Hvernig stendur á því aðrar kosningarnar í röð eru tvö Alþýðubandalög í framboði til þings? Hvað varð um þessa krata sem buðu fram 1995? Vinstri hreyfingin – grænt framboð fer ekki dult með að vera hugmyndafræðilegur arftaki Alþýðubandalagsins og forvera þess og erfingi að hluta þrotabús Kvennalistans. Kvennalistinn var eins og menn muna athvarf fyrir þær konur sem voru of vinstrisinnaðar fyrir Alþýðubandalagið. En er þá ekki Samfylkingin krataflokkurinn? Ja, Alþýðuflokkurinn var fjórðungur stofnfjár Samfylkingarinnar. Hinir hlutarnir voru Þjóðvaki, Kvennalistinn og Alþýðubandalagið eða öllu heldur skuldir þess. Allir helstu forystumenn Samfylkingarinnar eru hins vegar gamlir Alþýðubandalagsmenn eða úr Kvennalistanum; talsmaðurinn í síðustu kosningum, núverandi formaður og varaformaður, að ógleymdu „forsætisráðherraefninu“ í kosningum nú. Össur Skarphéðinsson formaður er fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins, Margrét Frímannsdóttir varaformaður var formaður Alþýðubandalagsins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni kom úr Kvennalistanum. Aðrir frambjóðendur hafa verið samviskusamlega faldir í kosningabaráttunni. Jafnvel nýtt merki Samfylkingarinnar er fengið úr gamla merki Alþýðubandalagsins.
Baráttusæti Samfylkingarinnar |
|
Reykjavík norður | Reykjavík suður |
Helgi Hjörvar 4. sæti | Mörður Árnason 3. sæti |
En gott og vel. Kannski eru forystumennirnir af ystu nöfn villta vinstrisins en aðrir frambjóðendur kunna að vega það upp. Vefþjóðviljinn því hafði samband við kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í því skyni að kynna sér hverjir aðrir frambjóðendur flokksins eru ásamt því að kynna sér helstu styrktaraðila Samfylkingarinnar í kosningunum því Samfylkingin er jú afar opinn og lýðræðislegur jafnaðarmannaflokkur sem hefur ekkert að fela nema frambjóðendur sína og fjármálin. Ef upplýsingarnar sem fengust á skrifstofunni eru réttar og eitthvað er að marka nýjustu skoðanakannanir þá eru í baráttusætum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveir góðir og gildir jafnaðarmenn. Mörður Árnason varaþingmaður til tveggja alda er samkvæmt nýjustu könnunum í baráttusætinu í Reykjavík suður og Helgi Hjörvar virðulegur borgarfulltrúi til margra ára í Reykjavík norður. Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að nota það gegn þeim að þeir eru gamlir Alþýðubandalagsmenn.