Ef kosningarnar á laugardaginn verða í líkingu við þær skoðanakannanir sem birst hafa að undanförnu, eru töluverðar líkur á því að mynduð verði vinstri stjórn á Íslandi í næstu viku. Það er þá kannski ekki vitlausari hugmynd en hver önnur að gera litla úttekt á íslensku vinstri flokkunum. Óvísindaleg úttekt á þeim gæti kannski orðið eitthvað á þessa leið.
Alþýðuflokkurinn yrði fyrstur á blaði, ef hann bara byði fram, en það gerir hann ekki að þessu sinni. Í hans stað mun komin Samfylkingin en forystu hennar skipa Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þingmaður Kvennalistans, Össur Skarphéðinsson ritstjóri Þjóðviljans, Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins og Bryndís Hlöðversdóttir þingmaður Alþýðubandalagsins. Í baráttusætunum eru svo alþýðubandalagsmennirnir Gísli, Eiríkur og Helgi Hjörvar.
Það má svo sem finna sér auðveldara verkefni en að skilgreina Samfylkinguna, því jafnvel hennar helstu menn eru sjaldnast með það á hreinu hvað hún vill. Og þó, þau vita reyndar að þau vilja völd og það strax, en þau vita ekki alveg hvað þau ætla að gera við þau, en telja sennilegt að úr því megi skera með skoðanakönnun. En á hinn bóginn er að sumu leyti auðvelt að fjalla um þennan undarlega flokk, því fáar kenningar eru þess eðlis að Samfylkingin hafi ekki gert þær að sinni, um stund að minnsta kosti. Einkavæðing til dæmis. Samfylkingin er afar nútímalegur flokkur og vill ekki að ríkið reki starfsemi í samkeppni við einkaaðila og er því alltaf til í að einkavæða opinber fyrirtæki. Nema reyndar akkúrat þegar verið er að einkavæða þau. Þá hittist alltaf svo illa á að tíminn er rangur, það hefði verið betra að gera þetta í fyrra eða kannski á næsta ári. Verðið er svo ekki alveg nógu gott, oftast of lágt – þá er verið að gefa eigur þjóðarinnar – eða of hátt og þá er verið að féfletta kaupendur. Svo er aðferðin bara alltaf röng, það er verið að selja of mörgum eða of fáum og það er eins og stjórnvöld þurfi endilega að selja annað hvort í of stórum eða of smáum skömmtum. Þannig að Samfylkingin getur því miður yfirleitt ekki stutt einkavæðingu þegar það er verið að einkavæða. En þess á milli er hún alveg inná þessari einkavæðingu enda nútímalegur flokkur. Samfylkingin höfðar þannig bæði til þeirra sem vilja einkavæðingu og hinna sem vilja hana alls ekki. Sama gildir um skattalækkanir en Samfylkingin leggur mikla áherslu á þær nema kannski rétt á meðan alþingi tekur ákvarðanir um þær, enda yfirleitt verið að lækka ranga skatta of mikið.
Sigraði Össur glæsilega í leiðtogakjöri með einu atkvæði gegn engu. |
Og þannig er í fleiri málum. Þannig er Samfylkingin flokkur þeirra sem hafa mætur á Össuri Skarphéðinssyni enda er Össur aðalmaður flokksins sem réttkjörinn formaður hans. En Samfylkingin höfðar ekki síður til þeirra sem hafa lítið eða þaðanaf minna álit á Össuri Skarphéðinssyni, því umræddur réttkjörinn formaður er alls ekki leiðtogi flokksins heldur er það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem á dögunum sigraði Össur örugglega í leiðtogakjöri með einu atkvæði gegn engu. Samfylkingin er flokkur þeirra sem vilja að almennir flokksmenn fái sjálfir að velja sér leiðtoga, því Samfylkingin er lýðræðislegur flokkur sem kýs formann í allsherjarkosningu almennra flokksmanna. Og Samfylkingin er ekki síður þeirra sem vilja menntað einræði því raunverulegur leiðtogi er vitaskuld allt annar en sá sem flokksmenn kusu. Þá er Samfylkingin tilvalinn valkostur fyrir þá sem vilja að stjórnmálaflokkunum verði gert skylt að birta bókhald sitt í smáatriðum fyrir pétri og páli, enda talar enginn flokkur meira um siðferðilega nauðsyn þess. Samfylkingin er ekki síður tilvalinn valkostur fyrir þá sem vilja að stjórnmálaflokkar gæti trúnaðar í slíkum málum því Samfylkingin hefur aldrei gefið upp hverjir eru hennar styrktarmenn og er það ótvíræður bónus við flokkinn. Samfylkingin gerir sér tíðrætt um frelsi fjölmiðla og ætti að ná vel til þeirra sem telja það ákjósanlegt. Ekki síður er Samfylkingin skýr valkostur fyrir þá sem vilja að ríkið hafi einkarétt á útvarps- og sjónvarpssendingum, því eins og menn muna þá studdi nákvæmlega enginn þingmaður Samfylkingarflokkanna, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista, það frumvarp sem gaf útvarps- og sjónvarpsrekstur frjálsan á sínum tíma. Í sjávarútvegsmálum höfðar Samfylkingin sterkt til þeirra sem telja auðlindagjald réttu leiðina til sátta í þjóðfélaginu, en eins og menn vita þá töluðu kratar fyrir auðlindagjaldi í meira en áratug, eða allt þar til auðlindanefnd ákvað að fallast á þá tillögu. Frá þeirri stundu hefur Samfylkingin barist fyrir því að aflaheimildir yrðu fyrndar enda hljómar það orð vel í eyrum þeirra sem bera fornar skoðanir í sinni.
