Fimmtudagur 21. ágúst 2003

233. tbl. 7. árg.

Þ

Þverun Breiðafjarðar kemst fljótlega á dagskrá, enda mikilvægt að loka hringnum.

að hlaut að koma að því, þverun Mjóafjarðar er komin á dagskrá. Fyrir skattgreiðendur er það eina jákvæða við þá frétt að þetta skuli vera Mjóifjörður en ekki til dæmis Breiðafjörður, þótt enginn skyldi hrökkva við þegar þverun hans ber á góma eftir nokkur ár. Það er þegar búið að þvera Gilsfjörðinn og verið er að vinna að þverun Kolgrafarfjarðar, svo það er ekki nema eðlilegt framhald að hringnum um Breiðafjörð verði á endanum lokað með þverun fjarðarins sjálfs. En þverun Mjóafjarðar verður sem sagt líklega eitt af næstu verkefnum ríkisins í vegamálum og er þar ekki um síðra verkefni að ræða en þverun Kolgrafarfjarðarins, sem fyrir um 700 milljónir króna styttir veginn á norðanverðu Snæfellsnesi um heila 6,2 kílómetra, eða svona á að giska 5 mínútur í akstri.

Fyrir þá sem vita það ekki er Mjóifjörður innarlega í Ísafjarðardjúpi og er hann einn af þeim fjörðum sem menn þræða nú vilji þeir aka Ísafjarðardjúp til eða frá Ísafirði eða nálægum stöðum. Þverunin styttir leiðina um Ísafjarðardjúp öllu meira en þverun Kolgrafarfjarðar styttir veginn á norðanverðu Snæfellsnesi, en þar með er ekki sagt að brúin og vegaframkvæmdirnar séu réttlætanlegar. Það er eins með þessa framkvæmd og ýmsar aðrar vegaframkvæmdir að þær borga sig ekki nema ef til vill þegar þær hafa verið settar inn í forritið sem reiknar út „þjóðhagslega hagkvæmni“, sem þýðir yfirleitt sóun á skattfé á mannamáli. Til að finna út hvort vegaframkvæmdir eru hagkvæmar eða ekki er hægt að láta notendur greiða fyrir notkun mannvirkjanna, en með þeirri aðferð kæmi fljótt í ljós að býsna mörg verkefni í vegamálum eru alls ekki hagkvæm, jafnvel þótt „þjóðhagsleg hagkvæmni“ þeirra sé ótvíræð og jafnvel gríðarleg.

Samgönguráðuneytið gaf á dögunum út ritið Samgöngur í tölum, þar sem birt eru línu- og súlurit yfir allt milli himins og jarðar. Þar er meðal annars athyglisvert súlurit sem ber nafnið „Fjárveitingar í þúsundum kr. á hvern kílómetra í kjördæmunum 2002“ og þar sést að kostnaðurinn er langmestur í Reykjavík og á Reykjanesi, en yfirstjórn og tilraunir teljast raunar til þessara svæða eins og getið er um annars staðar í ritinu. Það sem þó er athyglisverðara er að hvergi er birt súlurit sem sýnir notkun veganna eða kostnað við ekinn kílómetra. Engin tilraun er gerð til að sýna lesendum að sumir vegir eru sáralítið notaðir en aðrir mikið, sem þó væru mikilvægar upplýsingar fyrir þá sem verða að greiða fyrir vegina, hvort sem þeir aka eftir þeim eða ekki.