Framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands lýsir þeirri skoðun sinni í Morgunblaðinu að það verði að „stækka Laugardalsvöllinn til þess að hann geti staðið undir nafni sem þjóðarleikvangur Íslendinga“. Völlurinn tekur að sögn Morgunblaðsins „aðeins 7.034 manns í sæti“, en að áliti framkvæmdastjórans væri unnt að selja allt að 20.000 miða á knattspyrnuleik þar sem íslenska landsliðið mun mæta hinu þýska, ef fleiri sæti væru í boði. Framkvæmdastjóri Knattspyrnusambandsins nefndi ekki hversu stóran hann teldi völlinn þurfa að vera til að standa undir því að vera þjóðarleikvangur, en Morgunblaðið hefur einnig rætt við formann sambandsins og hann hefur töluna, og það sem meira er, hann er með skýrar kröfur um hvernig verkið skuli framkvæmt. Hann vill að völlurinn verði stækkaður í 14.000 sæti, það er að segja tvöfaldaður, og að verkinu ljúki innan þriggja ára. Viðræður munu hafa staðið yfir við ríki og Reykjavíkurborg um aðgang að skattfé, en niðurstaða er ekki fengin enn.
„Ekkert sem aðrir taka sér fyrir hendur er svo ómerkilegt eða merkilegt, svo óvenjulegt eða venjulegt, að skattgreiðendur verði ekki krafðir um stuðning við það.“ |
Þeir eru hógværir hjá Knattspyrnusambandinu, það vantar ekki. Í fyrrnefndu samtali Morgunblaðsins við formann sambandsins kemur meira að segja fram að menn innan sambandsins séu „alveg sáttir við að verkið verði í tveimur áföngum“, en þeir vilja þó leiða það og ráða tímasetningum, enda séu þeir með aðstoð erlendra sambanda að „setja talsverðar fjárhæðir í púkkið“. Þannig finnst þeim þetta eiga að vera. Þeir koma með eitthvað sem þeir kalla talsverðar fjárhæðir og ætlast til þess að skattgreiðendur greiði það sem upp á vantar. Og hver skyldi heildarfjárhæðin svo vera. Jú, Morgunblaðið spurði formanninn að því og fékk það svar að stækkun vallarins, ásamt byggingu knattspyrnuhúss og skrifstofa fyrir sambandið myndi kosta um einn milljarð króna.
Venju samkvæmt má líklega bæta um hálfum til einum milljarði við þessa áætluðu tölu, enda er venjan sú að þrýstihópar vanáætla kostnað þegar þeir leggja fram kröfur sínar og verkefni fara iðulega fram úr áætlunum. Ekki hefur komið fram hve mikla fjármuni Knattspyrnusambandið ætlar að fá erlendu samböndin til að leggja í púkkið, en óhætt er að reikna með að kröfugerðin á hendur skattgreiðendum sé í raun nálægt einum milljarði króna. En hvernig skyldi nú rökstutt að leggja skuli út í svo miklar framkvæmdir? Jú, Íslendingar eru víst að verða langt á eftir öðrum þjóðum og sitja „aftarlega á merinni hvað þjóðarleikvanginn snertir“. Því til staðfestingar nefnir formaðurinn – af handahófi auðvitað – að Færeyingar hafi svo stóran völl að það myndi jafngilda því að Íslendingar væru með 35.000 – 40.000 manna völl. Formaður Knattspyrnusambandsins tók af einhverjum ástæðum ekki dæmi af því að til að jafnast á við 14.000 manna völl hjá okkur þyrftu Þjóðverjar, sem eru margir töluverðir áhugamenn um knattspyrnu, að hafa tæplega fjögurra milljóna manna knattspyrnuvöll og Frakkar og Ítalir, sem ekki eru allir alveg áhugalausir heldur, þyrftu að hafa tæplega þriggja milljóna manna knattspyrnuvöll hvor þjóð. Það er því ljóst að Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem er „aftarlega á merinni hvað þjóðarleikvanginn snertir“, líklega sitja flestar aðrar þjóðir en Færeyingar enn aftar á þessari þjóðarleikvangsmeri en Íslendingar. Ef Íslendingar ættu að sitja á sama stað á merinni og aðrar þjóðir Evrópu, væri þjóðarleikvangur okkar einungis með fáein hundruð sæta.
En lítum aðeins á kröfugerðina út frá öðru sjónarmiði. Formaður Knattspyrnusambandsins segir fólk hafa mikinn áhuga á knattspyrnu og það er ef marka má samtalið í Morgunblaðinu ástæðan fyrir því að hann telur eðlilegt að neyða skattgreiðendur til að greiða stórfé til að bæta við 7.000 sætum í Laugardalinn. En er þetta ekki eitthvað öfugsnúið? Hvers vegna þarf að skattleggja fólk sérstaklega til að greiða fyrir það sem hvort eð er nýtur gríðarlegra vinsælda? Hingað til hefur ýmis konar menningarstarfsemi til að mynda verið studd vegna þess að hún sé mikilvæg en njóti einmitt ekki mikilla almennra vinsælda og geti því ekki staðið undir sér án aðstoðar hins opinbera. Þar byggist stuðningurinn á því að áhuga fjöldans skorti. Nú bregður hins vegar svo við að gríðarlegur áhugi fjöldans á að réttlæta opinberan stuðning! Til að fá botn í slíka röksemdafærslu hljóta menn að fallast á að hið opinbera – það er að segja skattgreiðendur – eigi að styrkja allt sem aðrir taka sér fyrir hendur, hvort sem það er vinsælt eða óvinsælt. Ekkert sem aðrir taka sér fyrir hendur er svo ómerkilegt eða merkilegt, svo óvenjulegt eða venjulegt, að skattgreiðendur verði ekki krafðir um stuðning við það. Og þetta er raunar það sem hefur gerst eins og sjá má þegar blaðað er í gegnum fjárlagafrumvarpið eða umsvif og afkoma ríkis og sveitarfélaga eru skoðuð.