Mánudagur 16. júní 2003

167. tbl. 7. árg.

S

Byggðastofnun tapaði 758 milljónum króna á síðasta ári við að veita lán til fyrirtækja sem ekki var rekstrargrundvöllur fyrir.

amkvæmt ársreikningi Byggðastofnunar fyrir síðasta ár var tap af rekstrinum 481 milljón króna. Þegar grannt er gáð var tapið þó mun meira, því ríkissjóður lagði fram 277 milljónir króna til rekstrarins. Tapið var því í raun 758 milljónir króna. Endanlega töpuð útlán stofnunarinnar á síðasta ári námu samanlagt litlum 452 milljónum króna og hún færði niður hlutafé fyrir 109 milljónir króna. Alls gera þetta rúmar 560 milljónir króna. Þetta eru allnokkrar fjárhæðir, sér í lagi þegar litið er á þær sem hlutfall af heildareignum, en eignir Byggðastofnunar, sem samanstanda að stærstum hluta af útlánum, eru rúmir 13 milljarðar króna.

Mikil útlánatöp Byggðastofnunar og niðurfærsla hlutfjár hennar þurfa ekki að koma á óvart. Það liggur í eðli þessarar stofnunar að hún hlýtur að skila slæmum rekstrarárangri. Ef hún skilaði ekki slæmum árangri væri enginn grundvöllur fyrir tilveru hennar og aðrar lánastofnanir gætu veitt þá þjónustu sem Byggðastofnun veitir nú. En staðreyndin er sú að ríkið rekur stofnunina sérstaklega til að veita þeim fyrirtækjum fé sem ekki fá nægt láns- eða áhættufjármagn frá einkaaðilum og skýringin á því er sú að fyrirtækin eru talin slæmir lántakendur. Vilji menn stofna fyrirtæki á landsbyggðinni og ekki er álitinn rekstrargrundvöllur fyrir því fyrirtæki, þá fara þeir til Byggðastofnunar og geta gert sér nokkrar vonir um að hún muni engu að síður lána fé til þessa vonlitla fyrirtækis.

Hér á árum áður varð alræmt þegar sjóðir á vegum ríkisins áttu að bjarga landsbyggðinni með því að veita fé til fiskeldis og loðdýraræktar. Stofnun fyrirtækja á þeim sviðum breytti engu um byggðaþróunina, þó hugmyndin með þeirri byggðastefnu eins og annarri hafi verið að ná fram „jafnvægi í byggð landsins“. Fyrirtæki sem þurfa sérstakan stuðning ríkisins til að hægt sé að stofna þau og setja starfsemina í gang eiga sér yfirleitt ekki mikinn rekstrargrundvöll til lengdar. Svipaða sögu er að segja um hótelbyggingar nú og fiskeldi og loðdýrarækt áður fyrr, þótt fjárhæðirnar sem sóað hefur verið í óarðbær hótel séu vissulega ekki eins miklar og hurfu í fyrrnefnt eldi í tíð síðustu vinstri stjórnar. Í ársskýrslu Byggðastofnunar segir að ljóst sé að víða hafi verið farið offari í uppbyggingu gistirýmis á landsbyggðinni og nýting hafi almennt verið langt undir því sem þurfi til að reksturinn standi undir sér. Það eru engin tíðindi að farið hafi verið offari í hótelbyggingar á landsbyggðinni þegar aðgangur hótelbyggjenda að lánsfjármagni hefur verið of góður. Ályktunin sem eðlilegt væri að draga af því að Byggðastofnun hefur lánað of mikið til hótelbygginga á landsbyggðinni er að stofnunin láti af lánveitingum til fyrirtækja sem ekki geta fengið lánsfé á eðlilegum forsendum. Það ætti með öðrum orðum að draga þá ályktun af þessu að Byggðastofnun hætti starfsemi og ríkið hætti að gera upp á milli fyrirtækja eftir því hvar á landinu þau eru starfrækt.