íslandi. Þar hafa menn, hvað sem öðru líður, um áratugi haft það að markmiði að gefa út vandað og sæmilegt blað sem ekki gengur nær mönnum eða fjær málefnum en góðu hófi gegnir. Á dögunum kom meira að segja út bók sem varpar skýru ljósi á þróun og eðli Morgunblaðsins, og gæti jafnvel eytt ýmsum ranghugmyndum um það efni, ævisaga Valtýs Stefánssonar sem var ritstjóri blaðsins um tæplega fjörutíu ára skeið og hafði mikil áhrif á íslenska blaðamennsku. Bók þessi er afar athyglisverð og fróðleg eins og reyndar fleira sem frá höfundi hennar, Jakobi F. Ásgeirssyni, hefur komið og má þar sérstaklega nefna bók hans, „Þjóð í hafti“, sem út kom fyrir fimmtán árum og sagði sögu haftaáranna á Íslandi. En nóg um það, Vefþjóðviljinn hyggst geyma sér um sinn að fjalla um hina nýju Valtýssögu en rövla aðeins í Morgunblaðinu þess í stað.

Morgunblaðið getur nefnilega verið, þrátt fyrir alla sína kosti og glæsta sögu, svo ósköp þreytandi. Pólitíski rétttrúnaðurinn, vælið, femínisminn, nútímaeltingaleikurinn; fastir lesendur mega búast við hverju þessa sem er til að spilla morgungleðinni fyrir sér. Um daginn voru það til dæmis hnefaleikar sem blaðið hafði feiknarlegar áhyggjur af og vildi banna. Eftir að hnefaleikamaður slasaðist í keppni á dögunum ítrekaði Morgunblaðið í forystugrein þá skoðun sína að hnefaleikar ættu að vera bannaðir og kallaði það „slys í þingsölum“ að þeir skyldu hafa verið leyfðir á sínum tíma. „Það þarf ekki að útskýra hvaða afleiðingar höfuðhögg geta haft og hvers vegna fólk forðast þau yfirleitt“ sagði Morgunblaðið og virtist vart hafa tekið eftir orðinu „yfirleitt“ sem það þó notaði og þá væntanlega vegna þess að jafnvel því er ljóst að sumir forðast höggin ekki meira en svo að þeir sjálfviljugir æfa og keppa í íþrótt þar sem þau eru fastur liður. En það virðist bara ekki mega leyfa mönnum að taka slíka áhættu. Höfuðhögg geta haft alvarlegar afleiðingar. Morgunblaðið vill banna hnefaleika.

En hnefaleikar eru ekki eina áhættan sem menn taka og er Vefþjóðviljinn þá ekki að vísa til knattspyrnu, hestamennsku eða tíðra tónleikaferða. Sumir virðast sækjast eftir því að leggja sig í bráða lífshættu og það án sérstaks sjáanlegs tilgangs, annars en þess að ná settu marki. Skýr dæmi um þetta eru fjallgöngur í skemmtiskyni eða álíka hættufarir að hinum og þessum ystu mörkum. Að sögn hafa einir fjórir Íslendingar gert sér ferð á tind Everestfjalls og verður víst ekki farið mikið hærra fótgangandi. Einn þessara fjögurra kvað jafnframt hafa lagt leið sína á Suðurpólinn, Norðurpólinn og til Akureyrar og mun hafa haft gaman af. Allt hafa þetta verið hættuferðir og eflaust oft sem rangt skref hefði getað kostað göngumenn lífið. Þeir sem vilja banna mönnum að boxa, svona af því að þar sé hættan á meiðslum í óþægilega litlu samræmi við ávinninginn af sportinu, þeir eru þá sjálfsagt ekki líklegir til að vilja hleypa mönnum á fjarlæga fjallstinda. Og þó. Þá má það allt í einu. „Morgunblaðið óskar þremenningunum til hamingju með hraustlega framgöngu, þrautseigju og áræði í sigurför þeirra á tind Everestfjalls“ sagði á sínum tíma í forystugrein ágæts blaðs sem síðar átti eftir að senda Haraldi Erni Ólafssyni hamingjuóskir af og til af svipuðu tilefni. Þetta liggur þá eiginlega fyrir. Ef þeir vinirnir Haraldur Örn og Ingþór Bjarnason myndu sér til skemmtunar skella sér í smá box þá myndi Morgunblaðið koma askvaðandi og skakka leikinn: Strákar mínir, ekki leika sér að eldinum. Eruði ekki til í að hætta þessu og gera eitthvað annað? Ganga kannski á Norðurpólinn, ha? Everest kannski?

ÞÞeir sem vilja styðja við útgáfu Vefþjóðviljans geta gert það með því að smella á hnappinn merktan Frjálst framlag hér til hliðar. Kostnaður við útgáfuna og kynningu á henni hefur frá upphafi verið greiddur með frjálsum framlögum lesenda og óvíst hvernig færi ef þess góða stuðnings nyti ekki við. Sem er alveg eins og það á að vera.