Laugardagur 23. ágúst 2003

235. tbl. 7. árg.

Í DV hafa í sumar birst auglýsingar með hvatningu og ráðleggingum til reykingafólks um að láta af þeim sið sínum. Í auglýsingu gærdagsins fjallar hjúkrunarkona ein stuttlega um sögu skipulegrar tóbaksandstöðu á Íslandi og telur hana ekki langa; hafa hafist um árið 1950. Annað mál sé hins vegar að margir hafi varað við tóbaki og megi þar sérstaklega nefna sr. Hallgrím Pétursson, en í Tóbaksvísum hans komi fram að hann hafi verið „frumkvöðull í að gera sér grein fyrir skaðsemi tóbaksnotkunar.“ Að loknum þessum orðum eru birtir hlutar úr umræddum Tóbaksvísum og innan sviga er skýringalaust tekið fram að um „úrdrátt“ sé að ræða. Nánar tiltekið eru eftirtaldar línur valdar úr Tóbaksvísum

Tóbak nef neyðir
náttúru eyðir…
út hrákann breiðir
minnisafl meiðir…
Tóbak róm ræmir
remmu framkvæmir…
háls með hósta væmir
heilann fordæmir
og andlit afskræmir.

Ekki falleg lýsing, satt er það. En það er fleira sem er satt. Í auglýsingunni er eins og áður segir tekið fram að einungis sé birtur „úrdráttur“ úr Tóbaksvísum. Það er alveg rétt en skemmtilegt hefði nú verið að þær fengju að koma allar. Þá hefði til dæmis þetta ágæta erindi fylgt með sem dæmi um hörku sr. Hallgríms Péturssonar í tóbaksvörnunum:

Tóbakið hreint,
fæ gjörla ég greint,
gjörir höfðinu létta,
skerpir vel sýn,
svefnbót er fín,
sorg hugarins dvín.
Sannprófað hef ég þetta.