Viðræður standa nú yfir milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um áframhaldandi stjórnarsamstarf flokkanna. Flokkarnir þurfa að koma sér saman um margt og móta stefnu í hverjum málaflokki. Einn af þeim eru heilbrigðismálin og er óhætt að segja að þau séu meðal brýnustu verkefna stjórnvalda þar sem þau eru stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisins. Krafan um aukin útgjöld til heilbrigðismála er alltaf fyrir hendi og háværir og áhrifaríkir hópar beita öllum tiltækum ráðum – og sumum ekki nema mátulega geðfelldum – til að þrýsta á um aukin útgjöld í málaflokknum. Útgjöld til heilbrigðismála hér á landi eru nú með því allra mesta sem þekkist í heiminum og hafa vaxið umtalsvert að raunvirði á síðustu árum. Heilbrigðismál voru ekkert rædd í nýafstaðinni kosningabaráttu og má telja fullvíst að ástæðan sé einmitt þessi mikla aukning útgjalda og sú staðreynd að stjórnarandstöðuflokkarnir sjá enga aðra leið til að bæta heilbrigði – eða nokkuð annað ef því er að skipta – en að ríkið eyði meira fé til viðkomandi málaflokks.
Til að ná tökum á þeirri útgjaldaaukningu sem verið hefur í heilbrigðiskerfinu og um leið að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem varið er til þessa málaflokks, er nauðsynlegt að gera breytingar á rekstrinum. Þessar breytingar verða óhjákvæmilega að fela í sér aukinn hlut einkaaðila í rekstri á þessu sviði, enda er ekkert sem segir að ríkið verði að reka sjúkrahús eða aðra hluta heilbrigðiskerfisins, jafnvel þótt ríkið haldi áfram að fjármagna reksturinn að stærstum hluta. Með því að einkaaðilar keppi um að veita þjónustuna geta sjúklingar fengið jafn góða eða betri þjónustu fyrir lægra verð. Þetta þýðir með öðrum orðum að hægt er að lækka útgjöld ríkisins og þar með skatta, án þess að skerða þjónustu heilbrigðiskerfisins. Það er alls ekki óþekkt, hvorki hér á landi né erlendis, að einkaaðilar reki fyrirtæki á sviði heilbrigðisþjónustu. Þó er nokkur hræðsla við þetta, enda hafa sumir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar séð sér hag í því að hræða almenning í þeim tilgangi að veiða atkvæði. Nú þegar kosningum er nýlega lokið mun sá hræðsluáróður líklega verða léttvægari en fyrir helgi.
Dæmi um það hvernig hægt er að ná niður verði heilbrigðisþjónustu með því að auka kostnaðarvitund kaupandans má fá frá Bandaríkjunum. Devon Herric, sem stundar rannsóknir hjá National Center for Policy Analysis þar í landi, hefur í nýrri grein borið saman kostnaðarþróun í þeim hluta heilbrigðisgeirans þar sem almenningur greiðir yfirleitt sjálfur fyrir þjónustuna og hinum hlutanum þar sem þriðji aðili greiðir nánast allan kostnaðinn. Samkvæmt tölum Herric hækkaði heilbrigðisþjónusta almennt um 47% á árunum 1992-2001 en lýtalækningar, sem menn greiða yfirleitt fyrir sjálfir, hækkuðu aðeins um 16% á sama tímabili. Almennt verðlag, neysluverðsvísitalan, hækkaði um 26% á þessu tímabili, sem þýðir að heilbrigðisþjónusta almennt hækkaði langt umfram verðlag, en sú heilbrigðisþjónusta sem bjó við öflugt kostnaðaraðhald þess sem greiddi hækkaði langtum minna en almennt verðlag.