„Á meðan Evrópusambandið predikar yfir öðrum, ekki síst Bandaríkjunum, um siðferðilega skyldu manna að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, hefur það blasað við frá byrjun að fæst Evrópuríkin eiga nokkurn möguleika á að ná þeim markmiðum sem þau sjálf settu sér með Kyoto samninginum.“ |
– Philip Stott prófessor emeritus London University í viðtali við BBC 6. maí 2003. |
Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá Evrópusambandinu jókst bæði árið 2000 og 2001 en tölur liggja ekki enn fyrir um síðasta ár. Ástæðan fyrir þessari aukningu er einkum kaldir vetur og aukinn útblástur frá samgöngum. Samkvæmt Kyoto samningnum eiga ESB ríkin að vera búin að minnka útblástur sinn um 8% á árunum 2008 til 2012 miðað við það sem hann var árið 1990. Það væri afar neyðarlegt fyrir ESB að geta ekki staðið við samninginn sem sambandið gekk svo hart fram í að önnur lönd undirgengjust. Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) segir að allt stefni í að 10 af 15 ríkjum ESB muni fara yfir þau mörk sem Kyoto samningurinn gerir ráð fyrir.
Í nefndri frétt BBC um þetta mál segir að enn hafi ekki nægilega mörg ríki staðfest Kyoto sáttmálann til að hann hafi öðlast gildi. Í fréttinni segir einnig að Rússar séu mjög hikandi við að staðfesta samninginn. Hikið stafi meðal annars af því að sumir helstu sérfræðingar þeirra um þessi mál telji gróðurhúsaáhrifin vera til hagsbóta fyrir landið. Rússar ætla að halda mikla ráðstefnu í Moskvu í september til að endurskoða þau gögn sem liggja til grundvallar gróðurhúsakenningunum.