Sænski mannfræðingurinn Petra Östergren hélt erindi um rannsóknir sínar á sænskum vændislögum á fundi í Norræna húsinu á þriðjudag. Frumvarp sem liggur nú fyrir Alþingi sækir helstu hugmynd sína til þessara sænsku laga, en hugmyndin er að kaupendum vændisþjónustu skuli refsað en seljendum ekki. Einhverjum mun þykja þetta þjóðráð, en Östergren er ekki á sama máli og segir reynsluna frá Svíþjóð slæma og að helsti gallinn við rannsóknir á vændi hafi verið sá að seljendur þjónustunnar séu ekki spurðir álits. Östergren hefur rannsakað sænsku lögin frá hlið vændiskvennanna og telur þær verr staddar nú en áður, öryggi þeirra sé minna og aðstæður allar verri. Vændið hafi hins vegar að sjálfsögðu ekki horfið, enda sé ekki hægt að minnka vændi með slíkri lagasetningu.
Ríkisútvarpið sendi fréttamann á fundinn til að fjalla um hann af kunnri fagmennsku og hlutleysi. Eftir fundinn valdi fréttamaðurinn svo einn fundargest af handahófi til að fá álit hans á fyrirlestrinum. Það hlýtur að hafa komið hlustendum ríkisútvarpsins mikið á óvart að sá sem þannig var valinn af handahófi af fjölmennum fundinum var fyrrverandi þingmaður Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir. Og það sem var enn ótrúlegra – og hefur líklega komið fréttamanninum algerlega í opna skjöldu – er að viðmælandinn var bara alveg ósammála sænska mannfræðingnum.
Evrópusambandið hentar smáríkjum ákaflega vel, ef marka má hörðustu talsmenn sambandsins hér á landi. Smáríki geta nefnilega haft svo mikil áhrif innan Evrópusambandsins. Fjármálaráðherra Hollands, Gerrit Zalm, er ekki reiðubúinn til að skrifa athugasemdalaust undir slík sjónarmið og telur að stóru ríkin, Þýskaland og Frakkland, fái aðra meðferð en smærri ríkin. Ríkin sem hann tekur dæmi af eru Portúgal og Írland, en þau hafa lent í svipuðum vandræðum með ríkisfjármál sín og Þýskaland og Frakkland. Zalm segir að þegar smærri ríkin hafi brotið gegn ákvæði um hallarekstur ríkissjóðs, sem er hluti stöðugleikasamkomulags vegna evrunnar, hafi verið tekið mun harðar á brotunum en nú sé gert þegar Þýskaland og Frakkland brjóti af sér með sama hætti.
Nú er svo sem ekki líklegt að þeir sem fyllst hafa hinni svokölluðu evrópuhugsjón láti segjast þó að smáþjóðir fái verri meðferð innan Evrópusambandsins en þær sem stærri eru. Þeir munu eftir sem áður vilja hoppa um borð í evrópuhraðlestina reknir áfram af sögulegri nauðhyggju. Og þeim er nokk sama þó þeir fái ekki að sitja á fyrsta farrými með Frökkum og Þjóðverjum. Þeir verða jafnvel tilbúnir til að gefa eftir almenna farrýmið þar sem meðalstórum og minni ríkjum Evrópu hefur verið komið fyrir. Já, þeir munu án nokkurs vafa sætta sig glaðir við gripaflutningavagnana, því að kenningin segir að öll sætin í evrópuhraðlestinni séu jafn góð.