ESB verður ekki sambandsríki |
– fyrirsögn fréttar í Morgunblaðinu 27. maí 2003 |
Ílok maí voru kynnt drög að stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins, en sérstök ráðstefna hafði unnið drögin undir stjórn Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands. Þó sumir fjölmiðlar, hér og hvar í heiminum, hafi við mat á stjórnarskrárdrögunum stuðst við það eitt hvort þeir gátu fundið orðið „federal“ í þeim, þá þótti öðrum augljóst af efni draganna að með þeim yrði því slegið föstu að Evrópusambandið breyttist úr ríkjasambandi í sambandsríki. Vefþjóðviljinn fjallaði meðal annars um drögin hinn 29. maí og sagði þar meðal annars að það sem liti út eins og sambandsríki, hljómaði eins og sambandsríki og hegðaði sér eins og sambandsríki, það væri sambandsríki hvað sem það héti. Allt nema nafnið benti til þess að nú yrði Evrópusambandið endanlega að sambandsríki.
En ef menn láta sér nægja að leita að orðinu „federal“ þá geta þeir auðvitað komist að annarri niðurstöðu. Þeir sem fara eftir því einu hvernig lönd kynna sig, þeir hafa þá vafalaust allt til loka verið sannfærðir um það að ógnarríki Austur-Evrópu hafi verið sannkölluð alþýðulýðveldi, og svo framvegis. En flestir átta sig væntanlega á því að það er raunveruleikinn en ekki kynningin sem máli skiptir. Að minnsta kosti gerir Valéry Giscard d’Estaing, aðalhöfundur væntanlegrar stjórnarskrár Evrópusambandsins það. Í viðtali við The Wall Street Journal síðast liðinn mánudag er hann spurður um þýðingu orðsins „federal“, en fjarvera þess úr stjórnarskrárdögunum hefur leitt hina og þessa fjölmiðlamenn til mikilla ályktana. Franski forsetinn fyrrverandi segist í viðtalinu hafa vel gert sér grein fyrir því að áróðurslega hefði ekki verið snjallt að láta þetta orð sjást í drögunum. Og bætir við: „So I rewrote my text, replacing intentionally the word „federal“ with the word „communautaire“ which means exactly the same thing.“
Já, sem þýðir nákvæmlega það sama. Staðreyndin er sú að Evrópusambandið stefnir á miklum hraða í að verða að einu sambandsríki. Menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvort Ísland eigi að renna inn í þetta ríki eða halda áfram að vera fullvalda ríki. Það er alveg heiðarlegt umræðuefni. En það sem er ekki boðlegt er að halda áfram þeim söng að innganga í Evrópusambandið geti verið liður í því að „treysta fullveldið“. Innan Evrópusambandsins verða engin fullvalda ríki, Ísland allra síst. Þeir sem vilja að Ísland verði til sem fullvalda ríki, þeir geta ekki stutt inngöngu þess í Evrópusambandið, og þannig er það bara.