Laugardagur 5. júlí 2003

186. tbl. 7. árg.
„Nei, en það eru allir jafnir fyrir lögunum.“
 – Deildarstjóri innheimtudeildar Ríkisútvarpsins í Fréttablaðinu í gær.

Næturvörður nokkur í austurborginni segir þessa dagana farir sínar ekki sléttar eftir viðskipti við innheimtudeild Ríkisútvarpsins að undanförnu. Er hann ekki fyrstur til þess og líklega ekki sá síðasti. Maðurinn segist ekki vera með viðtæki á heimili sínu en Ríkisútvarpið telur sig vita betur og sendir honum rukkanir fyrir afnotagjöldum. Deildarstjóri innheimtudeildar Ríkisútvarpsins var því sem von er spurður að því í Fréttablaðinu í gær hvort Ríkisútvarpið hefði leynilögreglu á sínum snærum. Af öllum þeim svörum í heiminum sem til eru við spurningu af þessu tagi valdi hann endilega „Nei, en það eru allir jafnir fyrir lögunum.“

Þetta er merkilegt svar. „Nei“ hefði til dæmis alveg dugað þótt það hefði ekki verið alveg sannleikanum samkvæmt því Ríkisútvarpið gerir út menn sem guða á glugga landsmenn og leggja við hlustir í þeim tilgangi að finna „óskráð“ viðtæki. Er það mikil virðingarstaða í samfélaginu að sinna þeim verkum, ekki síður en að hafa yfirumsjón með þeim. Enda er skýrt kveðið á um það í lögum að eigendur viðtækja skuli greiða afnotagjöld af þeim undanbragðalaust. Það er alveg skýrt, jafnvel skýrara en útsending Ríkisútvarpsins á Raufarhöfn. Alveg eins og deildarstjórinn segir þá eru „allir jafnir fyrir lögunum“. Þannig hljóða lögin að minnsta kosti. Venjulegur lesandi getur ekki fengið annað út við lestur þeirra en að allir séu jafnir fyrir þeim.

En þó ekki alveg allir. Ekki frekar en fyrri daginn. Starfsmenn Ríkisútvarpsins greiða ekki afnotagjöldin. Jafnvel deildarstjórinn sjálfur fær engan innheimtuseðil þótt lögin kveði skýrt á um að hann skuli greiða afnotagjöldin ef hann er eigandi viðtækis sem nýta má til móttöku sendinga Ríkisútvarpsins. Því liggur beint við að hann hamri á því í fjölmiðlum að allir séu jafnir fyrir lögunum.