Í góða veðrinu á dögunum gátu vegfarendur og kaffihúsagestir í miðbænum fylgst með áhugaverðu starfi Götuleikhússins og fleiri leikhópa ungs fólks. Í síðustu viku fór að rigna, leiklistin átti undir högg að sækja utandyra og færðist að hluta til inn fyrir dyr þeirra húsa sem standa við Austurvöll. Hlutverkaskipting breyttist líka þannig að aðalhlutverkin voru ekki lengur skipuð ungum og efnilegum leikurum eða leiklistarnemum, heldur færðust í hendur ýmissa þjálfaðra og sviðsreyndra atvinnumanna úr hópi stjórnarandstöðunnar á Alþingi.
Alþingi er sem kunnugt er ekki að störfum um þessar mundir og verður formlega ekki kallað saman til funda fyrr en í byrjun október. Möguleikar stjórnarandstöðunnar til hefðbundinna leiksýninga í formi utandagskrárumræðna eða fyrirspurna til ráðherra er því ekki fyrir hendi sem stendur, og hefur því verið gripið til þess ráðs að óska eftir fundum í hverri fastanefnd þingsins á fætur annarri. Þannig fundir eru auðvitað heldur tilþrifalitlar leiksýningar í samanburði við fundi Alþingis sjálfs, en þjóna samt þeim tilgangi annars vegar að láta líta út fyrir að þingmenn séu að gera eitthvað í málunum og hins vegar gefa fundirnir sjálfir tilefni til talsverðar fréttaumfjöllunar nú þegar gúrkutímabil fjölmiðlanna er í algleymingi, jafnvel þótt ekkert sérstakt sé að frétta af fundunum. Fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar er vel þess virði að rjúfa sumarleyfið til þess að geta fengið myndir af sér í sjónvarpsfréttum þar sem þeir ganga þungbrýndir og alvörugefnir inn á fundi eða út af fundum til þess að ræða mikilvæg mál, jafnvel þótt ekkert sem gerist inn á þessum fundum breyti neinu um framgang þeirra mála sem til umræðu eru. Þeir heppnu geta jafnvel fengið viðtöl við sig þar sem þeir geta lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála, krafist aðgerða og svo framvegis. Þá er tilganginum náð.
Oft er engin sérstök ástæða til amast við þessum smáleiksýningum þingmanna. Þeir eiga rétt á að fá fundi í nefndunum ef nægilega margir óska, stundum kunna skoðanaskipti þeirra að vera gagnleg þó ekki nema væri fyrir þá sjálfa, og að sjálfsögðu mega þingmenn jafnan lýsa afstöðu sinni, sagst hafa áhyggjur af einhverjum málum eða að einhverra aðgerða sé þörf. Það sem getur hins vegar verið óheppilegt í sambandi við þetta, er að einstakir þingmenn veki ranghugmyndir hjá almenningi um að þeir geti jafnan leyst úr hverjum vanda, að undir verksvið þeirra falli mál sem ekki eiga þar heima eða að þeir geti gripið til aðgerða, sem ekki eru á þeirra valdi.
Dæmi um þetta síðastnefnda er olíumálið svokallaða. Þar hafa ýmsir þingmenn stjórnarandstöðunnar gefið hvað eftir annað í skyn, að framgangur og úrslit málsins réðist með einhverjum hætti af því hvort og hvernig einstakar nefndir þingsins nálguðust málið. Fyrst var engu líkara en allt snerist um það hvort efnahags- og viðskiptanefnd kæmi saman og hvort hún ætti að kalla á sinn fund þennan eða hinn embættismanninn til þess að fá upplýsingar um stöðu mála – sem þessir embættismenn hafa reyndar verið ófeimnir við að greina frá í fjölmiðlum. Og síðan í kjölfarið er nú gefið í skyn að ákæruvaldið í landinu og lögregluyfirvöld geti ekki rækt hlutverk sitt nema að undangengnum fundi í allsherjarnefnd þingsins.
Allt er þetta auðvitað hið mesta sjónarspil. Alþingi eða fastanefndir þingsins rannsaka ekki mál og stjórna ekki rannsókn einstakra mála. Alþingi kveður ekki heldur upp úrskurði eða dóma um það hvort lögbrot hafa verið framin eða ekki. Alþingi ákveður ekki viðurlög ef brot sannast að undangenginni rannsókn. Hlutverk Alþingis – og það er ekki lítið hlutverk – er að setja lög og ákveða þannig þær leikreglur sem landsmönnum öllum ber að fara eftir. Á ákveðnum sviðum hefur Alþingi með lögum falið ákveðnum opinberum stofnunum vald til eftirlits með því að lögum sé framfylgt, til að rannsaka meint lögbrot og kveða upp úrskurði á grundvelli laganna. Samkeppnisstofnun er eftirlitsstofnun af því tagi. Hún lýtur ekki boðvaldi Alþingis og á ekki að gera það. Sama á við um embætti ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra. Þeim er falið ákveðið vald með lögum frá Alþingi, en þessi embætti lúta heldur ekki boðvaldi Alþingis og eiga ekki að gera það. Stjórnskipunin gerir ekki ráð fyrir að þessi embætti eða stofnanir taki við fyrirmælum frá stjórnmálamönnum um að hefja rannsókn, hraða rannsókn eða eftir atvikum að hægja á rannsókn. Löggjöfin miðar þvert á móti að því að koma í veg fyrir slík inngrip stjórnmálamanna, hvort sem þeir sitja í embættum ráðherra eða í einstökum nefndum þingsins. Það er einmitt forsendan fyrir því að þessar stofnanir geti rækt hlutverk sitt og njóti trúverðugleika, að þær starfi óháð afskiptum stjórnmálamanna – og að öllum sé ljóst að þær starfi óháð afskiptum stjórnmálamanna. Þetta á við í öllum tilvikum, hver sem í hlut á, og meira að segja þótt verið sé að fjalla um óvinsæl olíufélög, sem flestir virðast gefa sér að hafi brotið gegn samkeppnislögunum.