Þeir sem halda því fram að gjafafé frá útlöndum sé nauðsynlegt, til þess að framfarir geti orðið með fátækum þjóðum, ruglast á orsök og afleiðingu. Það eru framfarir í atvinnumálum, sem geta af sér eignir og peninga. Það eru ekki eignir og peningar, sem geta af sér framfarir í atvinnumálum. |
– Peter Bauer lávarður á fundi Félags frjálshyggjumanna í Reykjavík 1984 |
Ívikunni fengu Íslendingar einu sinni sem oftar á baukinn fyrir að láta ekki nógu mikið fé af hendi rakna til þróunaraðstoðar. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett hinum ríkari þjóðum heims markmið í þessum efnum og Íslendingar munu eiga langt í land, eru kannski vanþróuð þjóð þegar kemur að þróunaraðstoð. Nú er í sjálfu sér engin ástæða til að segja bara já og amen við öllu sem kemur frá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar aðrar alþjóðastofnanir á borð við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann hafa verið á kafi í reddingum í Afríku um áratuga skeið. Ef Suður-Afríka og Botsvana eru undanskilin eru flest lönd Afríku hins vegar fátækari en þau voru fyrir 30 til 40 árum. Kannski væri ástandið enn verra ef engin „þróunaraðstoð“ hefði borist. En það er til annað sjónarmið. Kannski er góð ástæða fyrir því að íslenska ríkið eigi að fara varlega í að leggja fé í þróunaraðstoð.
Íslendingar þekkja það af eigin skinni hvernig stjórnmála- og embættismönnum hefur gengið að „stuðla að atvinnuuppbyggingu“ vítt og breitt um landið fyrir fé skattborgaranna. Flest slík verkefni hafa endað með ósköpum. Arðbær atvinnurekstur hefur verið skattlagður til að fjármagna „atvinnuuppbyggingu“ á vegum kerfiskarlanna. Fé hefur ekki aðeins verið flutt úr arðbærum rekstri í vonlausan heldur hefur þessi umfangsmikla „atvinnusköpun“ hins opinbera án efa kæft viðleitni einstaklinga og fyrirtækja til að gera hlutina upp á eigin spýtur. Sóunin er ekki aðeins í því fé sem glatast heldur einnig í glötuðum tækifærum. Íslendingar eru ekki einir um að verja skattfé til „atvinnusköpunar“. Víðast hvar telja einhverjir pólitíkusar sig prýðilega frumkvöðla á annarra kostnað.
Hvernig halda menn að vestrænum stjórnmála- og embættismönnum gangi svo að útdeila fé til þróunaraðstoðar í Afríku á meðan þeim tekst ekki betur upp á heimavelli? Oft gerir slík þróunaraðstoð ekki annað en lengja valdatíð einræðisherra sem eiga mikla sök á því hvernig komið er fyrir efnahag viðkomandi lands. Slík lækning er oft á tíðum verri en sjálfur sjúkdómurinn. Það sem fátækari þjóðir heimsins þurfa er tækifæri en ekki ölmusa. Þær þurfa tækifæri til að framleiða eigin mat í stað þess að fá senda afganga og offramleiðslu frá Vesturlöndum. Vesturlönd þurfa að opna markaði sína fyrir framleiðslu þessara þjóða svo þær hafi efni á tækninýjungum til að bæta framleiðslu sína.