Nýtt vörumerki á matvörumarkaði eftir kosningar. Neyðarverslunin opnar 11. maí þegar frjáls afgreiðslutími hefur verið afnuminn. |
Af þessu má ráða að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í stefnu Samfylkingarinnar, að minnsta kosti ef þeir eru heppnir með dag. Þá er ekki síður hægt að telja Samfylkingunni það til tekna að leiðtogi hennar, það er að segja sá sjálfskipaði, er mjög í stíl við flokkinn sjálfan hvað þetta varðar. Þannig höfðar leiðtoginn mjög til þeirra sem eru nútímalegir enda hefur hann ýmis nútímaleg hugtök á hraðbergi auk þess sem hann skýtur orðunum „á 21. öldinni“ inn í flestar setningar sínar því til sannindamerkis. Ekki síður höfðar leiðtoginn til þeirra sem ekki eru alkomnir inn á 21. öldina. Þannig lýsti umrædd því yfir í borgarstjórn Reykjavíkur á sínum tíma að hún teldi að „samkeppni væri dýr og almennt til leiðinda“ og kann það að nokkru leyti að skýra þá staðreynd að hún hefur hingað til ekki séð ástæðu til að taka þátt í prófkjörum eða formannskjöri í stjórnmálaflokkum en sest eingöngu þar sem henni er boðið til sætis án frekari málalenginga. Með sama hætti beitti núverandi leiðtogi Samfylkingarinnar sér gegn frjálsum afgreiðslutíma verslana en stakk þess í stað upp á að borgin ræki bara eina „neyðarverslun“ á kvöldin sem menn gætu þá leitað til ef mikið lægi við. Íþróttamenn ættu að geta fylkt sér um talsmann Samfylkingarinnar enda er leiðtoginn tíður gestur á fjölsóttum kappleikjum, en þeir sem hafa lítið álit á sportmönnum ættu ekki síður að geta stutt leiðtogann en umræddur talsmaður beitti sér árum saman gegn öllum stuðningi Reykjavíkurborgar við keppnisíþróttir. Margir fleiri hafa ástæðu til að fylgja talsmanni Samfylkingarinnar í gegnum þykkt og einkum þunnt. Þeir sem hafa fyrir löngu fengið nóg af þessu liði sem þeytist um á eigin bílum í staðinn fyrir að fara bara með strætóum, reiðhjólum og úlföldum, þeir hljóta að styðja talsmann Samfylkingarinnar. Að minnsta kosti hefur hún lýst þeirri skoðun sinni að einkabíllinn sé „skrímsli“ og lifir að því leyti viðburðaríkara lífi en flest fólk að hún þarf ekki annað en að líta út um glugga til að sjá litfögur skrímsli af öllum stærðum og gerðum. Við hin verðum til dæmis að láta okkur nægja að fara austur að Lagarfljóti og vonast eftir góðu skyggni.
Meira að segja stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins geta kosið Samfylkinguna að þessu sinni því hún býður meðal annars fram einn af fyrrverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokkins og var hann enn flokksbundinn sjálfstæðismaður síðast þegar fréttist. Að vísu er talið að það sé einkum vegna feimni og óframfærni sem hann hefur ekki komið sér til að segja sig úr sínum gamla flokki, en engu að síður er þetta enn ein nýjung Samfylkingarinnar, en hingað til hafa flestir flokkar látið sér nægja að bjóða fram eigin flokksmenn en látið félagsmenn annarra flokka mæta afgangi. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hyggst Samfylkingin meira að segja halda áfram á þessari braut og í næstu kosningum mun hún meðal annars bjóða fram þrjá framsóknarmenn, tvo vinstri græna og einn apa.
