Í
umræðum um sjávarútvegsmál kemur oft fram að það er ríkt í mörgum Íslendingum að hafa samúð með trillukarlinum. Hann hefur sinn sjarma, úfni karlinn með pípuna, þetta sambland af Gylfa Ægissyni og Páli Halldórssyni, sem kemur sér upp litlum báti og rær út eldsnemma morguns og veiðir fram á kvöld án þess að eiga neitt undir nokkrum manni. Fáir vilja að „trillukarlinn deyi út“. Þeir eru hins vegar til sem telja að svo mikið sé dekrað við smábátamenn að aðrir séu nánast komnir að fótum fram. Það má ekki veiða nema svo og svo mikið ár hvert, og auknar heimildir eins þýða að aðrir hafa því minna úr að spila. Útvegsmenn, þessir sem gera út stærri báta en hefðbundna smábáta, hafa talsverðar áhyggjur af því sem þeir kalla „smábátadekur“ eins og kemur fram í nýlegu viðtali Útvegsins, fréttablaðs Landsambands íslenskra útvegsmanna, við Stefán Einarsson, sem ásamt bræðrum sínum rekur útgerðarfyrirtækið Aðalbjörgu, sem er elsta útgerðarfyrirtæki höfuðborgarinnar. Stefán segir að með ýmsum reglugerðum sé mjög þrengt að netabátunum eins og fyrirtæki hans gerir út. Á öðrum sé hins vegar tekið með silkihönskum:
Á sama tíma og það er verið að ganga af okkur dauðum þá er smábátunum leyft að stækka upp í 15 tonn. Það er með ólíkindum hvað þeim leyfist. Það þarf ekki að lögskrá á smábát í dag ef hann er undir 20 tonnum. Það veit enginn hverjir eru um borð í þessum bátum og áhöfnin er ekki í stéttarfélögum. Ég held að þeir greiði ekki í orlofs- eða sjúkrasjóði og lífeyrissjóðsgjöld eru sennilega greidd eftir minni. Ef ég hins vegar skil veikan vélstjóra eftir heima svo ég komist á sjó er ég kallaður fyrir dómara. Smábátarnir sem eru með helmingi stærri vél en ég um borð, þeir bruna framúr mér, keyra á allt að 30 mílum, en þar er enginn vélstjóri um borð. Þetta smábátadekur er algert rugl. |
Það kom maður til mín um daginn til að taka út vinnsluleyfið um borð. Þeir eru nú farnir að koma tvisvar á ári í stað einu sinni áður og rukka mig um 18 þúsund krónur í hvert skipti. Þegar hann var búinn að skoða allt hjá mér, þá benti ég honum á smábát hinum megin í höfninni og spurði hvort hann væri með vinnsluleyfi. Hann svaraði því játandi, en hvernig stendur á því? Það er ekki einu sinni vaskur eða klósett um borð í þessum bátum. Menn geta ekki einu sinni þrifið sig um borð og þessir bátar eru í matvælaframleiðslu. Hvernig má þetta vera? |
Eins og flestum mun kunnugt er nú stefnt að því að taka að nýju upp svo kallaða línuívilnun til að bæta hag þeirra sem veiða á línu. Hefur þessi stefna verið tekin upp, að mestu fyrir þrýsting vestan af fjörðum. Stefán Einarsson er ekki hrifinn af þessum hugmyndum:
Það er alveg sama hvað gert er fyrir þessa „vælufirði“, þeir koma alltaf aftur. Hverjir voru það sem börðust fyrir afnámi línutvöföldunarinnar? Það voru þeir sjálfir. Nú vilja þeir fá hana aftur og þar með meira og auðvitað á kostnað annarra. … Málið er það að línutvöfölduninni var hætt á sínum tíma og þeir sem höfðu rétt á henni fengu úthlutað auknum kvóta og þar með var tillit tekið til tvöföldunarinnar. Það er hins vegar þannig að á Vestfjörðum eru kjósendur með meira vægi en annars staðar á landinu og þar er hópur þingmanna sem ætlar sér að ráða sjávarútvegsstefnunni. Á svæðinu eru fyrirtæki sem eru mjög vel rekin, eins og t.d. Hraðfrystihúsið-Gunnvör sem sker sig úr, en svo eru aðrir í því að láta bora göt fyrir sig í kerfið. Þeir hafa lengi getað farið í Byggðastofnun og fengið fyrirgreiðslu með ýmsu móti. Nú er búið að torvelda það, þá vilja þeir fá kvóta til að úthluta. |