Helgarsprokið 3. ágúst 2003

215. tbl. 7. árg.
Föstudagurinn í ár er ennþá stærri vegna þess að hann er fyrsti dagur mánaðarins að auki. Þetta dreifist oft meira eftir því hvenær mánaðamótin eru. Í fyrra bar 1. ágúst upp á fimmtudag og þann dag var einnig mikið verslað. Mánaðamótin skipta greinilega miklu og ekki síst þessi þegar fólk fær endurgreitt.
  – deildarstjóri rekstrardeilda vínbúða ÁTVR í viðtali við Morgunblaðið í gær um örtröðina í verslunum ÁTVR á föstudaginn.

J

Rétti staðurinn þegar þú færð endurgreitt.

á það er þetta sem gerist þegar fólk „fær endurgreitt“. Það hleypur beint í vínbúðina, þar sem er að finna vöruna með hæstu skattana, og skilar þar með því sem það fékk endurgreitt. Því líklega á deildarstjórinn í rekstrardeild vínbúða ÁTVR við að fólk hafi fengið „endurgreitt“ frá ríkissjóði um þessi mánaðamót. Nema hann sé að tala um „orlofsávísanir“ verkalýðsfélaganna en verkalýðsfélögin taka fullkomlega fullgilt fé af launum manna og greiða það svo út með orlofsávísunum sem gilda aðeins á nokkrum stöðum – og einn af þeim er ekki vínbúðin.

Gefum okkur því að hér sé um endurgreiðslu frá ríkinu að ræða. En hvers vegna í veröldinni eru sumir að fá „endurgreitt“ 1. ágúst ár hvert? Fyrir því geta verið tvær ástæður. Annars vegar geta menn raunverulega verið að fá endurgreitt vegna þess að af þeim voru raunverulega teknir of miklir skattar á síðasta ári (auðvitað eru alltaf teknir of miklir skattar af mönnum en hér er átt við að of mikið var tekið miðað við núverandi reglur um að hinn almenni skattgreiðandi sé aðeins þjóðnýttur hálft árið). Hins vegar fá menn „endurgreitt“ vegna þess að þeir hafa uppfyllt ýmis skilyrði hins opinbera um atferli, framkomu og hegðun. Einn góðan veðurdag verður kannski tekið mið af hlutfalli faðms á móti hæð (apastuðullinn), fjölda eldri borgara á heimili, hvort viðkomandi stundar einkadansinn sem mun vera hættulegasta starf í heimi eða hafi tekið nægjanlega há lán til að kaupa stórt fellihýsi. Þangað til er miðað við fjölda barna á heimili, hvort menn stunda sjóinn eða hafi skuldsett sig nægilega rækilega vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Með réttri hegðun hvað þessi atriði varðar geta menn sem jafnvel hafa engan tekjuskatt greitt á árinu fengið „endurgreitt“.

Menn fá nefnilega „endurgreitt“ ef börn á vissum aldri eru á heimili viðkomandi. Því lægri tekjur sem menn hafa haft á árinu og þar með því minna sem menn greitt í tekjuskatt á árinu því líklegra er að menn fái veglega „endurgreiðslu“. Svo er það „endurgreiðslan“ fyrir skuldsetningu. Hér gildir það sama og varðandi fjölskyldustærðina. Því minni skatt sem menn greiða þeim mun veglegri getur endurgreiðslan orðið. Því til viðbótar geta menn unnið sér inn prik með því að skulda nógu fjári mikið. Því hærri skuldum sem hlaðið er á íbúðarhúsnæði því flottari endurgreiðsla. Ekki síst ef engir skattar eru hvort eð er greiddir. Að síðustu geta menn svo stundað sjóinn og fengið sérstaka endurgreiðslu þess vegna. Þessi endurgreiðslumöguleiki er þó þeim annmörkum háður að menn verða í raun að greiða einhverja skatta til að geta fengið þá endurgreidda.

Auðvitað er ekkert af þessu „endurgreiðsla“ á sköttum heldur hreinn og klár styrkur frá þeim sem ekkert fá endurgreitt. Ríkið er fjandakornið ekki að endurgreiða eitt eða neitt heldur að taka úr einum vasa og færa í annan. Tekið er úr vasa mannsins sem býr í litlu en skuldlausu húsnæði og fært í vasa þess sem býr í stóru skuldsettu húsi. Tekið er úr vasa þeirra sem eiga engin eða uppkomin börn og sett í vasa þeirra sem eiga börn á vissum aldri. Tekið er úr vasa leigubílstjórans og fært í vasa skipstjórans.

Einhvern tímann var það reiknað út að ef menn hættu öllum þessum millifærslum og felldu niður persónuafslátt mætti lækka samanlagðan tekjuskatt og útsvar niður í um 15%. Í dag greiða menn allt að 45% tekjuskatt og útsvar af hverri viðbótarkrónu sem þeir afla. Því til viðbótar er þeim refsað með minni „endurgreiðslu“ þ.e. minni barna- og vaxtabótum. Jaðaráhrif þessa kerfið geta því hæglega farið í 60%. Geta menn ímyndað sér hvaða áhrif það hefði á framtakssemi manna ef þessu flókna millifærslu- og háskattkerfi væri skipt út fyrir einfaldan 15% skatt?