Vefþjóðviljinn er ekki mikið fyrir að leggja mönnum lífsreglurnar. Menn eiga að vera sem allra frjálsastir að því að gera það sem þeim sýnist á meðan það skaðar ekki aðra. Vefþjóðviljinn hefur miklu fremur áhuga á að hemja helsta böðul og ræningja veraldarsögunnar, ríkisvaldið.
Þó liggur við að Vefþjóðviljann langi að leggja til að mönnum verði bannað að gera eitt en færa um leið rök fyrir því að þegar menn gera þetta gangi þeir nokkuð á rétt annarra. Eins einkennilega og það hljómar eru það gjafir sem hann telur rétt að leggja bann við. Ef hann hefði aðstöðu til myndi hann jafnvel leggja fram frumvarp til laga þess efnis.
Frumvarp til laga
um bann við því að menn gefi hinu opinbera draslið sitt.
1. gr.
Mönnum er óheimilt að gefa hinu opinbera eða stofnunum þess eigur sínar. Hinu opinbera og stofnunum þess að óheimilt að þiggja hvers kyns gjafir frá einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum.
2. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi og þótt fyrr hefði verið.
Greinargerð.
Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að menn færi hinu opinbera eitt og annað og ætlist til að farið sé með gjafirnar á ákveðinn hátt. Listaverk eru gott dæmi. Listamaður eða eftirlifandi aðstandendur hans ákveða af rausnarskap sínum að gefa hinu opinbera drjúgan slatta af verkum meistarans. Getur orðið skaði af því, spyr nú sjálfsagt einhver? Er ekki ánægjulegt að „almenningur“ eignist verk meistarans? Annað dæmi gæti verið uppeldisheimili besta blakmanns þjóðarinnar. Á heimilinu er veglegt verðlaunasafn kappans ásamt treyju fyrirliða heimsmeistaraliðsins í strandblaki 1948 og einnig tuðran sem blakað var á Ólympíumótinu í Tókýó 1964. Það voru einmitt fyrstu leikarnir sem blakað var á. Á ekki „þjóðin“ rétt á að geta skoðað þessi djásn jafnvel þótt það verði aðeins í gegnum Helgu Kress og Halldór Guðmundsson? Ekki endilega. Það kostar sitt að halda utan um verk af þessu tagi, hafa þau til sýnis og sýna þeim þann sóma sem þeim ber.
Með öðrum orðum fylgir því ýmislegt að þiggja gjafir af þessu tagi. Jafnvel þótt gjafirnar séu bara veglegar fasteignir fylgir því kostnaður að eiga þær. Utan á svona gjafir vilja hlaðast alls kyns húsverðir, fræðingar og forstöðumenn. Fyrr en varir er umsjón með gjöfinni orðin að föstum lið á fjárlögum og forstöðumaðurinn óskar árlega eftir fundi með fjárlaganefnd alþingis. Á fundinum fyllir hann út eyðublaðið sem nefndin hefur látið útbúa til að auðvelda mönnum að óska eftir auknum ríkisútgjöldum. Þar kemur meðal annars fram að ef nefndin skaffi ekki meira fé til að sinna gjöfinni grotni hún niður, merkileg menningarverðmæti fari í súginn, UNESCO komist í málið og við fáum hvorki sæti Kúbu né Angóla í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árið 2094.
Gjafir eins þessar eru þar með orðnar íþyngjandi fyrir hinn almenna mann, skattgreiðandann, sem á sér einskis ills von þegar hann les í blöðunum af rausnarskap þeirra sem færa ríkinu dótið sitt.
Það eina getur gert svona „gjafir“ til hins opinbera verri en hér hefur verið lýst er þegar þeir sem koma færandi hendi eru leystir út með greiðslu úr ríkissjóði.