Eins og Vefþjóðviljinn fjallaði um fyrir nokkru, hefur verið stofnaður sérstakur „gagnabanki“ sem ætlaður er til að auka hlut kvenna í landinu og þar með væntanlega að minnka hlut karlmanna að sama skapi. Bankinn er sagður hugsaður til þess „að gera þekkingu og hæfni kvenna sýnilega“, enda verður aðeins öðrum helmingi landsmanna gefinn kostur á að skrá sig og verk sín í bankanum. Á það að verða til þess að fremur verði leitað til kvenna – og þar með minna til karlmanna – þegar einhver er á höttunum eftir til dæmis viðmælanda í fjölmiðil eða fræðimanni til að vinna verk.
Nú er auðvitað ekkert við því að segja þó einhverjir haldi skrá um sig og sín verk og geri þá skrá opinbera til að kynna sig. Jafnvel þó sú hugmynd, að horfa á kynferði fólks þegar valinn er viðmælandi eða fræðimaður, sé undarleg, þá eiga einkaaðilar að sjálfsögðu að vera frjálsir að slíku vali sínu eins og öðru. En við þennan kvennabanka er engu að síður eitt og annað að athuga, þó vitaskuld eigi bankastjórarnir að vera frjálsir að þessari starfsemi og það eins þó með henni sé hálfri þjóðinni „mismunað“. Hins vegar er annað atriði sem má nefna. Það eru „styrktaraðilarnir“. Það eru hvorki fleiri né færri en sjö ráðuneyti, þrjár nefndir sveitarfélaga, tvær opinberar stofnanir, ein heildarsamtök verkalýðsfélaga og svo eitt einkafyrirtæki, Íslandsbanki. Það er ekkert við því að segja að Íslandsbanki styrki þetta verkefni ef hann sér ástæðu til. En það eru allir hinir sem eru óeðlilegir.
Það er ekki eðlilegt að nota opinbert fé til að reka umboðsskrifstofu sem opin er hálfri þjóðinni en beinlínis lokuð hinum helmingnum. Hver og einn borgari má auðvitað hafa sína skoðun á því hvort líta eigi fremur til kynferðis fólks en hvers það hefur fram að færa þegar valinn er sérfræðingur til starfa eða álitgjafar. Einkaaðilar mega alveg mismuna hver öðrum. En það er ekki réttlætanlegt að nota opinbert fé til að ýta undir annan helming landsmanna með þeim hætti sem stefnt er að með hinum undarlega kvennagagnabanka. Það er ekki réttlætanlegt að nota skattfé hins almenna borgara til að reka starfsemi sem svo mjög er miðuð að því einu að minnka starfsmöguleika helmings landsmanna. „Kvennagagnabankinn“ er skýrt dæmi um starfsemi sem hið opinbera má ekki koma nálægt.