Miðvikudagur 3. desember 2003

337. tbl. 7. árg.

H

Menn stunda ýmsar íþróttir sér til dægrastyttingar… auk þess að meitla svip og stæla kjark geta þær orðið til bjargar á hættustund…

nefaleikakeppni nokkurri í Vestmannaeyjum lauk um helgina með því að annar rotaði hinn. Nokkru síðar kom í ljós að þeim hafði ekki orðið betra af högginu en svo að það blæddi inn á heila hans og hljómar það vitanlega ekki sérstaklega vel. Síðan þetta gerðist hafa fjölmiðlar og aðrir hefðbundnir forræðishyggjumenn verið önnum kafnir við að segja sagði ég ekki, milli þess sem þeir menn sem á sínum tíma höfðu forgöngu um að hnefaleikar voru að nýju leyfðir á Íslandi hafa verið dregnir fram og sýndir, svona til að fólk geti framvegis varað sig á talsmönnum örkumla og misþyrminga. Fáir ef nokkrir þessara manna hafa reyndar sagst hafa skipt um skoðun á málefninu og þar sem Vefþjóðviljinn er eins og hann er þá vill hann ótilkvaddur láta þess getið að það hefur hann ekki heldur gert. Vefþjóðviljinn er jafn andvígur hnefaleikabanni og hann var fyrir helgi.

Menn eru einlægt að slasa sig í íþróttum. Ef marka má íþróttafréttir fjölmiðla þá er varla hægt að finna nokkra þá hópíþrótt þar sem nokkru félagi hefur tekist að „stilla upp sínu sterkasta liði“ því alltaf er einhver tognaður á nára eða eitthvað. Menn hafa fallið niður örendir á knattspyrnuvellinum. Fyrir fáum árum lést hlaupari í miðju Reykjavíkurmaraþoni. Engu að síður dettur fáum í hug að banna hefðbundnar íþróttir vegna þess hve hættulegar þær séu. Þetta viðurkenna flestir, en þeir sem vilja banna öðru fólki að stunda hnefaleika segja þá á móti að hnefaleikar séu allt annars eðlis því þar séu barsmíðarnar, höggin, sérstakt markmið. Leikurinn snúist einfaldlega um það að koma höggi á óvininn, ólíkt öðrum íþróttum þar sem meiðslin séu vegna óhappa og brota á leikreglum. En af því að Vefþjóðviljinn er eins og hann er, þá þykir honum nú eiginlega sem þessi atriði styðji fremur frelsið en forræðishyggjuna.

og verða þeir seint taldir, allir þeir sem hafa bjargast vegna kunnáttu sinnar í savate.

Það að höggin eru einfaldlega það sem hnefaleikar snúast um, það þýðir þá væntanlega að sá sem gengur til leiks veit að hann má búast við höggum, að minnsta kosti ef hann er ekki þeim mun leiknari en fjandmaðurinn. Þar sem högg og árekstrar eru vegna óhappa eða leikbrota, þar væri væntanlega nær að setja reglur ef einhver vill slíkt. Þar má þó frekar ímynda sér að leikmaður hafi ekki samþykkt hættuna á slíkum meiðslum. Það væri að minnsta kosti nær – þó Vefþjóðviljinn vilji það vitaskuld ekki – að banna slíkar íþróttir en þær þar sem keppendur vita að hverju þeir ganga. Keppandi í hnefaleikum veit að hann gengur til leiks við mann sem mun reyna að koma á hann þungum höggum. Keppandinn hefur einfaldlega gert það upp við sig að ánægjan af að keppa, ánægjan af leiknum, vegi upp þá áhættu sem hann tekur. Rétt eins og fólk er alltaf að kaupa ánægju og greiða fyrir með ákveðinni áhættu. Sumir borða mat sem telst óhollur, fá lítinn svefn, klæða sig ekki eftir veðri, drekka áfengi af krafti og svo framvegis og framvegis. Allt eru þetta ákvarðanir sem hver og einn á að fá að taka fyrir sig. Í því að vera frjáls maður felst ekki síst að fá sjálfur að taka ákvarðanir um eigið líf, ákvarðanir sem í augum annarra, jafnvel flestra, eru bæði rangar og bráðræðislegar.