N
Einhvern tímann í fyrnskunni gerðist það að „áminning, andmæli, og uppsögn“ leystu „frelsi, jafnrétti og bræðralag“ af hólmi sem verklag við fækkun hausa í opinberri þjónustu. |
okkur verkalýðsfélög keyptu heilsíðuauglýsingar í dagblöðunum í gær og tilkynntu þar að þau hefðu sagt Geir H. Haarde fjármálaráðherra upp störfum. Að vísu er ekki hlutverk þessara félaga að ráða eða reka fjármálaráðherra landsins og ekki mun Geir heldur hafa verið í öðru starfi á vegum þeirra utan hefðbundins vinnutíma. Mun reyndar ekki heldur eiga að taka auglýsingunum bókstaflegar en svo að þær hafi átt að vera snjöll og sniðug aðferð til að sýna fram á hversu illa fjármálaráðherrann hyggst fara með opinbera starfsmenn með frumvarpi sem hann hefur nýlega lagt fram á Alþingi og miðar að því gera allt að því mögulegt að segja opinberum starfsmanni upp störfum. Jæja, þetta er ekki alveg sanngjarnt, það er fræðilega mögulegt að segja opinberum starfsmanni upp starfi, en það er í besta lagi bæði flókið og torsótt.
Það er eiginlega dálítið sérstakt að þá loksins að fjármálaráðherra lendir í persónulegri eldlínu, er gagnrýndur persónulega, að einmitt þá sé hann að halda fram skynsamlegum málstað. Reyndar hefur Geir Haarde átt góða spretti á undanförnu en auk þess að leggja til breytingar á réttindum opinberra starfsmanna hefur hann nýlega tekið undir kröfur um að svo kallaður sjómannaafsláttur verði felldur niður. En sem sagt, nú hefur verið lagt til að ekki verði nauðsynlegt að áminna ríkisstarfsmanninn áður en honum er sagt upp störfum með venjulegum uppsagnarfresti og það þykir verkalýðsfélögunum slík svívirða að réttlæta megi persónulegar auglýsingar gegn fjármálaráðherra, fjármagnaðar af nauðungargjöldum félagsmanna.
Þó er ekki verið að leggja til harðari reglur en venjulegir launamenn búa við. Og venjulegir atvinnurekendur líka. Það er ekki aðeins atvinnurekandi sem getur ákveðið að slíta ráðningarsambandi; starfsmönnum er líka heimilt að láta af störfum án þess að „áminna“ vinnuveitandann – svo sem um að hækki hann ekki laun, lengi matartímann eða ráði snotrari símadömu þá sé starfsmaðurinn farinn – og án þess að „rökstyðja“ uppsögn sína sérstaklega. Ætli verkalýðsfélögin, sem nú eru að springa af hneykslun yfir því að fjármálaráðherra vilji geta sagt opinberum starfsmönnum upp starfi án þess að þurfa að standa þá að stórglæp áður, vilji kannski hafa núverandi uppsagnarreglur opinberra starfsmanna gagnkvæmar? Vilja þau kannski afnema þá reglu að opinber starfsmaður megi segja starfi sínu lausu án þess að gefa ríkinu færi á að „bæta ráð sitt“? Vilja þau að starfsmenn megi kannski ekki láta af störfum án þess að „færa fullnægjandi rök“ fyrir ákvörðun sinni, og þá kannski gera það skilyrði að vinnuveitandinn „hafi brotið af sér“? Eða á þetta kannski allt bara að verka í aðra áttina?