Þriðjudagur 18. nóvember 2003

322. tbl. 7. árg.

Við leggjum áherslu á nýjar leiðir til að styrkja íslenskan landbúnað og treysta byggð í sveitum landsins. Í því skyni hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð sett fram tillögur um búsetutengdan grunnstuðning og eflingu lífræns landbúnaðar. Á þann hátt er opnað á fjölbreyttari möguleika til nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins auk þess sem íslenskum landbúnaði yrði auðveldað að undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga.

 – Úr stjórnmálaályktun landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs

Á

Hér mætti aldeilis dreifa þéttri byggð á ósnortin víðerni lífræns landbúnaðar.

dögunum var vikið að því hér að vinstri grænir í Kópavogi eru á móti þeirri hugmynd að þéttingu byggðar sem nú liggur fyrir í landi Lundar þar í bæ. Kemur það nokkuð á óvart þar sem vinstrigrænir hafa í orði lagt mikla áherslu á þéttingu byggðar. Hafa þeir og fleiri rætt um það af mjög naumt skammtaðri virðingu hvernig höfuðborgarsvæðið hefur flengst út um móa og mýrar, hóla og heiðar. Má vart á milli sjá hvort fyrirlitlegra er að búa í úthverfi eða aka um á  bíl en svo heppilega vill til að með hugtakinu „þétting byggðar“ má ná fram óbragði í munninn yfir hvoru tveggja. Fer það bragð vel með fjallagrösum og munnvatni.

Þótt menn tali digurbarkalega gegn því að teygja höfuðborgarsvæðið út um víðan völl er holur hljómur í því tali . Í hvert sinn sem taka á óræktartún eða moldarflag undir byggð virðast menn umturnast og fara í mikla baráttu fyrir „verndun grænna svæða“. Þetta gerðist til að mynda í Laugardal fyrir nokkrum árum og nú síðast í Lundi í Kópavogi þar sem vinstri grænir hafa allt á hornum sér vegna hugmynda um að þétta byggð. Fara þeir fremstir í flokki sem hæst hafa látið um „þéttingu byggðar“.

Annað sem ástæða er að klóra sér í kollinum yfir er að á sama tíma og vinstri grænir vilja þétta byggð vilja þeir dreifa henni um allar koppagrundir. Úr nýrri ályktun þeirra er ekki hægt að lesa annað en að þeir vilji efla þá dreifðu byggð sem fyrir er með enn frekari stuðningi úr opinberum sjóðum. Þessi mikla áhersla á að dreifa mönnum um allar sveitir landsins verður svo enn sérkennilegri þegar við bætast kröfur um „óspillt víðerni“. Og enn furðulegri verður grauturinn þegar búið að hræra „lífrænum landbúnaði“ út í. Það þarf margfalt meira landrými í lífrænum landbúnaði en þar sem notaður er tilbúinn áburður því uppskeran er svo rýr þegar menn neita sér um áburð. Það þarf með öðrum orðum að taka meira af „óspilltum víðernum“ undir lífrænan landbúnað en hefðbundinn.

Ef draga á þessi ósköp saman í eina málsgrein þá er ekki fjarri lagi að segja að Vinstri hreyfingin grænt framboð hafi þá stefnu að þétta byggð með stuðningi við dreifða byggð á vernduðum óspilltum víðernum sem lögð hafa verið undir lífrænan landbúnað.