Fimmtudagur 9. október 2003

282. tbl. 7. árg.

K

Schwarzenegger tókst að losa Kaliforníu við slæman ríkisstjóra, en þrátt fyrir ágætar fyrirætlanir verður eftirleikurinn allt annað en auðveldur.

alifornía hefur kosið sér sem nýjan ríkisstjóra einn frægasta leikara veraldar, Arnold Schwarzenegger. Það er óhætt að segja að leikarinn, sem reyndar hefur einnig náð ágætum árangri í viðskiptum auk þess að hafa háskólagráðu í viðskiptafræðum, er ekki óumdeildur í nýju starfi – ekki frekar en í leiklistinni. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að Schwarzenegger eigi lítið erindi í ríkisstjórastólinn og hafi hvorki þá reynslu né þekkingu sem nauðsynleg sé til að ná árangri. Þeir sem halda þessu helst fram eru vinstra megin við miðju stjórnmálanna, en þeir gætu svo sem velt því fyrir sér að ef marka má árangur fráfarandi ríkisstjóra, demókratans Gray Davis, þá er reynsla að minnsta kosti ekki nægjanleg forsenda fyrir árangri. Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki þá spádómsgáfu að geta sagt fyrir um hvort Schwartzenegger muni ná árangri eða ekki, en þó er óhætt að halda því fram, að ef hann fylgir þeim skoðunum sem hann hefur sett fram að undanförnu muni honum að minnsta kosti takast betur upp en Davis.

Í grein sem nýkjörinn ríkisstjóri ritaði í síðasta mánuði lýsir hann viðhorfum sínum til efnahagsmála og segir að þeir hagfræðingar sem hafi haft mest áhrif á skoðanir hans á þeim málum séu Milton Friedman og Adam Smith. „Það sem ég hef lært af Friedman og Smith er nokkuð sem allir stjórnmálamenn ættu alltaf að hafa í huga: Þegar þung hönd ríkisins verður of íþyngjandi og afskiptasöm, hindrar hún ótakmarkaða auðsköpun frjálsra einstaklinga sem starfa í frjálsu markaðshagkerfi,“ segir Schwarzenegger, og bætir því við að vandann í fjármálum Kaliforníuríkis megi aðallega rekja til þess að þetta hafi gleymst. Skattarnir séu allt of háir, reglugerðirnar of íþyngjandi, útgjöld ríkisins hafi vaxið hratt og skuldasöfnunin hafi verið meiri en hjá öllum hinum 49 ríkjunum samanlagt. Í greininni vitnar Schwarzenegger í tvo aðra menn. Hann hefur eftir fyrrverandi Bandaríkjaforseta, John F. Kennedy, að „ef skattarnir eru of háir verða aldrei til nægilega mörg störf eða nægilega miklar tekjur til að ná jafnvægi í rekstri ríkisins“. Og hann hefur eftir hagfræðingnum Arthur Laffer að skattkerfið í Kaliforníu virtist miða að því að gera þá ríku fátækari en ekki að gera þá fátæku ríkari, sem er ágæt lýsing á áhrifum hárra skatta.

Barátta Schwarzeneggers við fjármál Kaliforníuríkis verður líklega erfiðari en barátta hans við illmennin á hvíta tjaldinu, sérstaklega í ljósi þess að hann þarf að búa við meirihluta demókrata í þinginu og getur því lent í erfiðleikum með að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Engu að síður ætti brúnin á Kaliforníubúum að léttast við ríkisstjóraskiptin. Nú fá þeir ríkisstjóra sem hefur lýst vilja til að draga úr umsvifum ríkisins og lækka skatta, og losna um leið við þann sem sá fáar aðrar lausnir en hækkun skatta og opinberra gjalda.