Föstudagur 26. september 2003

269. tbl. 7. árg.

E

Er nokkuð að því að ná örnum á skörnum?

f menn vilja njóta góðrar útsýnar yfir Seattle í Washington þá mun enginn staður betri en Newcastle golfvöllurinn. Það var enginn annar en arkitektinn Robert E. Cupp sem hannaði holurnar í samráði við sjálfan Fred Couples. Völlurinn tekur öðrum fram í þessum hluta Bandaríkjanna.

Á níunda áratugnum fór að bera á áhyggjum manna af því að heimurinn væri að drukkna í rusli. Ein skýringin var sú að Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) mataði fjölmiðla á upplýsingum um að sorphaugum færi fækkandi og það benti til þess að fyrr en síðar yrði ekkert pláss til að urða ruslið. Það var vissulega rétt að urðunarstöðum fækkaði á þessum árum en þeir sem eftir stóðu gátu tekið á móti meira sorpi. Í dag geta sorphaugar Bandaríkjanna tekið á móti 18 ára skammti af rusli sem er meira en nokkru sinni fyrr. Pláss fyrir rusl hefur þannig aukist um 25% á síðustu 10 árum. Að sjálfsögðu eru aðstæður misjafnar eftir svæðum en sorpbransinn er ansi sveigjanlegur og flest ríki Bandaríkjanna flytja rusl bæði inn og út. Ef Bandaríkin tvöfölduðu sorp sitt á 21. öldinni og flyttu það allt til litla Íslands færu 0,8% landsins undir það ef haugurinn væri 30 metra hár. Það er því nóg pláss fyrir ruslið.

Líklega hefur fjölmiðlafár í kringum sorpprammann Mobro 4000 þó átt einna stærstan þátt í því að telja fólki trú um að heimurinn væri að drukkna í sorpi. Mobro lagði af stað með rusl frá New York í mars árið 1987 og var ætlað að landa í Louisiana. Á leiðinni fengu menn þá hugmynd að spara sér flutning með því að losa sig við ruslið í Norður-Karólínu. Yfirvöld þar töldu að menn væru með eitthvað óhreint í pokahorninu og afþökkuðu sorpið. Þar með fékk sorpið um borð á sig slæmt orð og enginn vildi taka við því, hvorki á upphaflegum áfangastað í Louisiana né annars staðar. Þá tók við tveggja mánaða sigling Mobro um Atlantshafið og Mexikóflóa sem komst á forsíður helstu blaða sem dæmi um að sorpið myndi flæða yfir allt. Hófst þá mikill áróður fyrir endurvinnslu sorps með þeim afleiðingum víða eru skattgreiðendur neyddir til að setja stórfé í alls kyns sorpsöfnunar- og endurvinnsluævintýri.

Nútíma sorphaugar geta ekki aðeins tekið á móti meira sorpi en áður heldur eru þeir einnig þannig útbúnir að hægt er að safna vatni sem rennur frá þeim og meðhöndla það eins og annað frárennsli. Víða er einnig hægt að safna því metangasi sem myndast við rotnun í haugunum og nýta það sem eldsneyti. Þetta er til dæmis gert á sorphaugum Sorpu í Álfsnesi.

Þeir sem hafa svo áhyggjur af því að landið sem fer undir sorpið fari forgörðum ættu að taka einn hring á Newcastle golfvellinum, helst með millilendingu á LaGuardia í New York. Báðir vellirnir standa á gömlum ruslahaugum.