Nú eru vinstri menn auðvitað mjög andsnúnir því að aðrir en hið opinbera reki skóla. Rétt eins og þeir lögðust á eitt um að koma í veg fyrir að aðrir en ríkið fengi að útvarpa. Rétt eins og þeir ríghéldu í ríkisbankana. Þeir sem muna eftir þeirri baráttu muna kannski að þegar um allt þraut beittu vinstri menn alls kyns tæknilegu þrugli og málalengingum gegn einkarekstri.
Haft var eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur þingmanni Samfylkingarinnar í DV á dögunum að nýr einkaskóli í Garðabæ væri ekki einkaskóli vegna þess að bærinn greiddi tiltekna upphæð með hverjum nemanda. Menn eru orðnir aðþrengdir þegar þeirra eina leið til að berja á einkafyrirtækjum er að halda því fram að þeir séu alls ekki einkafyrirtæki vegna þess að þau taka að sér verkefni, kennslu í þessu tilviki, sem bærinn ætlar hvort eð er að greiða fyrir.
Ætli hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taki ekki að sér að eyða svona fjórum krónum af hverjum tíu sem verða til hér á landi. Það eru því ansi mörg fyrirtæki sem eiga mikil viðskipti við hið opinbera og vafalaust leitun að fyrirtæki sem gerir það ekki. Sum skipta nær eingöngu við sveitarfélög og opinberar stofnanir. Eru fyrirtæki sem selja hinu opinbera þjónustu sína ekki einkafyrirtæki?
Af sama meiði sprettur sú einkennilega umræða að menn geti ekki verið þeirrar skoðunar að stilla eigi ríkisvaldinu í hóf ef þeir vinna sjálfir fyrir ríkið eða nýta sér þjónustu þess. Samkvæmt þessari kenningu ættu frjálshyggjumenn að fara á milli bæja með þyrlu til að slíta ekki götum og gangstéttum hins opinbera. Lengi vel hefðu þeir þurft að neita sér um að hlusta á útvarp og sjónvarp og háskólanám hefði bara verið fyrir eldheita sósíalista. Sósíalistar hefðu á móti væntanlega þurft að neita sér um helstu nauðþurftir úr nýlenduvöruverslunum sem lengi hafa verið í einkarekstri.