Við höfum ævinlega gætt þess að nota sanngirnisregluna sem tekur til þess að fleiri en ein hlið séu á hverju máli. |
– Friðrik Páll Jónsson, ritstjóri Spegilsins, í Fréttablaðinu |
Þeir sem hlustað hafa á Spegilinn í Ríkisútvarpinu hljóta að undrast nokkuð ofanrituð ummæli ritstjóra þáttarins, því þátturinn hefur ekki endilega þótt hafa það helst sér til ágætis að draga vandlega fram báðar – eða eftir atvikum allar – hliðar mála. Fréttaskýringarþátturinn, eins og Fréttablaðið kallar hann í endurteknum fréttum sem birtar eru til varnar þættinum, skýrir fréttir almennt frá annarri hliðinni, það er að segja frá vinstri hliðinni. Þetta vita auðvitað þeir sem hlusta á þáttinn og ef stjórnendur hans eru virkilega þeirrar skoðunar að þátturinn sé sanngjarn í þeim skilningi að hann hleypi öllum sjónarmiðum jafnt að, þá er það einungis til marks um þeir eru algerlega blindaðir af skoðunum sínum og alls ófærir um að fjalla af sanngirni um þjóðmál. Og það er út af fyrir sig allt í lagi, þeir þurfa ekki að fjalla af sanngirni um nokkurt mál – nema að vísu ef þeir gefa sig úr fyrir að gera það og ef þeir gera það á kostnað skattgreiðenda.
Dæmin um vinstri slagsíðu þáttarins má sjá á hverjum degi og dæmin um sanngirnina sömuleiðis. Eitt dæmið er umfjöllun Spegilsins um stuðning ríkisins við öryrkja síðastliðinn miðvikudag. Sú umfjöllun var dæmigerð fyrir þann skilning sem stjórnendur Spegilsins sýna því að fleiri hliðar en ein séu á hverju máli. Í pistlinum var sagt lauslega frá málinu og spilaðar upptökur af ummælum heilbrigðisráðherra sem áttu greinilega að sýna fram á að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Að því loknu var spilað langt viðtal við formann Öryrkjabandalagsins þar sem hann veittist að ríkisstjórninni fyrir það sem hann telur svik við öryrkja. Ekkert var rætt við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og þau sjónarmið sem þeir hafa viðrað annars staðar þóttu greinilega ekki þess virði að þau fengju að koma fram í vönduðum fréttaskýringarþætti Ríkisútvarpsins þar sem „sanngirnisreglan“ er fyrsta boðorðið.
Þegar pistlar eins og sá sem að framan er lýst eru reglan en ekki undantekningin ætti engum að koma á óvart þótt gerðar séu kröfur um að vinnubrögðin verði bætt, til dæmis með því að gera fréttastjóra ábyrgan fyrir efninu sem þar er flutt. Það er svo sem ekki líklegt að þátturinn breytist verulega við það ef sömu menn vinna hann áfram, jafn blindaðir og þeir augsýnilega eru. En það verða þó ef til vill settar ákveðnar lágmarkskröfur um sanngirni í umfjöllun – og þá er ekki átt við einhliða sanngirnisreglu Spegilsins.