Í
Henson skýtur á ríkisafskipti í nýjasta Viðskiptablaðinu. |
nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Halldór Einarsson – eða Henson eins og fyrirtæki hans nefnist og hann sjálfur er gjarnan kallaður. Eins og margir vita hefur Halldór um áratugaskeið rekið fataframleiðslu hér á landi og reyndar víðar og marga fjöruna sopið í þeim rekstri. Fataiðnaður á Íslandi hefur mjög látið undan síga á síðustu árum, rétt eins og fataiðnaður víða á Vesturlöndum, enda erfitt að keppa við iðnað í þeim löndum þar sem starfsfólk setur upp lægra verð fyrir vinnu sína. Halldór segir að fyrir rúmum fimmtán árum hafi hátt á þriðja þúsund manns starfað við fataframleiðslu á Íslandi en nú séu starfsmenn aðeins á þriðja hundraðið. Baráttan hjá Halldóri og öðrum í íslenskri fataframleiðslu er greinilega mjög hörð og því er ánægjulegra en ella að Halldór tekur fram í viðtalinu að hann vilji ekki heyra minnst á að fá opinbera styrki til starfsemi sinnar, því ríkisstyrki telji hann aldrei verða til góðs: „Að grípa inn í hluti eða styðja eina grein á kostnað annarrar – það hef ég aldrei getað sætt mig við. Ég vil að atvinnulífið sé frjálst og ég vil ekki að ríkið sé að vasast í atvinnurekstri. Ríkið á að skapa fyrirtækjum góð skilyrði og ég tel að það hafi tekist með mjög góðum árangri.“
Það er óhætt að taka undir það með Halldóri að ríkið á að forðast að styðja einstakar atvinnugreinar eða vasast í atvinnurekstri. Það besta sem ríkið getur gert fyrir atvinnulífið er að lækka skatta, hvort sem er á fyrirtæki eða einstaklinga, auka frelsi fólks og einfalda og fækka reglum. Það er langbest að fólk fái að ráða sínum málum sjálft, þar með talið því hvað það kaupir, af hverjum og á hvaða verði. Viðskipti eru því eðlilegri sem þau eru frjálsari og því fjær þeim sem ríkið er með reglur sínar, staðla og eftirlit. Því lægri sem skattar til ríkis og sveitarfélaga eru og því einfaldari og fábrotnari sem opinberar reglur eru, þeim mun meiru ræður hver og einn um það hvað hann kaupir, hvað hann veitir sér og hvernig hann lifir lífi sínu.