„Ocian in view! O! the joy“ |
– William Clark á strönd Oregon 7. nóvember 1805. |
Hinn 4. júlí árið 1803 lýsti Thomas Jefferson forseti því yfir á síðum National Intelligencer að Bandaríkin hefðu keypt „Louisiana“ af Napóleon Bonaparte. Hér var þó ekki aðeins um að ræða New Orleans og nágrenni heldur að stórum hluta til ríkin sem síðar urðu til undir nöfnunum Louisiana, Arkansas, Missouri, Iowa, Norður-Dakota, Texas, Suður-Dakota, Nýja Mexico, Nebraska, Kansas, Wyoming, Minnesota, Oklahoma, Colorado og Montana. Ýmsir hafa talið þetta bestu landakaup í sögunni enda verðið aðeins 4 cent á ekru. Bandaríkin sem voru aðeins 27 ára gamalt ríki tvöfölduðu með kaupunum landrými sitt og voru orðin eitt stærsta land í heimi.
En fleira merkilegt gerðist þennan dag fyrir 200 árum því Jefferson skrifaði aðstoðarmanni sínum Meriwether Lewis einnig bréf með heimild til að nýta hvaða opinbera stofnun Bandaríkjanna hvenær og hvar sem væri til að fara í könnunarleiðangur til Kyrrahafsins. Bréfið er talið einhver opnasta heimild sem forseti Bandaríkjanna hefur gefið nokkrum manni til að valsa um á vegum ríkisins. Lewis lagði af stað degi síðar og vinur hans William Clark slóst með í för í Clarksville í Indiana í október. Leiðangur Lewis og Clark var hafinn. Markmið hans var að kanna hugsanlegar vatnaleiðir til Kyrrahafsins frá austurhluta Bandaríkjanna ásamt því að kanna hvað Jefferson hefði eiginlega keypt af Napóleon.
Með kaupunum og leiðangri Lewis og Clark var lagður grundvöllur að Bandaríkjunum eins og við þekkjum þau í dag. Því var auðvitað fagnað með viðeigandi hætti árið 1976 þegar 200 ár voru liðin frá því upphaflegu ríkin 13 lýstu yfir sjálfstæði en ekki síður ástæða til að fagna í dag. Sumir segja jafnvel að það sé full ástæða til að fagna til ársins 2006 en Lewis og Clark voru þrjú ár að kanna vesturhluta Bandaríkjanna.