Það þarf því ekki að efast um að Samfylkingin mun hafa margt gott fram að færa ef svo tekst til að hún tekur við stjórn landsins núna eftir helgi. Auk áðurnefnds talsmanns er í væntanlegum þingflokki svo mikill fjöldi hæfra manna að helsta áhyggjuefnið er að ekki séu til nægilega mörg ráðuneyti á Íslandi til að allir fái starf við sitt hæfi. Ef Samfylkingin fær nægt fylgi þá er Mörður Árnason næstum sjálfkjörinn menntamálaráðherra, en hann hefur með störfum sínum í útvarpsráði sýnt að hann er rétti maðurinn til að verða páfi andlegs lífs á Íslandi og ekki að efa að í framtíðinni munu skáldin yrkja margar maklegar rímur um ráðherraár hans. Össur Skarphéðinsson verður utanríkisráðherra í næstu vinstri stjórn og verður glæsilegur fulltrúi stoltrar þjóðar. Félagsmálaráðherra næstu vinstri stjórnar verður sem betur fer Jóhanna Sigurðardóttir en hún lumar einmitt á ýmsum ferskum hugmyndum í þeim málaflokki. Guðmundur Árni Stefánsson verður svo heilbrigðisráðherra að nýju og mun taka til óspilltra mála þar sem hann varð frá að hverfa síðast. Er því ekki annað að sjá en Samfylkingin sé þess albúin að taka við stjórnartaumum og má hvetja alla góða menn til að veita henni það lið sem hún á skilið.
Vinstri hreyfingin – grænt framboð er flokkur sem hefur unnið sér það orð að vera almennt „á móti“ því sem hinir flokkarnir hafa fram að færa. Hefur þessu verið mjög haldið gegn flokknum, og verður sú gagnrýni vart skilin öðru vísi en það sé talin sérstök skylda hvers stjórnmálaflokks að styðja stefnu allra hinna. En ef vinstrigrænum er sýnd sanngirni þá verður að játa að það eru hrein ósannindi að flokkurinn sé á móti öllu. Tökum sem dæmi andstöðuna við virkjanir; vinstri-grænir eru mjög hlynntir henni. Eða andstaðan við skattalækkanir? Eða andstaðan við einkavæðingu? Vinstrigrænir eru mjög hlynntir allri þessari andstöðu. Eiginlega skiptir engu hverju er verið að mótmæla, vinstri grænir eru alfarið hlynntir þeim mótmælum og sést af því glögglega hvílík öfugmæli eru fólgin í þeim áróðri óvandaðra manna að vinstrigrænir séu á móti öllu. Vinstrigrænir eru í raun svo jákvæðir að ef undan er skilið allt sem öðrum dettur í hug og allt sem líklegt er til að verða til framfara eða hefur reynst vel annars staðar, þá er varla hægt að finna nokkuð sem vinstri-grænir eru á móti. Nema kannski innganga í Evrópusambandið. Hún yrði ekki til góðs en vinstrigrænir eru samt á móti henni.
Vinstrihreyfingin-grænt framboð var stofnuð fyrir síðustu kosningar eftir að Alþýðubandalagið hafði á stormasömum landsfundi ákveðið að ganga úr Steingrími J. Sigfússyni. Hann brá hart við og stofnaði opinn og víðsýnan umbótaflokk með Hjörleifi Guttormssyni. Flokkurinn bauð fram í öllum kjördæmum og hlaut sex menn kjörna og skeikaði þar ekki nema sex mönnum frá afar vönduðum spám nokkurra faglegra stjórnmálafræðiprófessora sem Ríkissjónvarpið vitnaði mjög til dagana fyrir kosningar. Frelsið er meginstefið í stefnu flokksins og er þar einkum átt við frelsi stjórnmálamanna til að banna okkur hinum flest það sem við höfðum hugsað okkur að gera. Lengi vel höfðu vinstri-grænir og Samfylkingin litlar mætur hvort á öðru og var það auðvitað skiljanleg afstaða. Á síðustu vikum hafa þessir flokkar hins vegar greint frá því að nú stefni þeir að myndun vinstri stjórnar í líkingu við þá sem stýrði landinu svo farsællega á árunum 1988-1991, og er vissulega virðingarvert af þeim að vara fólk við fyrirfram.
