Helgarsprokið 7. desember 2003

341. tbl. 7. árg.
Tímabundin greiðsla Launasjóðs rithöfunda til höfunda felur ekki í sér endursölu þeirra á ákveðnum ritverkum heldur er um að ræða styrk eða laun án ákveðins endurgjalds í formi þjónustu eða réttinda. Þar með má draga þá ályktun að listamannalaun falli ekki undir ákvæði samkeppnislaga.
 – Samkeppnisstofnun um erindi um stöðu launasjóðs rithöfunda gagnvart samkeppnislögum.

Ámeðan Samkeppnisstofnun ríkisins ólmast gegn einkafyrirtækjum á opnum mörkuðum fer fram alls kyns ofbeldi gegn frjálsum viðskiptum í skjóli ríkisins. Og Samkeppnisstofnun gerir ekkert við því. Landbúnaður nýtur ríkisstyrkja, innflutnings- og tollverndar svo frjáls samkeppni fái alls ekki þrifist. Ríkið mer einkarekna fjölmiðla mélinu smærra með ríkisstyrkjum, skylduáskrift og niðurgreiddum auglýsingum. Samkeppnisstofnun, samkeppnisráð, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og samkeppnislög eiga ekkert svar við því.

Fyrir nokkrum árum komust „samkeppnisyfirvöld“ svo að því að ríkisstyrkir til einstakra rithöfunda væru bara allt í lagi. Kostulegan rökstuðning fyrir því má lesa hér að ofan. Með sömu rökum mætti segja að ríkisstyrkir til útvalinna eigenda nokkurra undirfataverslana væru bara í góðri sátt við samkeppnislög þar sem styrkirnir væru bara styrkir eða laun til nærklæðasala en ekkert kveðið á um endurgjald í formi þjónustu eða réttinda.Vefþjóðviljanum hefur svo sem aldrei komið á óvart að samkeppnislög séu gagnslaus og geri oft illt verra.

Listamenn eiga eins og aðrir framleiðendur í keppni við félaga sína. Þótt sumir séu fæddir snillingar fer það oft eftir efnum og aðstæðum hversu mikinn tíma men hafa til að sinna listsköpun . Það gefur því auga leið að á meðan sumir eru hreinlega á styrkjum hjá hinu opinbera er staða þeirra til að vinna og kynna verk sín allt önnur en þeirra sem þurfa að sjá sér farborða með öðrum hætti. En „samkeppnisyfirvöld“ líta bara á þessa styrki sem laun án ákveðins endurgjalds og þá er allt gott og blessað.

Á Alþingi eru ófáir sem hafa flutt miklar ræður um mikilvægi samkeppni. Engu að síður samþykkja þessir sömu þingmenn ár eftir ár „heiðurslaun listamanna“ þar sem nokkrir, 25 samkvæmt fjárlögum 2004, listamenn eru settir skör ofar en aðrir. Við afgreiðsluna heiðurslaunanna að þessu sinni fór Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður vinstri grænna í fýlu yfir því að ekki væri gætt jafnræðis milli listgreinanna bókmennta, tónlistar, myndlistar, leiklistar og kvikmyndagerðar. Auk þess segir Kolbrún að valið á styrkþegunum hafi ekki hafa verið „sjálfsprottin tillaga menntamálanefndar“. Telur Kolbrún að vinnubrögðin við valið, sem hún segir „gerræðisleg“, bjóði upp á á „missætti og leiðindi“. Staðreyndin er þó líklega sú að engir tveir myndu velja sömu 25 styrkþegana. Engir tveir velja heldur sömu bókina, málverkið, leikritið, plötuna og kvikmyndina. Sumir myndu jafnvel taka tvær spólur frekar en eina bók og eina spólu. Þetta þekkja menn ágætlega af því að velja spólu út á leigu, það getur verið góð skemmtun ef tekst á annað borð að velja spóluna án þess að beita gerræði og bjóða upp á missætti og leiðindi. Það verður því aldrei annað en missætti og leiðindi þegar Kolbrún og félagar hennar í menntamálanefnd taka að sér að velja list fyrir restina af þjóðinni. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að Kolbrún teldi valið gerræðislegt er að hún fengi að sjá um það upp á eigin spýtur. Það sama á við um aðra landsmenn. List á að vera sjálfsprottin hjá listamönnum og þeirra sem njóta listarinnar en ekki sjálfsprottin tillaga menntamálanefndar Alþingis.