Ýmsar staðbundnar reglur eru í reyndinni dulbúnar viðskiptahömlur. Einn helzti tilgangur Evrópusambandsins er að ryðja slíkum hindrunum úr vegi í sambandslöndunum. Þess vegna fylgir ESB samkeppnisstefnu: henni er stefnt gegn einokun og fákeppni. Og þess vegna vinnur ESB að því að samræma ýmsar reglur, t.d. í umhverfismálum og fjármálum. |
– Þorvaldur Gylfason prófessor í Fréttablaðinu í gær. |
Það er ekki fallega gert af Fréttablaðinu að hæðast að þeim sem hafa fyrir því að senda blaðinu bréf. Í gær mátti Þorvaldur Gylfason þola að með lofgrein hans um dýrðleg afrek Evrópuríkisins á sviði frjálsra viðskipta var birt andstyggileg mynd af kommisar á gráum jakkafötum silast inn um dyrnar hjá landbúnaðarstjóra Evrópu. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins (CAP) er stærsta hindrunin í heimsviðskiptum. Hvað eftir annað hafa samningaviðræður ríkja heims á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um frjálsari viðskipti runnið út í sandinn vegna ævintýralegra ríkisstyrkja til landbúnaðar innan ESB og himinhárra tollmúra sem sambandið hefur reist til að varna fátækum bændum þróunarlanda að koma framleiðslu sinni í verð.
Og svo er það kenning prófessorsins um að auka megi samkeppni með því að samræma og staðla alla hluti. Einn mikilvægasti liðurinn í samkeppni eru nýjungar, að gera hlutina á annan hátt en einhverjir reglugerðasmiðir telja best fyrir neytendur. Ef allt er niðurnjörvað í samræmdar tilskipanir og reglur er hætt við að minna verði um frumlegar nýjungar sem bæta kjör manna. Það má heldur ekki horfa framhjá því að keppni milli ríkja um bestu lögin getur verið af hinu góða. Þótt eurovision sé ágæt á sinn hátt eru fleiri lög sem gott er að menn beri saman milli ríkja. Styrkur Bandaríkjanna hefur ekki síst falist í því að lög og reglur einstakra ríkja eru afar misjöfn. Þau hafa því aðhald hvert af öðru. Þegar skattar og önnur opinber áþján eykst í einu ríki flytja menn annað.