Fulltrúar vinstri-grænna í slíkri stjórn yrðu mætir og góðir menn sem engin ástæða er til að amast við. Fyrstan má telja Steingím J. Sigfússon sem yrði fjármálaráðherra og teljast allar skattalækkunarhugmyndir þar með útræddar. Má öllum vera tilhlökkunarefni að formaður vinstri-grænna stjórni skattlagningu á Íslandi. Vinstri-grænir hafa sem kunnugt er marglýst því yfir að þeir hyggist ná til þeirra sem breiðust hafa bökin og verða þeir Hjalti úrsus og Magnús Ver bara að taka því. Kolbrún Halldórsdóttir yrði umhverfisráðherra og verður hennar fyrsta verk að láta hleypa úr Þingvallavatni en vatnið myndaðst á völlunum án lögformlegs umhverfismats og hafði í för með sér talsvert rask. Er mönnum bent á að vera ekki á bökkum Sogs fyrstu klukkustundirnar eftir að Kolbrún tekur við stjórnartaumunum en talið er að nokkuð kunni að hækka í því við þessar aðgerðir væntanlegs umhverfisráðherra. Kolbrún mun af umhverfisástæðum ekki nota embættisbifreið við störf sín, en mun fá reiðhjól Árna Bergmann leigt til lengri ferða. Ögmundur Jónasson formaður BSRB er tilvalinn viðskiptaráðherra væntanlegrar stjórnar og mun hann verða viðskiptum á Íslandi mikil lyftistöng enda kann hann rússnesku auk fjölda orða í öðrum tungumálum. Ögmundur hefur getið sér orð fyrir að hafa gott auga fyrir nýjungum og framförum í verslun og viðskiptum en hann hefur einmitt tryggt sér umboð fyrir hinar vinsælu trabant-bifreiðar sem einhverra hluta vegna hafa alveg horfið af götunum. Er óhætt að fullyrða að lífskjör á Íslandi munu taka stakkaskiptum eftir nokkur góð ár með Ögmundi.
Þriðji flokkur væntanlegrar vinstri stjórnar nefnir sjálfan sig Frjálslynda flokkinn og sýnir það að flokksmenn hafa húmor á við hverja aðra. Flokkinn stofnaði Sverrir Hermannsson fyrrverandi bankastjóri og var flokknum einkum ætlað að berjast gegn spillingu. Hitt mál flokksins er aflamarkskerfið í sjávarútvegi en í þeim málaflokki telja frjálslyndir að sé komið að ögurvíkurstundu. Frjálslyndir hafa lýst yfir miklu stríði á hendur því kerfi enda er það hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi sem sögur kunna frá að greina. Kenna þeir fiskveiðistjórnarkerfinu um allt sem aflaga fer, svona eins og Spánverjar skrifa allt á Franco. Hafa þeir kallað til liðs við sig fjölda manna sem undanfarin ár hafa barið höfðinu við steininn og er núorðið vafasamt að finna megi fleiri meinlokumenn samankomna á einum stað hérlendis en þegar Frjálslyndi flokkurinn heldur fundi sína. Það er meira að segja ekki víst að Samfylkingin slái flokknum við að þessu leyti nema þá með allsherjarherútboði.
Leiðtogi frjálslyndra er stjórnlyndur skipstjóri, Guðjón A. Kristjánsson að nafni. Hann gekk í Frjálslynda flokkinn vorið 1999 eftir að hafa ekki náð því 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum sem hann hafði sóst eftir. Höfðu það orðið mikil vonbrigði fyrir Guðjón sem hafði hugsað sér að berjast eins og ljón fyrir málstað Sjálfstæðisflokksins, en hver veit það betur en gamall skipper að alltaf má fá annað skip og annað föruneyti? Sýndi Guðjón með því að hann hefur stórt hjarta og kann að fyrirgefa, því aðeins örfáum dögum áður en hann gekk í Frjálslynda flokkinn hafði Sverrir Hermannsson skrifað eina af sínum lognmollugreinum í Morgunblaðið og kallað Guðjón „svokallaðan forystumann sjómanna“ sem væru nú flestir hinir „þægustu leppar í skóm sægreifanna“. Flokkurinn hefur lýst því yfir að hann hyggist „innkalla“ aflaheimildir frá þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa þær í dag, og þá hefur flokkurinn einnig lýst því yfir að það sé „ekki ætlan Frjálslynda flokksins með nokkru móti að hrifsa til sín veiðirétt núverandi kvótaeiganda, síður en svo“, svo ekki þarf að hafa frekari orð um sjávarútvegsstefnu þessa ágæta flokks. Ásamt Guðjóni A Kristjánssyni fara fyrir flokknum margir mætir menn sem hver og einn myndi sóma sér vel í þjónustu samfélagsins. Allir flokksmenn frjálslyndra munu gera kröfu um embætti sjávarútvegsráðherra í væntanlegri vinstri stjórn og er vandséð hver yrði farsælastur í starfi.
Fjórði vinstri flokkurinn, Dagur B. Eggertsson, býður ekki fram að þessu sinni, en hugsanlegt er að hann verði fáanlegur til að mynda utanþingstjórn ef nógu fast verður eftir leitað.
Borgarnesi, maí 2003, Vefþjóðviljinn.